Fiskbrúar-konseptið gengur alveg ljómandi vel hjá mér (nema hvað dóttursonurinn hefur mælst til þess að vera boðinn sjaldnar í mat þennan mánuðinn en vanalega; ég hef á móti bent honum á að það séu nú færri dagar í febrúar en öðrum mánuðum) og ég er sannarlega ekki orðin leið á fiski – og verð það örugglega ekki, fiskur er svo fjölbreyttur matur, ekki bara soðin og steikt ýsa …
Það sem af er er ég búin að vera með steikta rauðsprettu á tómat-klettasalati, reykýsusúpu með maís og vorlauk, steiktar þorskbollur með spergilkáli, salati og avókadómauki, risarækjur (skelfiskur telst með) með spaghettíi og grænmeti, steiktan lax með steiktum tómötum, sykurbaunum og maís, pönnusteikta blálöngu með ofnsteiktum ratte-kartöflum, perlubyggi, sykurbaunum og paprikusalati, laxa- og baunaklatta með salati og núna í kvöld gratíneraðan plokkfisk með basilíku og ólífum. Allt saman alveg ágætt og býsna ólíkt, þótt tveir af réttunum hafi verið gerðir úr afgöngum frá fyrri dögum.
Ég ætla nú samt ekki að hafa fiskuppskrift núna, heldur salat – matarmikið grænmetissalat, en ekki vegan því að ég notaði fetaost. Ég gerði þetta salat fyrir janúarblað MAN. Ég finn hins vegar ekki myndirnar sem ég tók af undirbúningnum, hef sennilega eytt þeim óvart í einhverju tiltektaræði á tölvunni. En það ætti nú ekki að koma að sök, þetta er frekar einfalt allt saman. Og frekara gott líka, nema mann sé í nöp við rauðrófur. Það er til svoleiðis fólk, meira að segja í minni fjölskyldu.
Í þennan rétt er tilvalið að kaupa eldaðar rauðrófur, sem oft má fá vakúmpakkaðar í grænmetisborði verslana, en annars eru rauðrófurnar bakaðar við 180°C í 45-60 mínútur, eða þar til þær eru meyrar, og síðan kældar og flysjaðar. Ég var með svona 200-250 g af elduðum og flysjuðum rauðrófum, sem ég skar í litla teninga.
Ég tók svo 150 g af puy-linsubaunum (bestar, en það má nota venjulegar grænar linsubaunir) og sauð þær í saltvatni þar til þær voru meyrar en þó ekkert farnar að soðna í mauk. Hellti þeim þá í sigti og lét þær kólna. Svo hvolfdi ég þeim í skál. Opnaði kjúklingabaunadós, hellti vökvanum af baununum og blandaði rauðrófum og kjúklingabaunum saman við linsurnar, ásamt 100 g af salatblöndu.
Ég hrærði svo 3 msk af olíu, 1 msk af sítrónusafa, 1/2 tsk af hunangi (má sleppa), 1/2 tsk af kummini, pipar og dálitlu salt saman í lítilli skál. Tók svo eitt epli (ég notaði grænt en það er ekki skylda), kjarnhreinsaði það, skar það í fjórðunga og síðan í þunnar sneiðar. Velti sneiðunum upp úr salatsósunni og hellti síðan öllu saman yfir salatið í skálinni. Svo tók ég kubb af fetaosti (grískum ef maður fær hann), muldi hann gróft yfir og blandaði. Setti svo salatið á fat og stráði lófafylli af rauðrófuspírum yfir. Þeim má reyndar sleppa en þær gefa bragð, áferð og lit (og hollustu, held ég).
Bauna-, rauðrófu- og fetasalat
200-250 g rauðrófur
150 g puy-linsur (eða aðrar grænar linsur)
salt
1 dós kjúklingabaunir
100 g salatblanda
3 msk olía
1 msk sítrónusafi
1/2 tsk hunang (má sleppa)
1/2 tsk kummin (cumin)
pipar
salt
1 epli
100 g fetaostur (kubbur)
lófafylli af rauðrófuspírum (má sleppa)