Ágætum lesanda mínum fannst ég vera farin að setja hér inn ískyggilega mikið af hollustuuppskriftum. Svo að ég ákvað að bæta úr því og hér kemur uppskrift sem er bara hreint ekki hægt að segja að sé á nokkurn hátt holl. Ekki nema með sótsvartri samvisku allavega …
Þessi uppskrift birtist í jólablaði MAN, þar sem ég var með eftirrétti af ýmsu tagi og reyndi að halda ákveðinni sukkjöfnun – hollt / ekki aaaalveg eins hollt. Ég smakkaði þetta auðvitað ekki sjálf því það er alveg góður slatti af sykri. En ég hef her af smökkurum. Fjölskyldan brást mér reyndar því að ég lét þau smakka marga eftirrétti í einu og þegar þessi kom á borðið voru þau öll eiginlega búin að fá nóg bæði af hollustu og sukki. En ég fór þá með kökuna nærri ósnerta í vinnuna og þar fékk hún vægast sagt góðar undirtektir.
Þetta er semsagt bökuð ostakaka, hefðbundin að mestu en þó ekki. Mig langaði nefnilega til að breyta aðeins til með botninn. Og það vildi svo til að ég átti saltkringlur og ákvað að nota þær í botnin. Þó ekki eintómar.
Ég tók 150 g af heilhveitikexi (ekki hafrakexi; ég var með McVities, það má alveg nota t.d. Haustkex EN ÞAÐ ER EKKI HAFRAKEX, heldur heilhveitikex eins og stendur skýrum stöfum á umbúðunum, engir hafrar í því … æ, ég er svosem búin að nöldra yfir þessu í tuttugu ár en það hlustar enginn á mig; ég ætla samt að segja það einu sinni enn: Haustkex er ekki hafrakex. Þá er það frá …), 100 g af saltkringlum og 125 g af köldu smjöri, skornu í teninga. Setti þetta allt í matvinnsluvélina …
… og lét hana ganga þar til komin var fremur grófgerð mylsna sem ég hellti í smelluform.
Svo þrýsti ég mylsnunni niður á botninn og aðeins upp með hliðunum og kældi þetta í hálftíma. Hitaði á meðan ofninn í 160°C og bakaði svo botninn í um 8 mínútur.
Á meðan tók ég 600 g af rjómaosti, 150 g af sykri, 4 egg og 1 tsk af vanillu og hrærði þetta saman í matvinnsluvél (eða hrærivél eða með handþeytara) þar til blandan var alveg slétt og jöfn.
Þá tók ég kökubotninn úr ofninum og hellti blöndunni yfir. Setti þetta á neðstu rim í ofninum og bakaði í 35-40 mínútur …
… eða þar til kakan hafði stífnað við barmana en dúaði enn ögn í miðju (á myndinni má sjá fingrafarið sem kom þegar ég prófaði hana). Ég lét kökuna kólna á grind (losaði hringinn utan af henni þegar hún var orðin hálfköld) og fór svo í að búa til karamelluna sem ég ætlaði að hella yfir hana.
Ég setti 250 ml af púðursykri og 1 msk af vatni í pott og hrærði. Bætti svo við 60 g af smjöri og hitaði þetta þar til smjörið var bráðið og púðursykurinn fljótandi. Þá hellti ég 125 ml af rjóma í pottinn …
… og lét sjóða í 4-5 mínútu eða þar til karamellan fór að þykkna – þó ekki um of, hún á ekki að verða hörð eða seig þegar hún kólnar.
Ég lét karamelluna hálfkólna og hellti henni svo jafnt yfir kökuna. Hellti yfir barmana líka og lét karamellu leka niður eftir þeim (hafði bökunarpappír undir grindinni).
Ég tók svo 15-20 pekanhnetuhelminga og 15-20 saltkringlur og dreifði jafnt yfir kökuna. Stráði að endingu klípu af flögusalti yfir.
Svo losaði ég smelluformsbotninn undan kökunni, renndi henni yfir á fat og kældi hana vel.
Hollusta? Neinei. Góð? Svo er mér sagt og ég trúi því vel.
Saltkaramellu-pekanhnetu-ostakaka
150 g heilhveitikex
100 g saltkringlur
125 g kalt smjör, skorið í teninga
600 g rjómaostur, mjúkur
150 g sykur
4 egg
1 tsk vanilluessens eða vanillusykur
Ofan á:
15-20 pekanhnetur
15-20 saltkringlur
klípa af flögusalti
=
Karamellan
250 ml púðursykur
1 msk vatn
60 g smjör
125 ml rjómi