Minnug þess að það er enn veganúar ætlaði ég að setja hér inn uppskrift að afbragðsgóðum grænmetisrétti sem ég gerði einu sinni. En ég finn ekki myndirnar sem ég tók þrátt fyrir töluverða leit svo að það verður að bíða … Þannig að hér kemur stutt og einföld uppskrift sem inniheldur að vísu engar dýraafurðir þannig að hún er náttúrlega vegan en þetta er náttúrlega ekki matur. Bara nasl, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá dótturdótturinni.
Saltmöndlur – nú, það eru bara möndlur, salt og vatn og tekur bara nokkrar mínútur að gera þær. Á myndunum af tilbúnu möndlunum sjást reyndar líka kryddaðar brenndar möndlur en það er ekki uppskrift að þeim, ég var ekki 100% ánægð með þær og á eftir að gera þær aftur.
Ég byrjaði á að blanda saman 4 msk af vatni og 1 tsk af flögusalti (má vera dálítið meira, fer eftir hve saltar maður vill hafa möndlurnar) og hræra þar til saltið var uppleyst.
Svo tók ég 150 g af heilum möndlum – ég var með blöndu af möndlum með hýði og afhýddum möndlum – setti þær á þurra, þykkbotna pönnu og þurrristaði þær við góðan hita í um 5 mínútur. Hrærði oft í á meðan og gætti þess að þær brynnu ekki.
Svo hellti ég saltvatninu á pönnuna, hrærði í …
… og lét sjóða þar til allt vatnið var gufað upp og möndlurnar þaktar saltlagi.
Þá hellti ég þeim á bökunarpappír, dreifði úr þeim og lét þær kólna.
Flóknara er það nú ekki.
Saltaðar möndlur
150 g möndlur
4 msk vatn
1 tsk flögusalt
[…] möndlur, þá má nú finna uppskriftir að þeim líka. Til dæmis brenndum möndlum eða söltuðum möndlum eða einhverju slíku. Jafnvel kryddaðri […]