Tætt og gott

Það var verið að ræða tætt svínakjöt – pulled pork – í vinnunni á föstudaginn og því var það að þegar ég kom við í búð á heimleiðinni og fór að svipast um eftir einhverju til að gefa fjölskyldunni í mat á laugardagskvöldið, þá rak ég fljótt augun í grísabóg. Og þar sem sá afkomandi minn sem borðar ekki rautt kjöt (nema stundum) var forfallaður, þá voru örlög þessa ágæta grísabógs eiginlega ráðin.

Það eru til ýmsar aðferðir við að elda tætt svínakjöt (og það þarf svosem ekki endilega að vera svínakjöt) en lykillin er löng, hæg eldun við vægan hita. Í þetta notar maður ekki meyra og magra bita, heldur seigari bita sem verða smátt og smátt meyrir og bragðmiklir – og safaríkir ef þetta er rétt gert – og á endanum er kjötið svo meyrt að það er ekkert mál að tæta það í sundur með tveimur göfflum.

Hvort sem kjötið er eldað uppi á eldavélinni eða inni í ofni (ég er ekkert að fara út í grilleldamennsku hér), þá er gott að hafa góðan pott. Það þarf samt ekkert að vera steypujárnspottur og það þarf alls ekki að vera Le Creuset. Svoleiðis pottar henta reyndar mjög vel en það er hægt að komast af með ódýrari græjur og það er meira að segja vel hægt að nota steikarform eða eldfast mót – helst með loki en sé það ekki fyrir hendi, þá má bara breiða álpappír vel yfir eða helst vefja hann utan um til að halda öllum rakanum inni.

Allavega, ég keypti bóg sem var um 2,6 kg. Hann var með pöru en ég byrjaði á að skera hana af og lét mestallt fitulagið fylgja – þó ekki alla fituna.

_mg_2720

Svo útbjó ég kryddblönduna: 1 msk chilikrydd (ekki chilipipar, mér finnst alltaf vissara að taka það fram, ég er semsagt að tala um chili powder, sem er kryddblanda), 1 msk paprikuduft, 1 tsk kummin, 1 tsk hvítlauksduft, cayennepipar á hnífsoddi, 1 tsk pipar og 2 tsk salt. Blandaði þessu saman í skál.

_mg_2723

Ég neri svo kryddinu vel inn í kjötið á öllum hliðum. Lét það standa á eldhúsbekknum í svona klukkutíma en það má líka hafa það í ísskáp í allt að sólarhring. Hitaði svo ofninn í 150°C.

_mg_2724

Tók svo þrjá lauka, flysjaði þá og grófbrytjaði, setti svona 1 tsk af olíu á botninn á ofnpotti  og dreifði lauknum á botninn. Setti svo kjötstykkið ofan á, lokaði pottinum og setti hann í ofninn þar sem hann fékk að dúsa við 150°C í fjóra tíma. Rúmlega. Ég opnaði ekki einu sinni ofninn en það er allt í lagi að líta á kjötið einu sinni eða tvisvar ef maður hefur áhyggjur af því. Og svo má hafa hitann lægri og tímann lengri.

En svo var það sósan. Það má auðvitað nota venjulega barbikjúsósu, keypta eða heimagerða (til dæmis barbikjúsósu keypta í búð sem látin er malla nokkra stund með sama magni af maukuðum tómötum) en slíkar sósur eru sætar – stundum mjög sætar – og við mæðgurnar viljum ekki svoleiðis. Ég nota gjarna döðlur til að sæta en nú var von á döðluhatandi syninum í mat líka svo það gekk ekki.

_mg_2736

Ég átti hins vegar til eitt mangó sem var búið að eiga nokkuð langa viðdvöl í ísskápnum og var mjög vel þroskað en þó ekkert farið að skemmast. Svo að ég flysjaði það og skar í bita, setti í matvinnsluvélina með innihaldinu úr einni dós af söxuðum tómötum og maukaði vel.

