Hálfa leið til Fjarskanistan og hátt upp í loft

Það er ekki minnst á mat í þeirri frásögn sem hér fer á eftir. Nema jú, marmarakaka kemur aðeins við sögu. Þetta er um að grípa skyndihugdettu og láta gamlan draum rætast. Fara á flug í undraverðu umhverfi.

Ég var að koma úr stuttu vetrarfríi. Fór ekki til Tenerife eða eitthvað slíkt, heldur á stað sem er ekki kannski í alfaraleið en svosem ekkert erfitt að komast þangað heldur. Hálfa leið til Fjarskanistan, mætti kannski segja.

En fyrir tæpum þremur vikum var mér ekkert slíkt í huga. Sat í vinnunni síðdegis á föstudegi og var ekki með nein plön um hvernig ég ætlaði að eyða sumarfrísdögunum sem ég tók ekki í sumar af því að ég var alltaf að bíða eftir að veðrið batnaði. Þá bárust sorgartíðindi um að góður kunningi sem mér þótti vænt um hefði skyndilega fallið frá.  Og þegar ég fór inn á Facebook blasti við mér færsla með orðunum: Lífið er núna. Klisja, ég veit, en …

Ég fór að velta fyrir mér hvað það er algengt að fólk slái því sífellt á frest að gera eitthvað sem það dreymir um – endalaust, eða þar til það er orðið of seint. Gleymi því að lífið er núna og maður á að njóta þess. Og á sömu stundu ákvað ég að gera eitthvað sem mig hefði lengi dreymt um en aldrei látið verða af. Til dæmis fara á einhvern stað … og ég vissi samstundis hvaða stað.

Fyrir mörgum árum sá ég fyrst myndir frá Kappadókíu, sem voru eins og úr öðrum heimi, og hafði alltaf langað að koma þangað. En það passaði einhvern veginn aldrei inn í ferðaplönin mín, hvorki sumarferðir, jólaferðir né annað. Og það besta var að með ferð þangað gæti ég (sennilega) uppfyllt annan og mun eldri draum.

Screen Shot 2018-11-13 at 20.27.09Þegar ég var lítil las ég fyrst um loftbelgi og skoðaði oft mynd af þeim fyrsta, loftbelg Montgolfier-bræðra, sem flaug fyrst 1783. Mér fannst hann svo flottur og mig langaði svo að fljúga í loftbelg. Og hefur alla tíð langað. En loftbelgir urðu aldrei á vegi mínum. Maður þarf náttúrlega að bera sig eftir þeim … En draumurinn hvarf aldrei alveg. Og það vill svo til að Kappadókía er einn besti loftbelgsflugstaður í heimi; þar fara allt að eitt hundrað loftbelgir á flug í birtingu á hverjum morgni þegar viðrar til þess. Og það viðrar nokkuð oft til þess í Kappadókíu. Svo að það var bara vel líklegt að ég gæti slegið tvær flugur í einu höggi. Þannig að innan við tveimur tímum eftir að ég fékk hugmyndina var ég búin að panta flugferðir, hótel og loftbelgsferð sem farin yrði tólf dögum seinna.

Æjá, þið vitið kannski ekkert hvar Kappadókía er. Þetta er landsvæði (ekki lengur hérað, og Kappadókíunafnið er fyrst og fremst notað fyrir túrista) í miðju Tyrklandi, uppi á hásléttunni í um þúsund metra hæð yfir sjávarmáli. Kappadókía á sér hátt í fjögur þúsund ára sögu, þarna bjuggu Hittítar (eða sá þjóðflokkur er allavega sá fyrsti sem vitað er um) og um tíma var Kappadókía sjálfstætt konungsríki en komst síðar undir stjórn Rómverja og síðar Býsansrikis og svo Ottómanaveldisins. Þarna voru mjög snemma kristnir söfnuðir og þarna bjuggu Anatólíumenn, Armenar og Grikkir saman, oftast (en ekki alltaf) í sátt og samlyndi, allt fram að fyrri heimsstyrjöld en þá sauð upp úr, Armenar og Kappadókíu-Grikkir voru strádrepnir eða fluttir burt en fimmtán hundruð ára saga þeirra sést víða. Þarna eru eitthvað um sjö hundruð kirkjur sem standa auðar, hefur verið breytt í moskur eða eru rústir einar.

