Ég var komin á fremsta hlunn með að setja hér inn rosalega óholla sukkuppskrift sem ég get engan veginn borðað sjálf (sama hvað mikið mig langar) en svo mundi ég að það er jú enn veganúar og svo eru allir að tala um meistaramánuð og guðmávitahvað (þótt þetta sé nú allt óþarft, ef þið sáuð þáttinn á RÚV áðan) þannig að ég ákvað að setja inn eitthvað rosalega hollt í staðinn og láta sukkið bíða betri tíma. En ekki hafa áhyggjur, það kemur.
Ég kalla þetta súkkulaðibúðing en það mundi vekja hávær mótmæli sonar míns. Hann spyrði: „Er súkkulaði í honum?“ Mamman: „Eee …nei, það er kakó og svona …“ Sonur: „I rest my case.“
Jájá, þetta er samt súkkulaðibúðingur. Svona hálfvegis, allavega. Ég gerði hann upphaflega fyrir jólablað MAN en hann er samt frekar hversdags. Af súkkulaðibúðingi að vera. Ekki verri fyrir það.
En hollustan? Ja, hann er sykurlaus, glútenlaus, eggjalaus og ef notuð er kókosolía en ekki smjör er hann vegan líka. Það má alveg nota önnur ber í stað bláberjanna sem ég er með en mér finnst þau gefa skemmtilegt bragð.
Ég tók tvö vel þroskuð avókadó, flysjaði þau, steinhreinsaði og skar í bita.
Setti þau í matvinnsluvél (eða blandara) ásamt 2 tsk af nýkreistum sítrónusafa og maukaði mjög vel, þar til maukið var alveg slétt.
Svo bætti ég við 6 steinhreinsuðum döðlum, 60 g af linu smjöri (eða fljótandi kókosolíu ef þetta á að vera vegan) og 150 g af frosnum eða hálffrosnum bláberjum …
… og maukaði þetta saman.
Svo bætti ég við tveimur kúfuðum matskeiðum af kakódufti og salti á hnífsoddi og bætti við 1/2 tsk af vanilluessens en það má líka sleppa honum. Hrærði þetta vel saman.
Setti þetta í sex ábætisglös eða -skálar (auðvitað má líka setja allt í eina stærri skál), skreytti með berjum (ég átti bláber og rifsber en það má líka nota önnur, eða sleppa berjum og strá t.d. kakódufti yfir) og kældi nokkra stund.
Súkkulaði-bláberja-avókadóbúðingur
2 avókadó, vel þroskuð (200-250 g hvort)
2 tsk sítrónusafi
150 g bláber, frosin
6 döðlur, steinhreinsaðar
60 g smjör, lint, eða kókosolía
2 kúfaðar msk kakóduft
salt á hnífsoddi
1/2 tsk vanilluessens (má sleppa)
ber til skreytingar