Orka í hverjum bita

Í haust gerði ég töluvert af orkubitum af ýmsu tagi að beiðni barnabarnanna, sem eru íþróttafrík (eða nei, þau eru það nú ekki, en þau æfa bæði nokkuð stíft og brenna miklu). Ég gerði þetta að nokkru leyti í samstarfi við dótturdótturina, sem er í næringarfræðinámi í Háskólanum. Bitarnir voru allir sykurlausir og langflestir líka lausir við glúten, mjólkurvörur, egg, dýraafurðir og hvaðeina sem fólk vill forðast nú til dags. Held ég; mér finnst að það sé alltaf að koma eitthvað nýtt sem á að forðast …

En meginskilyrðið til að hver tilraun hlyti náð fyrir augum okkar var að bitarnir væru góðir. Og ég held að á endanum hafi þetta orðið þónokkrar tegundir sem hlut blessun okkar allra. Þessir bitar voru nokkuð misjafnir að gerð, sumir bakaðir, sumir ekki. Og fáeina þeirra valdi ég svo úr og setti í þáttinn minn í janúarblaði MAN. Hér er ein útgáfan. Þessir bitar eru ekki bakaðir, bara kældir og látnir stífna. Það má alveg nota aðrar tegundir af hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum en hér er gert.

Þetta er frekar lítill skammtur, 12-16 bitar.  En réttast að minna á að svona orkubitar eru ekkert megrunarfæði svosem; góð næring en fullt af hitaeiningum …

_mg_7186

Ég byrjaði á að taka 85 g af ósætu eplamauki (ef maður á það ekki eða vill ekki kaupa stóra krukku er upplagt að nota bara barnamat úr krukku) og setja í matvinnsluvélina ásamt 175 g af hnetusmjöri – má vera hvort heldur er slétt eða gróft – og bætti svo við 80 g af steinhreinsuðum döðlum. Maukaði þetta allt vel saman.

_mg_7188

Svo tók ég 100 g af heilum möndlum (með hýði en þær mega alveg vera hýðislausar, 50 g af valhnetum og 40 g af pistasíum, grófsaxaði þetta og blandaði saman við 40 g af graskersfræjum, 40 g af sólblómafræjum og 40 g af gojiberjum (mætti líka nota t.d. þurrkuð trönuber en þau eru langt frá því að vera sykurlaus). Annars má, eins og ég sagði, nota alls konar samsetningar af hnetum, fræjum og þurrkuðum berjum.

_mg_7189

Ég blandaði svo epla-hnetusmjörs-döðlumaukinu saman við með sleikju.

_mg_7190

Og að lokum vigtaði ég 125 g af grófvölsuðum hafragrjónum og blandaði þeim saman við með sleikju.

 

_mg_7191

Ég klæddi svo lítið form með bökunarpappír og setti blönduna í það.

_mg_7193

Svo lagði ég annan bút af bökunarpappír ofan á, þrýsti vel niður og sléttaði yfirborðið. Setti þetta svo í ísskápinn og kældi vel.

_mg_7194

Ég tók þett svo út, lyfti bökunarpappírnum með orkustykkinu upp og setti á bretti. Skar að svo í sundur – ég held að ég hafi skorið þetta í 16 bita en þeir geta auðvitað verið eins margir og manni sýnist.

hafrabitar-med-hnetum-2

Það er hægt að geyma bitana í forminu eða pakka hverjum um sig inn í bökunarpappír eða álpappír til að kippa með í nesti. En það er best að geyma þetta í ísskáp.

hafrabitar-med-hnetum-3

 

 

Hafrabitar með hnetum, fræjum og berjum

12-16 bitar

85 g ósætt eplamauk

175 g hnetusmjör

80 g döðlur, steinlausar

125 g hafragrjón, grófvölsuð

100 g möndlur

50 g valhnetur

40 g pistasíuhnetur

40 g graskersfræ

40 g sólblómafræ

40 g gojiber eða þurrkuð trönuber

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s