En þetta átti ekkert að vera sögukennsla, bara útskýring á því hvar Kappadókía er … Það eru ýmsar leiðir til að komast þangað en ég þóttist sjá að það væri ódýrast og einfaldast fyrir mig að fljúga með Icelandair til Oslóar, þaðan til Istanbul, gista þar eina nótt og fljúga svo (tekur einn og hálfan klukkutíma) til borgarinnar Kayseri, sem er um klukkutíma akstur frá fjallaþorpinu Göreme, en þangað var ferðinni heitið. Hótelið sem ég pantaði gistingu á, Sultan Cave Suites, útvegaði skutlu frá flugvellinum. Þetta kostaði allt saman rúm sextíu þúsund fram og til baka, sem mér fannst nú ágætlega sloppið. Og gistingin (tvær nætur í Istanbul á góðu hóteli nálægt flugvellinum, fjórar nætur á góðu hóteli í Göreme) kostaði svipað.

_MG_4312
Séð yfir Göreme, þar sem landslag og mannvirki renna fullkomlega saman.

Þetta gekk allt upp; ég flaug út á þriðjudagsmorgni, var komin til Göreme um kaffileytið á miðvikudegi og fór snemma að sofa um kvöldið því að ég vissi að ég yrði sótt klukkan sex morguninn eftir. Það eru ein 25 fyrirtæki sem eru með loftbelgjaflug í  Kappadókíu (öll í Göreme og næstu þorpum) en ég hafði lesið mér til á netinu og valdi Butterfly Balloons. Vetrarverðið hjá þeim var 130 evrur fyrir klukkutíma flug (ef maður borgar í evrum alltsvo, aðeins meira ef greitt er með korti).

Veðurútlitið var ágætt; það er ekki flogið nema veðurskilyrði séu góð, lítill vindur og þokkalegt skyggni. Þess vegna er manni ráðlagt að panta loftbelgsflug á fyrsta morgni dvalarinnar til að hafa eitthvað upp á að hlaupa ef veðrið bregst. Þótt ég væri þarna fjóra morgna var ég ekki alveg viss um að neitt yrði af fluginu og hafði þess vegna ekki sagt neinum frá plönunum áður en ég fór.

En þegar ég vaknaði um morguninn sá ég strax að ekkert virtist vera að veðri og kl. 5.30 var hringt af skiptiborðinu til að láta vita að það yrði flogið (og til að vekja mig ef ég skyldi nú ekki hafa vaknað). Þá var ég reyndar tilbúin og stóð fyrir utan innganginn kl. 6, þegar skutlan frá Butterfly Balloons kom að hótelinu.

Einu hafði ég haft vit á: Ég tek þvagræsilyf á hverjum morgni vegna háþrýstings og til að vinna gegn bjúgsöfnun. En ekki þennan morgun. Ég stakk pilluglasinu meira að segja niður í tösku til að ég tæki ekki óvart töflu hálfsofandi og hugsunarlaus um morguninn. Það er varla hægt að ímynda sér nokkuð verra og pínlegra en að standa í blóðspreng í loftbelgskörfu í mörg hundruð metra hæð og vita að það eru kannski þrjú korter eftir af fluginu …

_MG_3152

Fyrst var farið með alla í bækistöðvar fyrirtækisins, þar sem boðið var upp á morgunkaffi, kökur og ávexti og farþegum skipt niður á loftbelgi. Mér var sagt að ég ætti að fljúga með Halil.

_MG_3155

Við ókum upp á hæð ofan við Göreme og þar biðu loftbelgirnir. Víða í fjarska mátti sjá loftbelgi sem verið var að blása upp en enginn var þó enn kominn á loft.

_MG_3157

Þarna er karfan okkar á hliðinni og byrjað að blása í belginn.

_MG_3158

Annar belgur Butterfly Balloons var við hliðina, full-uppblásinn og fólk farið að tínast upp í körfuna.

_MG_3164

Og byrjað að blása eldi inn í okkar belg.

