Bókatíðindin eru ekki komin enn en ég veit að það eru allavega mun fleiri matreiðslubækur í þeim en í fyrra. Þá voru þær ekki nema eitthvað um tíu og af þeim átti ég tvær, Sætmeti án sykurs og Ömmumat Nönnu. Reyndar á ég aftur tvær bækur í ár, Létt og litríkt og Eitthvað ofan á brauð – en þær eru töluvert lægra hlutfall af matreiðslubókaútgáfunni þetta árið. Sem er nú ágætt.
Þær komu líka báðar út á fyrri hluta ársins, ekki í jólabókaflóðinu, eins og reyndar bækurnar í fyrra líka. Mér finnst það fínt; ykkur að segja er það ekki uppáhaldsiðja mín að sitja einhvers staðar í stórmarkaði eða verslanamiðstöð og brosa til misáhugasamra viðskiptavina í jólainnkaupum og bjóða þeim smakk. Þótt það sé alltaf gaman að hitta áhugasamt fólk og spjalla um mat og uppskriftir, það vantar ekki.
Ég sé líka að margar af matreiðslubókunum sem eru að koma eru með áherslu á hollustu og heilsu, sem er auðvitað mjög gott og ég veit að það er mikill áhugi á slíkum bókum og þær seljast vel. Sumar allavega. Ég hef nú sjálf lagt aukna áherslu á hollustu í mínum bókum og uppskriftum á seinustu árum, t.d. í Létt og litríkt, en stundum finnst mér þetta allt einum of og kannski einblínt of mikið á tískuhráefni og heilir fæðuflokkar fordæmdir án þess að fyrir því séu mikil rök. Um þetta og fleira skrifaði kunningjakona mín, rithöfundurinn Bee Wilson, nýlega grein sem mér finnst nokkuð góð.
Þegar mér finnst nóg um allt hollustutalið segi ég stundum að ég ætli mér að skrifa matreiðslubók sem beri titilinn Engin helvítis hollusta. En líklega geri ég það nú ekki. Ég held örugglega áfram að blanda saman hollustu og sukki eins og ég hef gert – jæja, eða hollum og aðeins minna hollum hráefnum – og reyni að halda einhverju jafnvægi í þessu. Ég var t.d. að gera þátt fyrir jólablað MAN þar sem sukk og hollusta fara ansi vel saman. Finnst mér.
Og jújú, ég vinn líka með alls konar tískuhráefni (nema ekki agavesíróp og vínsteinslyftiduft, það hef ég alveg látið eiga sig, enda reyndist annað vera verra en sykur og hitt er bölvaður óþarfi). Hér er til dæmis uppskrift með kínóa. Ég gerði hana fyrir Sölufélag garðyrkjumanna og hún hentar fyrir grænkera (vegan) ef maður sleppir fetaosti. Bráðholl alltsvo. Glútenlaus og allt …
Kínóakornið – sem reyndar er fræ en ekki korn – þykir sérlega næringarríkt. En það mætti líka nota t.d. hrísgrjón í þennan rétt. Ef verið er að elda eitthvað annað úr paprikum er upplagt að taka botnana af þeim frá og nota til að fylla en það má líka nota hálfar paprikur, skornar langsum.
Ég tók engar myndir af vinnuferlinu, því miður.
En ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Ég hafði gert peperonata fyrr um daginn og notaði þá þónokkrar paprikur sem ég skar neðri hlutann af og geymdi en notaði hitt í peperonatað. En það má líka nota heilar paprikur og skera þær þá í tvennt eftir endilöngu (frá stilknum). Ég hreinsaði fræin og hvítu rifin innan úr paprikunum og raðaði þeim í eldfast mót, dreypti 1 msk af olíu jafnt yfir og bakaði paprikurnar í 15 mínútur, eða þar til þær voru aðeins farnar að mýkjast.
Á meðan setti ég 150 g af kínóa í fínt sigti, skolaði það vel undir kalda krananum og lét svo renna af því. Síðan hitaði ég 1 ½ msk af ólífuolíu í potti og lét 2-3 saxaða hvítlauksgeira, 3 saxaða vorlauka og eitt chilialdin (eða hálft) krauma í henni í nokkrar mínútur. Kryddaði með 1 tsk af kummini, pipar og salti og setti svo kínóað út í, ásamt 3-4 söxuðum tómötum, 300 ml af vatni og 1 tsk af grænmetiskrafti. Lét þetta malla í 15 mínútur.
Ég tók svo paprikurnar út, skipti fyllingunni jafnt á þær, myldi dálítinn fetaost yfir helminginn af þeim (eða engar eða allar, eftir behag) og bakaði í 15-20 mínútur …
… eða þar til paprikurnar voru orðnar meyrar og osturinn farinn að taka lit. Svo bar ég þær fram heitar með grænu salati.
Fylltar paprikur með kínóa
3 paprikur eða botnar af 6 paprikum
3 msk ólífuolía
150 g kínóa
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
3 vorlaukar, saxaðir
½ -1 chilialdin, fræhreinsað og saxað
1 tsk kummin
pipar
salt
3-4 tómatar, saxaðir
300 ml vatn
1 tsk grænmetiskraftur
e.t.v. fetaostur