Tyrkneskar kræsingar

Maturinn í Kappadókíu þótti mér yfirleitt góður en kannski ekkert sérlega eftirminnilegur; mikið um hægeldaða rétti, pottrétti, lambaskanka og þess háttar, og sumt kannski fullmikið eldað fyrir minn smekk. Forréttir og smáréttir voru hins vegar flestir mjög góðir og ef maður er svangur í hádeginu er upplagt að fá sér forréttabakka eins og þennan hér:

_MG_3586

Níu réttir, hver öðrum betri – fyllt grænmeti, ídýfur og ostar og nóg af brauði með, sem ég fékk á staðnum Veitingahúsið hennar mömmu í Göreme.

Eitt fannst mér annars sérkennilegt: ég borðaði fimm sinnum kvöldverð í Tyrklandi, fjórum sinnum í Göreme og einu sinni í Istanbul, og pantaði mér alltaf forrétt og aðalrétt. Og í öll skiptin nema eitt var komið með aðalréttinn og hann settur á borðið hjá mér þegar ég var varla nema hálfnuð með forréttinn. Ég veit ekki alveg hvort þetta tíðkast þarna eða hvort þetta var vegna þess að ég var kona og ein á ferð – ég hef stöku sinnum orðið fyrir því á veitingastöðum að fá fljótari afgreiðslu en aðrir og hef á tilfinningunni að það geti verið vegna þess að starfsliðið telji að konu hljóti að finnast óþægilegt að borða ein og vilji haspa því af sem snarast. Örugglega vel meint en mér finnst ekkert að því að borða ein og vil helst sitja drjúga stund yfir matnum mínum …

En jæja, hér kemur tyrknesk uppskrift. Reyndar frá Norður-Kýpur, þar sem ég var í fyrra, en þar búa jú Tyrkir og margir þeirra einmitt upphaflega frá Kappadókíu. Að vísu er töluverður munur á matargerðinni vegna aðstæðna – Kappadókía er uppi á hásléttu, þar er þurrt og fremur gróðursnautt, fátt um tré og skortur á eldsneyti svo að réttirnir eru gjarna látnir malla við mjög hægan eld, Kýpur er gróðursæl eyja og þar er nóg af sjávarfangi og hvers kyns grænmeti og ávöxtum. Þar er líka fremur eldað við háan hita, grillað eða djúpsteikt.

Ég djúpsteikti einmitt grænmetið í þessum rétti en það má líka pönnusteiktja það í ólífuolíu. Rétturinn getur verið forréttur eða meðlæti með ýmsum mat en svo má bara borða hann sem aðalrétt með góðu brauði og grænu salati. . – Erfitt getur verið að finna alvöru granateplasíróp og það má sleppa því. En það fæst t.d. í versluninni Istanbul í Ármúla.

Ég byrjaði á að taka tvo kúrbíta og tvö eggaldin. Það er misjafnt hvaða stærðir eru á boðstólum af eggaldinum og kúrbítum og maður verður bara að taka það sem fæst en mér finnst betra að nota minni útgáfur og við það er miðað hér. Ég skar kúrbítana í tvennt eftir endilöngu og eggaldinin í fjórðunga og skar svo hvort tveggja í um 1 cm þykkar sneiðar. Setti þetta í sigti, stráði salti yfir og lét standa í a.m.k. 1 klst. (Þetta er gert til að draga safa úr grænmetinu.) Þá skolaði ég saltið af undir kalda krananum og lét renna af grænmetinu á eldhúspappír.

IMG_8307

Ég fræhreinsaði svo 2 paprikur og 1-2 chilialdin, skar paprikurnar í bita og saxaði chilialdinin smátt. Setti svo olíu í pott (hún ætti að vera a.m.k. 4 cm djúp), hitaði hana í um 180°C og steikti allt grænmetið (í 2–3 skömmtum, eftir því hvað potturinn er stór) í nokkrar mínútur, þar til það var meyrt og farið að taka lit.

IMG_8310

Þá tók ég það upp úr með gataspaða og lét renna af því á  eldhúspappír á meðan ég steikti afganginn af grænmetinu. Það á ekki að vera heitt, bara volgt eða við stofuhita.

IMG_8311

Svo setti ég 200 g af grískri jógúrt og 75 ml af ólífuolíu í stóra skál og hrærði þetta saman þar til blandan var slétt.

IMG_8312

Svo saxaði ég væna lófafylli af steinselju og litla lófafylli af mintulaufi (eða bara eftir smekk), pressaði þrjá hvítlauksgeira og hrærði þessu saman við jógúrtina ásamt pipar og salti. Þynnti sósuna með svolitlu vatni (3–4 msk).

Steikt grænmetissalat (4)

Blandaðu hálfköldu grænmetinu saman við og setti í fallegri skál (eða á fat). Svo barði ég fræin úr hálfu granatepli, stráði þeim yfir og dreypti e.t.v. svolitlu granateplasírópi yfir allt saman. En því má líka sleppa.

*

Steikt grænmeti með hvítlauksjógúrt

2 litlir kúrbítar eða 1 stórir

2 lítil eggaldin eða 1 stórt

salt

2 paprikur

1–2 chilialdin

olía til steikingar

Hvítlauksjógúrt

200 g grísk jógúrt

75 ml ólífuolía

lófafylli af steinselju

lítil lófafylli af mintulaufi

3 hvítlauksgeirar

pipar og salt

svolítið vatn

*

fræ úr 1/2 granatepli

granateplasíróp (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s