_MG_3194

Eins gott að fara ekki of nálægt …

_MG_3213

Þarna er búið að velta körfunni á réttan kjöl og að því komið að klifra um borð. Hún náði mér upp undir brjóst. Ég vissi svosem að það væri ekki hurð á hliðinni en var að vonast eftir einhvers konar tröppu sem setti yrði upp að henni. En nei, það voru ofin göt á endana sem átti að nota sem þrep. Ég steig hægri fæti upp í gat í neðri röðinni, ekkert mál. En það var ekki séns að ég gæti beygt vinstra hnéð (sem ég er að bíða eftir liðskiptum á) svo mikið að ég gæti stigið upp í gat í efri röðinni. Og ég er þéttvaxin og stirð kona á sjötugsaldri … Þannig að ég beit á jaxlinn og sveiflaði beinni vinstri löppinni upp á við og kom henni upp á körfubarminn (þessir tveir ágætu menn þarna brugðust við þegar þeir sáu aðfarirnar og ýttu undir afturendann á mér svo að ég hálfvalt inn í körfuna og missti af mér skóinn en þetta hafðist nú allt samt).

_MG_3214

Og svo vorum við komin á loft, upp fyrir hálfuppblásna belginn við hliðina. Þarna sést yfir til Uchisar-kastala, sem er grafinn inn í kletta en ekki hlaðinn, og þorpsins í kringum hann.

_MG_3224

Þarna í kring var fjöldi annarra belgja, mismunandi mikið uppblásinna.

_MG_3220

En mjög margir voru líka komnir á loft. Þarna eru allt að hundrað loftbelgir á flugi samtímis (þeir mega ekki vera fleiri).

_MG_3228

Fyrir neðan okkur blasti Dúfnadalurinn við.

_MG_3232

… og eldfjallið Erciyes í fjarska …

_MG_3235

… og loftbelgir allt í kring.

_MG_3253

Halil stýrði loftbelgnum af mikilli kúnst og sagði okkur um leið frá ýmsu sem fyrir augu bar.

_MG_3249

Flaug meðal annars niður í Dúfnadalinn og svo nálægt dúfnahúsunum í klettaveggjunum að við hefðum séð dúfurnar sitja í holunum ef þær byggju þar enn.

_MG_3279

Loftbelgnum var skipt í fjögur farþegahólf og það fimmta í miðjunni fyrir stjórnandann. Það mega vera fimm í hverju hólfi en Butterfly er aldrei með nema fjóra svo að það er ekki stappað; við vorum reyndar bara þrjár í mínu hólfi en ég þarf nú mitt pláss.

_MG_3264

Svo var flogið inn yfir Göreme og bókstaflega á milli húsanna.

_MG_3297

Nú var sólin að koma upp.

_MG_3302

Og þá varð þetta bara ennþá fallegra.

_MG_3306

_MG_3310

Veðrið hefði ekki getað verið betra, það sá ég seinni morgnana tvo í Göreme, þegar var  frekar skýjað og sólarupprásin sást ekki.

_MG_3351

Og svo fórum við upp og upp …

_MG_3343

_MG_3356

_MG_3414

Og þetta ótrúlega landslag gerði ferðalagið enn frábærara.

_MG_3459En þessi klukkutími leið býsna fljótt og Halil fór að lækka flugið.

_MG_3461

Og þarna kemur lendingarpallurinn.

_MG_3479

Þarna erum við enn á lofti en í svona tveggja metra hæð.

_MG_3491

Og svo lenti karfan nákvæmlega á vagninum, svo mjúklega að ef ég hefði verið með fullan kaffibolla í höndunum hefði varla farið dropi úr honum. Við biðum í körfunni þar til búið var að festa hana við vagninn og svo brölti ég út úr körfunni álíka virðulega og ég hafði brölt upp í hana.

_MG_3497

Loftið var að síga úr belgnum.

_MG_3510

En á meðan verið var að ganga frá honum fengum við kampavín …

_MG_3516

… og jarðarber og marmaraköku (sko, ég sagði að það væri kaka) …

_MG_3520

… og allir fengu medalíu um hálsinn.

_MG_3526

Og svo kvöddum við Halil og bílstjórann og fórum heim á hótel.

Þetta var bara alveg stórkostlega gaman og mikil upplifun. Mæli með Kappadókíu, hvort sem maður svífur nú um í loftbelg eða ekki; það er ansi margt að sjá á jörðu niðri líka.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s