Nú er veturinn kominn, það fer ekkert á milli mála. Fimm vikur til jóla eða svo. Fólk sem er eitthvað í kökuhugleiðingum þessa dagana er ábyggilega bara í jólabakstri. Ég er nú mikið til hætt slíku, borða enda engar hefðbundnar jólasmákökur sjálf og verð ekki á landinu um jólin. Baka þó líklega einhverjar smákökusortir svona upp á hefðina. En lítið af hverri. Og engar sautján sortir hér.
En hér er samt kökuuppskrift sem er bara ekkert jólaleg og ekkert rosalega vetrarleg heldur. Minnir eiginlega meira á sól og sumar, enda brasilísk og ég bakaði hana í júlí. Þá er að vísu hávetur í Brasilíu en ekki frost og snjór … Ég mundi eftir henni í dag af því að það var ferskur ananas á borðum í vinnunni. Þegar ég bakaði kökuna í sumar fór ég einmitt með hana í vinnuna því mig vantaði smakkara og það er aldrei skortur á þeim þar. Þeir voru nokkuð lukkulegir með þessa köku.
Þetta er brasilísk kaka – bolo de castanás do pará – og þá notar maður auðvitað brasilíuhnetur. Eða það er gert þar. En þær heita auðvitað ekki brasilíuhnetur í Brasilíu, heldur parahnetur. Það má örugglega nota aðrar hnetur líka …
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 175°C. Ég tók 140 g af brasilíuhnetum og setti 100 g af þeim í matvinnsluvél og lét ganga þar til komin var fremur gróf mylsna.
Afganginn af hnetunum skar ég í flísar með hníf. Ekkert sérlega þunnar eða reglulegar flísar, samt, það er óþarfi. Það má líka bara grófsaxa hneturnar.
Svo tók ég 225 g af mjúku smjöri og 200 g af sykri (þessi kaka er semsagt ekki fyrir mig) og þeytti þetta vel saman. Svo þeytti ég þremur eggjum saman við, einu í senn.
Síðan er að bragðbæta deigið og það ætti að vera 1 msk af kakólíkjör. En ég átti nú ekki svoleiðis á barnum mínum svo að ég setti eina eða kannski tvær matskeiðar af súkkulaðiíssósu. Já, og 1 tsk af vanillu (hvort sem líkjörinn er notaður eða ekki).
Síðan blandaði ég 225 g af hveiti hveiti, 75 g af kókosmjöli, 1 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti saman og hrærði því saman við deigið til skiptis við 250 ml af mjólk.
Blandaðu að lokum möluðu hnetunum saman við (en ekki flögunum). Hellti deiginu í smurt meðalstórt tertuform og sléttaði yfirborðið dálítið.
Síðan stráði ég hnetuflögunum/söxuðu hnetunum yfir og bakaði kökuna neðst í ofni í 40-45 mínútur, eða þar til hún var svampkennd og fallega gullinbrún.
Ég lét hana kólna á grind …
… og svo bar ég hana fram með ferskum ananas. Það mætti auðvitað hafa aðra ávexti eða sleppa þeim bara. Og ég hafði líka 36% sýrðan rjóma með en nú fæst hann ekki lengur, því miður (ég bý reyndar bara til minn eigin).
Kakan þótti bragðgóð og mjúk. Getur maður sagt safaríkur um köku? Ég veit ekki en einhver notaði það orð um þessa.
*
Bolo de castanás do pará – brasilíuhnetukaka
140 g brasilíuhnetur
225 g smjör, mjúkt
200 g sykur
3 egg
1 msk kakólíkjör (eða súkkulaðisósa)
1 tsk vanilluessens
225 g hveiti
75 g kókosmjöl
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
250 ml mjólk
e.t.v. ferskur ananas