Það er svosem ekki kalt í veðri núna, ekki hér á suðvesturhorninu allavega, og þess sér dálítið stað í matargerðinni hjá mér – það er ekki eins mikið af pottréttum og matarmiklum súpum og þegar vetrarlegra er umhorfs. Það er kannski ekki Miðjarðarhafsveður (og þó, það er víst ansi napurt þarna suðurfrá núna) en Miðjarðarhafsgrænmeti hefur samt verið nokkuð oft á borðum. Þessi réttur hentar vel í veganúar en er að vísu ekki nýr, ég gerði þetta fyrir MAN fyrr í vetur.
Suðurfranski grænmetisrétturinn ratatouille er nú oftast bara kássa úr grænmetisbitum sem látnir eru malla saman í kássu en það er gaman að breyta til og kannski ögn sparilegra að gera þetta svona. Auðvitað er þetta ekki ratatouille þótt hráefnið sé nokkurn veginn það sama og í kássunni og bragðið verður annað vegna þess að grænmetið er ekki látið sjóða saman og bragðið blandast ekki eins en það er nú bara alveg ágætt fyrir því.
Ég byrjaði á að búa til sósuna. Saxaði 1 lauk og 2-3 hvítlauksgeira smátt og lét krauma í 2 msk af ólífuolíu í 6-8 mínútur. Kryddaði með 1 tsk af óraganói, 1/2 tsk af basilíku, 1/2 tsk af kummini, 1-2 lárviðarlaufum (má sleppa en ég á þau alltaf til fersk), pipar og salti og hrærði svo 1 dós af söxuðum tómötum saman við.
Bætti svo við vel kúfaðri matskeið af rauðu pestói og lét malla í um 10 mínútur. Bætti við svolitlu vatni til að þynna aðeins, ekki víst að þess þurfi. Smakkaði svo sósuna og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.
Á meðan sósan mallaði skar ég niður grænmetið: einn kúrbít (stóran og sveran), 2 eggaldin (lítil) og 1 gula og 1 rauða papriku (þær lengstu og mjóstu sem ég fann). Það er nefnilega betra að það sé ekkert rosalega mikill stærðarmunur á sneiðunum. Ef paprikurnar eru mjög stórar má þó skera sneiðarnar í tvennt. Og svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 180°C.
Ég hafði soðið sósuna á steypujárnspönnu og notaði hana bara fyrir réttinn en annars má nota kringlótt, eldfast form, hæfilega stórt (sirka á stærð við meðalstórt tertuform eða heldur stærra). Ég tók um fjórðung af sósunni frá og setti til hliðar en byrjaði svo að raða eggaldin-, kúrbíts- og paprikusneiðum til skiptis í hring með börmum mótsins, beint ofan í sósuna. Ég setti hring í miðjuna til að styðja betur við sneiðarnar (það má líka nota skál eða eitthvað annað).
Þegar ég var búin að raða öllu grænmetinu fjarlægði ég hringinn úr miðjunni en setti í staðinn 200 g af kirsiberjatómötum (eða venjulegum tómötum, grófsöxuðum.
Svo dreifði ég afganginum af sósunni jafnt yfir hringinn (ekki miðjuna), setti pönnuna/mótið í ofninn og bakaði á neðstu rim í um 45 mínútur.
Svo er bara að bera þetta fram, e.t.v. skreytt með basilíku.
Ef allir borða ost er líka tilvalið að strá rifnum parmesanosti yfir réttinn áður en hann fer í ofninn (en þá er hann náttúrlega ekki vegan). Með þessu má hafa gott brauð og grænt salat en það væri líka tilvalið að hafa soðið perlubygg, hrísgrjón eða kúskús með.
*
Ratatouille-krans
1 kúrbítur, fremur stór
2 eggaldin, lítil
1 rauð og 1 gul paprika
200 g kirsiberjatómatar, gjarna blandaðir litir
basilíkublöð til skreytingar (má sleppa)
Sósa:
1 laukur
2–3 hvítlauksgeirar
2 msk ólífuolía
1 tsk óreganó, þurrkað
1/2 tsk basilíka, þurrkuð
1/2 tsk kummin (cumin)
pipar og salt
1 dós saxaðir tómatar
1 kúfuð matskeið rautt pestó