_mg_2740

Á meðan saxaði ég einn lauk og þrjá hvítlauksgeira og lét krauma í 1 msk af olíu við meðalhitaí  nokkrar mínútur. Hellti svo mangó-tómablöndunni út í og bætti við 1 msk af chilikryddi (ekki chilipipar), 1 tsk af engifer (dufti), 1/4 tsk af negul, pipar og salti.

_mg_2747

Svo hrærði eg 2 msk af sérríediki (má vera eplaedik) og 1 msk af balsamediki saman við, ásamt 1 msk af worchestersósu. Bætti við svolitlu vatni og lét þetta malla rólega í svona 20 mínútur. Ef sósan þykknar um of má bæta við meira vatni. Svo smakkaði ég hana og bragðbætti eftir þörfum.

_mg_2751

Nú var kjötið búið að vera í rúmar 4 klst í ofninum og ég tók pottinn út og opnaði hann. Jú, hér var allt eins og það átti að vera, kjötið svo meyrt að það var að detta í sundur og bragðmikið soð á botninum.

_mg_2745

Kjötið var svo meyrt að ég gat tekið siíkonsleikju (með mjúku blaði, ekki stífu) og skorið kjötið með henni.

_mg_2758

Ég reyndi að stinga tveim göfflum í stykkið og lyfta því yfir á bretti en það datt bara í sundur, ég þurfti að flytja það í nokkrum bitum. Lét svo rjúka úr því í nokkrar mínútur.

_mg_2752

Það er alveg hægt að nota þetta bragðmikla soð, sem er ekki eins feitt og ætla mætti  (en það má fleyta fitu ofan af) í sósuna (annaðhvort sía laukinn frá eða mauka hann saman við) en ég var með annað í huga.

_mg_2754

Ég var með þrenns konar niðursoðnar baunir – pintóbaunir, rauðar nýrnabaunir og svartar nýrnabaunir. Það má líka nota aðrar tegundir, eða bara eina. Hellti úr öllum dósunum í sigti og skolaði baunirnar snöggvast undir kalda krananum.

_mg_2755

Ég hvolfdi svo baununum úr sigtinu í ofnpottinn með soðinu, saxaði 4-5 vorlauka og blandaði saman við, setti pottinn á hellu og lét þetta malla saman við vægan hita í  10-15 mínútur.

_mg_2766

Á meðan tók ég kjötið – einn vænan bita í einu – og tætti það í sundur með tveimur göfflum. Setti það svo jafnóðum út í barbikjúsósuna og hrærði.

_mg_2772

Lét þetta svo malla í nokkrar mínútur til að hita það vel, stráði svo ögn af saxaðri steinselju yfir (má sleppa) og bar það fram í pottinum, ásamt baunakássu í skál, hituðum tortillakökum (ég pakkaði stafla af þeim í álpappír og setti inn í heitan ofninn nokkra stund) og salatblöðum.

_mg_2800

Svo má auðvitað hafa sýrðan rjóma, rifinn ost og ýmislegt fleira. En þetta dugði okkur nú alveg. Ferska óreganóið er bara upp á punt.

_mg_2816

Þetta var nú gott, sagði dóttursonurinn og át á sig gat.

*

Tætt svínakjöt

svínabógur, 2,5 -3 kg (para skorin af)

1 tsk olía

3 laukar

Kryddblanda:

1 msk chilikrydd

1 msk paprikuduft

1 tsk kummin

1 tsk hvítlauksduft

cayennepipar á hnífsoddi

1 tsk pipar

2 tsk salt

*

Tómat-mangó-barbikjúsósa (sykurlaus):

1 mangó, vel þroskað

1 dós saxaðir tómatar

1 laukur

3 hvítlauksgeirar

1 msk olía

1 msk chilikrydd

1 tsk engifer

¼ tsk negull

pipar

salt

2 msk sérrí- eða eplaedik

1 msk balsamedik

1 msk worchestersósa

vatn eftir þörfum

*

Baunakássa:

soðið og laukurinn úr steikarpottinum

3 dósir baunir (pintó, rauðar, svartar)

4-5 vorlaukar

pipar og salt ef þarf

*

hveititortillur

e.t.v. steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s