Mauk frá Miðjarðarhafsströndum

Þá er eldhúsið mitt loksins tilbúið – ég flutti hingað í Efstalandið fyrir þremur mánuðum en það dróst aðeins að gera breytingar á eldhúsinu til að laga það að mínum þörfum, koma fyrir uppþvottavél, stækka vaskinn, skipta um borðplötu og fleira – en það kláraðist á föstudaginn og ég er einstaklega ánægð með útkomuna. Mér leið vel hér á nýja staðnum áður en núna ennþá betur. Og það verður mikið eldað í þessu eldhúsi, það held ég að mér sé óhætt að fullyrða.

Ég ætla nú samt að koma hér með uppskrift úr gamla eldhúsinu því það var nú hægt að gera alla hluti þar þótt það væri að mörgu leyti óhentugt og eldhúsinnréttingin væri að detta í sundur (þetta var spurning um að skipta um innréttingu eða skipta um íbúð og það síðarnefnda var eiginlega minna vesen). Ég hef átt fáein eldhús um dagana og þau hafa flest verið lítil og óhentug. En þetta er rúmgott þótt það sé ekki flennistórt, opið og bjart og afskaplega vel skipulagt, finnst mér.

En það var uppskriftin, já. Og af því að ég er nú að vinna hjá bókaútgáfu og jólabókaflóðið er skollið á ætla ég aðeins að plögga … Ég er í sjálfu sér ekki með neina bók á jólamarkaði en ég sendi nú samt frá mér tvær matreiðslubækur á árinu sem fengu fínar viðtökur, Létt og litríkt og svo þessa hér, Eitthvað ofan á brauð:

Eiithvad_ofan_a

Þetta er, eins og nafnið bendir óneitanlega til, bók með uppskriftum að áleggi af ýmsu tagi. Eitthvað af þeim hefur nú birst hér og ég ætla að bæta einni við núna. Þetta er, eins og sítrónusmjörsuppskriftin um daginn, eitthvað sem fólk kaupir gjarna í krukku en er auðvelt að gera heima og laga þá að eigin smekk og þörfum. Ýmsar uppskriftir að því tagi eru í bókinni en líka að ýmsu nýstárlegu sem ekki fæst úti í búð.

Tapenade er mauk sem ættað er frá Provence í Suður-Frakklandi og uppistaðan í því er ólífur en það inniheldur yfirleitt einnig kapers, ansjósur, hvítlauk, sítrónusafa og ólífuolíu. Það er þó hægt að sleppa ansjósunum og gera útgáfu sem hentar fyrir grænkera; þá má e.t.v nota aðeins meira af kapers og hvítlauk í staðinn, eða jafnvel svolítið dijonsinnep.

_mg_7598

Aðalatriðið er þó gæði ólífanna og helst ætti að nota nicoise- eða kalamata-ólífur þótt aðrar komi svosem til greina. Svo er ekkert bannað að nota góðar grænar ólífur … En ég var með kalamata-ólífur, 100 grömm.

_mg_7600

Ég byrjaði á að steinhreinsa ólífurnar. Einhvers staðar á ég nú sérstakt áhald til þess en satt að segja finnst mér bara einfaldast að nota lítinn, beittan hníf.

_mg_7603

Og svo opnaði ég ansjósudós. Eins og ég sagði hér áður er hægt að sleppa ansjósunum en það verður nú samt ekki alvöru tapenade úr því … Ég veit að ýmsir eru lítt hrifnir af ansjósum en þær gefa allt öðruvísi bragð þegar þær eru notaðar í sósur, mauk og þess háttar en þegar þær eru hafðar t.d. á pítsu. (Í bókinni er t.d. uppskrift að mjög góðu ansjósu- og steinseljumauki.)

Ég þurfti bara tvö ansjósuflök af þeim sem í dósinni voru en það er ekkert mál að geyma afgangsansjósur. Ef þær eru teknar úr dósinni og settar í litla krukku ásamt olíunni (svo má bæta við ólífuolíu ef þarf til að fljóti alveg yfir) og krukkunni lokað geymast þær í nokkra mánuði í kæli. Olían þykknar kannski en verður fljótandi aftur við stofuhita svo að það er í lagi. En svo má líka frysta ansjósurnar og þá er best að dreifa flökunum á disk klæddan með bökunarpappír og lausfrysta þau og setja þau svo í plastpoka, þá má taka eitt og eitt flak úr frysti eftir þörfum.

_mg_7604

Ég setti semsagt ólífurnar og ansjósuflökin tvö í matvinnsluvél ásamt einni matskeið af kapers …

_mg_7605

… einum hvítlauksgeira, grófsöxuðum,  laufi af nokkrum timjangreinum (eða heilum greinum ef stönglarnir eru mjúkur) hvítlauk, timjani og einni matskeið  af sítrónusafa.

_mg_7606

Ég maukaði þetta gróft og þeytti svo þremur matskeiðum af olíu saman við smátt og smátt. Lét vélina ganga þar til mér fannst maukið hæfilega fínt – grófleikinn er smekksatriði.

_mg_7611

Ég setti maukið svo í litla krukku. Það geymist ágætlega en það má auka geymsluþolið með því að slétta yfirborðið vel og hella þunnu lagi af olíu yfir.

_MG_7634.jpg

Tapenade er gjarna haft sem forréttur eða pinnamatur með snittum og kexi en það er einnig notað til að bragðbæta sósur eða sem meðlæti, t.d. með lambakjöti eða fiski.

*

Tapenade 

100 g svartar ólífur

1 msk kapers

2 ansjósur

1 hvítlauksgeiri, lítill

lauf af nokkrum timjangreinum

1 msk sítrónusafi

3 msk ólífuolía

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s