Tíu mínútna máltíð

Ég ætla að hafa fiskbrúar eins og í fyrra, borða fisk í aðalmáltíð dagsins á hverjum degi allan mánuðinn. Er að vísu ekki búin að ákveða hvað ég geri á sprengidaginn (baunasúpa með saltfiski kannski?) … Þetta er ekki af neinum hollustuástæðum, heldur bara vegna þess að mér finnst fiskur góður og gaman að elda hann.

Reyndar rann upp fyrir mér að það er kannski ekki heppilegt að hafa fiskmánuð núna þegar sjómenn eru búnir að vera í löngu verkfalli og kannski minna úrval í fiskbúðum en á öðrum tímum. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að fresta fiskimánuðinum mínum en sá svo að það gengur ekki. Fiskbrúar hljómar vel en ekki fiskfars/fars, fapríl, faí eða fjúní … Svo að ég held mig við febrúar, það gengur örugglega alveg.

Það þýðir nú samt ekki að ég ætli að setja fiskuppskrift hér á hverjum degi. Það verður nú lengra á milli þeirra og svo flýtur örugglega annað með. En hér kemur allavega ein. Reyndar ekki kvöldmaturinn minn þennan fyrsta dag mánaðarins, heldur í gær. Ég þjófstartaði fiskbrúar nefnilega. Kom við í Nóatúni í gær, rak augun í lítið rauðsprettuflak í fiskborðinu, alveg passlegt fyrir mig, og keypti það án þess að muna eftir því að ég var að fara að byrja heilan mánuð af fiskáti. En það gerir nú ekki mikið til. Svona þykir mér nú fiskur góður. Fyrir utan hvað hann er yfirleitt fljóteldaður, og jújú, hollur líka.

Og hér er sprettan. Hún var komin á borðið innan við tíu mínútum eftir að ég kom heim úr búðinni.

_mg_2870

Ég byrjaði á að taka tvo diska, brjóta eitt egg á annan og slá það létt og blanda saman á hinum 3 msk af heilhveiti, 1/4 tsk af þurrkaðri basilíku, pipar og salti.

_mg_2872

Ég tók svo flakið – sem var svona 250 g – velti því upp úr egginu og þrýsti því svo vel niður í heilhveitiblönduna.

_mg_2874

Svo setti ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og hitaði það. Setti svo rauðsprettuflakið á pönnuna með roðhliðina upp og steikti það við nokkuð góðan hita í um tvær minútur.

_mg_2876

Sneri því svo – ég á stóran, flatan spaða sem hentar sérlega vel til slíkra verka en t.d. pönnukökuspaði ætti nú alveg að duga. Það má auðvitað líka skera flakið í tvennt áður en það fer á pönnuna.

_mg_2896

Steikti svo rauðsprettuna í 2-3 mínútur á roðhliðinni, fer eftir þykkt.

_mg_2913

Á meðan rauðsprettan var á pönnunni skar ég niður tvo hárauða og vel þroskaða tómata, fjórðung úr papriku og einn vorlauk og blandaði saman við væna handfylli af klettasalati og ögn af söxuðu fersku óreganói (af því að ég átti það til, má sleppa). Hristi saman salatsósu úr 1 msk af ólífuolíu, safa úr 1 límónubát, nokkrum dropum af sojasósu, pipar og salti og blandaði öllu vel saman. Setti þetta á disk (eða lítið fat) og tók svo rauðsprettuflakið af pönnunni og setti ofan á.

_mg_2928

Svo bar ég þetta fram með límónubátum. Þetta var hæfilegur skammtur fyrir mig í kvöldmat og í nesti í vinnuna daginn eftir en getur líka verið fyrir tvo ef haft er meira meðlæti, t.d. kartöflur, soðin hrísgrjón, bygg eða annað. Fínasta þjófstart.

*

Steikt rauðspretta á salati

rauðsprettuflak, 250-300 g

1 egg

3 msk heilhveiti

1/4 tsk þurrkuð basilíka

pipar

salt

1 msk olía

1 msk smjör

*

Tómat-klettasalat

2 tómatar, vel þroskaðir

1/4 paprika, fræhreinsuð

1 vorlaukur

væn lúka af klettasalati

1-2 greinar ferskt óreganó (má sleppa)

1 msk ólífuolía

safi úr 1 límónubát

nokkrir dropar sojasósa

pipar og salt

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s