Notalegheitamatur fyrir notaleg heimili

Ef einhverjar minningargreinar verða skrifaðar um mig þegar ég hrekk upp af, hvenær sem það verður nú, þá veit ég allavega um eitt sem ekki mun standa í þeim. Það mun enginn skrifa „Hún bjó manni sínum fallegt/indælt/yndislegt heimili.“ Vissulega er það ólíklegt þegar af þeirri ástæðu að ég á engan mann og hef ekki átt langalengi. En ég hef heldur ekki  verið mikið í útlitspælingum eða yndislegheitum hvað heimilið áhrærir í áranna rás. Ég er ekki mikið fyrir heimilishald, satt að segja. Mér finnst eiginlega bara gaman að elda og baka en allt annað situr gjarna á hakanum.

En samt er ég nú búin að koma mér alveg ágætlega fyrir hér í nýju íbúðinni og það er bara dálítið huggulegt hér, finnst mér. Jafnvel frekar snyrtilegt, sem sennilega kemur þeim sem til þekkja á óvart. Og ég held sveimér þá að það gæti orðið svona áfram. Mér líður nefnilega einstaklega vel hér. Svo að kannski skrifar einhver um mig þegar ég fell frá: „Hún bjó sjálfri sér notalegt heimili.“ Það þætti mér gott.

Eða ekki, ég mun náttúrlega ekkert af því vita. Eins og dóttursonur minn sagði einhverju sinni þegar ég var að segja fjölskyldunni við kvöldverðarborðið um hvernig ég vildi hafa útförina mína þegar þar að kæmi (ekki ódæmigert umræðuefni yfir kvöldmatnum hér á bæ) – hann hlustaði á og skaut svo inn í:

„Þér verður sama. Þú verður dauð.“

Sem er náttúrlega alveg rétt hjá honum. En kemur ekki í veg fyrir að ég hafi skoðanir á meðan ég tóri enn.

En hvað sem því líður, þá er hér notalegheitamatur af því tagi sem er afskaplega gott að borða á þessu notalega heimili mínu á vetrarkvöldi. En ég borðaði hann reyndar ekki sjálf, því ég gerði þetta fyrir haustblað MAN og notaði malt í hann. Það er sætt svo ég sleppti honum (það var nóg annað á borðum). Þeir sem smökkuðu hrósuðu réttinum hins vegar töluvert. Og svo má líka sleppa maltinu og nota t.d. dökkan bjór í staðinn. Aðeins annað bragð en gengur alveg upp.

_mg_6138

Ég var með svona 1 kg af osso buco (nautaskönkum), sem mér finnst oft besta kjötið í svona hægmallaða pottrétti, en það má líka nota nautagúllas og það þarf þá styttri suðu. Ég byrjaði á að skera kjötið af beinunum (en setti þau samt með í pottinn, það er svo gott að fá kraftinn úr þeim) og skar það í  fremur stóra bita. Ég setti 4 msk af hveiti á disk, blandaði pipar og salti saman við og velti kjötinu upp úr blöndunni (geymdi svo það sem eftir var af hveitinu).

Ég hitaði svo 2 msk af olíu í þykkbotna potti og brúnaði kjötið vel á öllum hliðum. Tók það svo upp með gataspaða og setti á disk. Setti 2 msk af olíu í viðbót í pottinn. Svo skar ég 350 g af gulrótum, 3 sellerístönga og 2 lauka í bitann, saxaði 6 hvítlauksgeira smátt og setti þetta allt í pottinn og lét krauma í um 10 mínútur við meðalhita. Svo hellti ég 2 msk af balsamediki yfir og lét það sjóða niður. Síðan setti ég kjötið aftur í pottinn.

Ég tók svo 1 tsk af lakkrísdufti (ég notaði lakkrísduft frá Johan Bülow, en það má nota aðrar tegundir eða bara bita af lakkrísrót) og blandaði saman við afganginn af hveitinu, stráði þessu yfir kjötið og grænmetið í pottinum, bættu við 2-3 lárviðarlaufum (ég nota fersk lauf sem ég rækta sjálf) og hrærði vel. Síðan hellti ég úr einni dós af maltöli (500 ml) í pottinn, bætti við vatni svo að rétt flaut yfir …

_mg_6190

… setti lok á pottinn og lét malla við mjög vægan hita í 3-4 klst., eða þar til kjötið var orðið alveg meyrt. Hrærði í af og til og bætti við vatni eftir þörfum. Í lokin fannst mér sósan þó aðeins of þunn svo að ég tók lokið af og hækkaði hitann nokkra stund til að láta hana sjóða aðeins niður.

nautakjot-i-lakkris-maltsosu-8

Ég smakkaði þetta svo og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. Síðan bar ég réttinn fram með kartöflustöppu en það mætti svosem líka hafa annað grænmeti, hrísgrjón eða pasta.

*

Nautakjöt í lakkrís-maltsósu

1 kg osso buco eða nautagúllas

4 msk hveiti

pipar og salt

4 msk olía

350 g gulrætur

3 sellerístönglar

2 laukar

6 hvítlauksgeirar

2 msk balsamedik

1 tsk lakkrísduft eða biti af lakkrísrót

2-3 lárviðarlauf

1 dós maltöl

vatn eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s