Ungversk matarminning

Einu sinni fyrir mörgum árum – ætli þau séu ekki orðin sextán – var ég í árshátíðarferð í Búdapest. Það var mjög fínt en ég hafði reyndar komið til Búdapest áður, var þar í tæpa viku þremur árum fyrr. En þarna gerðist það að vélin sem við áttum að fljúga með heim bilaði og heimförin frestaðist um sólarhring. Mér fannst nú satt að segja ekkert að því að græða dag í Búdapest og lá ekkert á heim en það gilti auðvitað ekki um alla vinnufélagana.

En á mánudagsmorgninum, þegar ég hefði átt að vera í vinnunni heima á Íslandi, rölti ég ein í bæinn í rólegheitum. Sneiddi hjá ferðamannastöðunum, fór inn í hliðargötur og litlar, skringilegar búðir og líka matvörubúðir, búsáhaldabúðir, fornbókaverslanir (ég keypti eina bók á pólsku og aðra á rúmensku en það var reyndar út af myndunum) og var bara að horfa á mannlífið. Og svo var ég orðin svöng og kom auga á lítinn matsölustað sem ég settist inn á. Þetta var enginn túristastaður og enginn talaði ensku eða neitt mál sem ég kann hrafl í og ég skildi ekki bofs í matseðlinum – nema ég sá að þarna stóð gulyásleves og það vissi ég þó hvað var svo að ég pantaði það og gat komið því á framfæri með einhverju móti að ég vildi glas af ungversku hvítvíni með.

Og svo kom gúllassúpan og það var bara langbesta gúllassúpa sem ég hef fengið fyrr og síðar og hafði þó borðað gúllassúpu nær daglega í báðum Ungverjalandsdvölunum og engin þeirra var neitt vond – og svo hef ég oft fengið gúllassúpu annars staðar svosem og eldað hana sjálf. Þessi var sterk svo manni sveið ögn undan henni, kraftmikil og bara sérlega bragðgóð og mér leið afskaplega vel í þessari máltíð.

Og með súpunni voru bornir fram mjúkir paprikusnúðar sem voru alveg ágætir líka. Það mætti kannski ætla að það væri of mikið að hafa paprikusnúða með paprikusúpu en þeir smellpössuðu. Mun mildari en súpan og einstaklega gott að bíta í þá með.

Ég hef aldrei reynt að endurskapa þessa gúllassúpu því að ég hef ekki hugmynd um hvað það var sem gerði hana svo góða. Ég elda vissulega af og til gúllassúpu með ýmsum tilbrigðum og hver veit, kannski dett ég einhverntíma ofan á þetta – en það verður fyrir tilviljun. Ég hef hins vegar stundum reynt að líkja eftir paprikusnúðunum því það er mun auðveldara. Kannski er ég komin býsna nálægt því en ég veit það nú ekki alveg því að satt að segja er ég búin að gleyma hvernig þeir voru nákvæmlega (en ég man alveg bragðið af súpunni) en það gerir þá ekkert til því að paprikusnúðar eru bara alveg ágætir í ýmsum útfærslum. Og hér er sú nýjasta, ég gerði hana fyrir októberblað MAN.

_mg_6236

Ég byrjaði á að setja 60 ml af ylvolgu vatni (það eru fjórar matskeiðar) í hrærivélarskál, stráði 2 tsk af þurrgeri yfir og lét standa í nokkrar mínútur. Hrærði þá 100 ml af sýrðum rjóma,  einu eggi, tveimur matskeiðum af olíu, einni teskeið af salti og 150 g af hveiti saman við.

_mg_6241

Ég bætti svo við um það bil 250 g af hveiti (semsagt um 400 g alls) smátt og smátt, þar til deigið var þykkt og slétt en þó svo blautt að það klessist enn svolítið við hendurnar. Hnoðaði það vel í vélinni og svo aðeins með höndunum og lét það svo lyfta sér í 1-1 1/2 klst.

_mg_6243

Á meðan setti ég 2 msk af paprikumauki úr krukku (ég held að ég hafi notað mauk frá Sacla en það má vera hvað sem er) í skál og hrærði saman við það 2 msk af ólífuolíu og 1 msk af paprikuduftu.

_mg_6245

Þegar deigið var búið að lyfta sér tók ég það og flatti út á vel hveitistráðu borði í rétthyrning, um 25×35 cm.

_mg_6248

Svo smurði ég paprikumaukinu á deigið, ekki alveg út á brúnir.

_mg_6249

Síðan rúllaði ég deiginu upp í vefju frá annarri langhliðinni og skar vefjuna í 12-16 búta.

_mg_6250

Svo raðaði ég snúðunum á pappírsklædda bökunarplötu með góðu millibili og lét þá lyfta sér á meðan ég hitaði ofninn í 200°C. Ég penslaði snúðana með slegnu eggi og stráði svolitlu paprikudufti yfir þá.

_mg_6262

og bakaði þá í miðjum ofni í 18-20 mínútur, eða þar til þeir höfðu lyft sér vel og tekið fallegan lit.

paprikusnudar-8

Nei, þeir eru nú ekki alveg eins og snúðarnir sem ég fékk í Búdapest um árið. En alveg ágætir samt.

screen-shot-2016-11-06-at-21-00-29

Ungverskir paprikusnúðar

60 ml ylvolgt vatn

2 tsk ger

100 ml sýrður rjómi

1 egg

2 msk olía

1 tsk salt

400 g hveiti, eða eftir þörfum

2 kúfaðar matskeiðar paprikumauk

2 msk ólífuolía

1 msk paprikuduft (og meira til að strá yfir)

1 egg

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s