Reykt súpa

Eins og ég er búin að segja verður fiskur í matinn hjá mér upp á hvern dag út mánuðinn (en það þýðir ekki að ég verði bara með fiskuppskriftir hér, neinei). Sumir halda kannski að það þýði bara annaðhvort soðinn fiskur eða steiktur fiskur (og jafnvel að fiskur=ýsa). Nei, langt frá því. Það er hægt að gera ýmislegt annað við fisk og það eru til margir aðrir fiskar en ýsan. Og reyndar telst skelfiskur með í þessu dæmi.

En það var reyndar ýsa í kvöldmatinn hjá mér í gær og hún var soðin, þannig séð. En þetta var reykt ýsa (sem er mun algengari matur hjá mér en ný ýsa) og hún var soðin í súpu. Ég setti mynd á facebook og það var greinilegt að ýmsum leist vel á svo að ég ákvað að koma með uppskriftina núna.

Þetta er matarmikil súpa sem ætti að duga sem kvöldmatur með góðu brauði; hún virðist kannski hveitiþykkt en er það ekki, hún er bara þykkt með maukaðri kartöflu, svo að hún er glútenlaus ef þið eruð í svoleiðis pælingum.

Það getur verið voða gott að steikja dálítið beikon og hafa í svona súpu. En ég gerði það ekki núna af því að það er nú fiskbrúar …

_mg_2958

Þetta var nú bara lítið flak, 250 g eða svo, passlegt í súpu fyrir tvo. Eða fyrir mig tvisvar í matinn.

_mg_2957

Ég byrjaði á að skera eina stóra bökunarkartöflu í litla teninga, svona 1 cm á kant. Tók svo 3 vorlauka (það má líka nota 1/2 venjulegan lauk, smátt saxaðan, en ég vildi heldur vorlauk og þótti líka betra að fá græna litinn með), skar þá niður og tók fagurgræna hluta blaðanna til hliðar en setti hvíta og ljósgræna hlutann í pott ásamt kartöfluteningunum,  1/2 l af nýmjólk,  1 smátt söxuðum hvítlauksgeira, pipar, svolitlu salti (ekki of miklu ef reykta ýsan skyldi vera vel sölt) og cayennepipar á hnífsoddi (ég setti aðeins of mikið reyndar). Hitaði þetta að suðu og lét malla rólega í svona 10-12 mínútur, eða þar til kartöflubitarnir voru orðnir meyrir.

_mg_2959

Á meðan roðfletti ég ýsuna og skar hana í bita. Svona munnbitastærð.

_mg_2960

Svo lét ég mjólkurkartöflublönduna kólna í nokkrar mínútur, hellti henni svo í matvinnsluvéléina (eða blandara) og maukaði hana fínt.  Skolaði á meðan pottinn og hellti blöndunni svo aftur í hann og hitaði að suðu. Skolaði á meðan pottinn og hellti blöndunni svo aftur í hann og hitaði að suðu. Kartaflan ætti að duga til að þykkja súpuna.

_mg_2962

Ég var búin að hálfþíða 200 g af frosnum maískornum og setti þau út í ásamt reyktu ýsunni og grænu vorlauksblöðunum. Lét suðuna koma upp aftur, lækkaði svo hitann og lét malla rólega í svona 5 mínútur.

_mg_2966

Og þá er bara að smakka, bragðbæta eftir þörfum og bera svo súpuna fram. Steinseljan er bara upp á punt, hún er óþörf.

*

Reykýsusúpa með maís

250-300 g reykt ýsa

1 stór bökunarkartafla

3 vorlaukar (eða 1/2 venjulegur laukur)

1 hvítlauksgeiri

cayennepipar á hnífsoddi

pipar

salt

500 ml mjólk

200 g maískorn

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s