Og meira rauðkál (eða þá hvítkál)

Nú er tími rauðkálsins og þessi uppskrift inniheldur rauðkál, rétt eins og súpuuppskriftin sem ég var með hér seinast, en hér er það samt ekki aðalhráefnið og reyndar má alveg nota annað kál, svo sem hvítkál eða jafnvel grænkál. En ég notaði rauðkál af því að mér fannst það koma svo vel út, bæði hvað varðar bragð og ekki síst lit.

Annars er þetta kjúklinga- og núðlusalat, sem ættað er frá Malasíu (eða jæja, gert með hliðsjón af malasískri uppskrift) nokkuð matarmikið og gæti alveg dugað fyrir sex. Eða fjóra, fer eftir því hvað fólk er svangt … Ég notaði kjúklingalundir en það mætti alveg nota afgang af heilum kjúklingi (eða jafnvel kaupa steiktan kjúkling í búð og rífa hann niður til að nota í salatið.

Ég gerði þetta salat fyrir MAN og þurfti af einhverri ástæðu að endurtaka myndatökuna og gera salatið tvisvar (þess vegna eru myndirnar ekki eins en hráefnið var alveg það sama, nema önnur útgáfan var skreytt með límónubátum en hin ekki). Samt finn ég engar myndir af undirbúningnum. Það verður að hafa það …

IMG_1727

Ég var semsagt með kjúklingalundir (það mætti eins nota bringur og skera þær í ræmur) sem ég kryddaði með pipar og salti og steikti þær í 1 msk af olíu á stórri pönnu í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Tók þær svo af og lét þær kólna. Á meðan bringurnar steiktust skar ég 400 g af rauðkáli (eða hvítkáli) , bætti meiri olíu (1 msk eða svo) á pönnuna og steikti kálið við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til það fór að mýkjast dálítið. Hrærði oft í á meðan.

Ég sauð svo 300 g af hrísgrjónanúðlum samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum (oftast 2 mínútur), hellti þeim svo í sigti og lét kalt vatn buna á þær til að stöðva suðuna og skola burt sterkju. Setti þær í stóra skál. Síðan reif ég tvær gulrætur fremur fínt og blandaði þeim saman við, ásamt rauðkálinu og svona 100 g af spínati.

IMG_1446

Svo bjó ég til hnetusmjörssósu út á salatið: Ég kreisti safann úr einni límónu, fræhreinsaði og saxaði eitt rautt chilialdin og saxaði einn hvítlauksgeira. Setti þetta í matvinnsluvél eða blandara, ásamt 3 kúfuðum matskeiðum af hnetusmjöri, 1 msk af sojasósu, 1 msk af hrísgrjónaediki, 2 tsk af sesamolíu og 4-6 msk af repjuolíu (eða annarri frekar bragðmildri olíu). Maukaði allt vel saman, hellti sósunni yfir salatið og blandaði vel. Að lokum reif ég hverja kjúklingalund í 2-3 bita (eða það má auðvitað bara skera hana) og blandaði saman við. Skar aðra límónu í báta og bar fram með.

IMG_1532

Kjúklinga- og núðlusalat frá Malasíu

500-600 g kjúklingalundir

pipar og salt

2 msk olía

400 g rauðkál eða hvítkál

2 gulrætur

300 g hrísgrjónanúðlur

100 g spínat

*

Hnetusmjörssósa

2 límónur

1 rautt chilialdin

1 hvítlauksgeiri

3 kúfaðar msk hnetusmjör

1 msk sojasósa

1 msk hrísgrjónaedik

2 tsk sesamolía

4-6 msk repjuolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s