Nei, ekki bláberjagrautur með rjóma …

Mér finnst oft gaman að elda einhvern rétt úr hráefni sem ég er vanari að nota í eitthvað allt annað og sjá hvernig það kemur út. Og þannig varð þessi súpa einmitt til. Líklega dettur flestum fyrst í hug berjagrautur með rjóma eða eitthvað slíkt þegar þeir sjá súpuna – en bragðið kemur sannarlega á óvart og kúmenið á þátt í því.

Kartöfluflatbrauðið sem ég bakaði til að hafa með á vel við súpuna en hentar líka með alls konar öðrum mat, eða þá eitt sér með áleggi.

IMG_6984

Það er best að byrja á flatbrauðinu því að deigið þarf tíma til að lyfta sér. Ég var með eina bökunarkartöflu, svona 250 g, sem ég flysjaði, skar í bita og sauð þar til þeir voru meyrir. Þá stappaði ég bitana í skál og hrærði 425 g af brauðhveiti (best að setja þó ekki allt strax) saman við ásamt hálfu, söxuðu knippi af steinselju (má sleppa eða nota aðrar kryddjurtir), 2 tsk af geri, 1 tsk af salti og 250 ml af ylvolgu vatni saman við. Hnoðaði deigið vel og bætti við hveiti eftir þörfum; deigið á að vera fremur lint án þess að klessast við hendur að ráði. Lét það svo lyfta sér í a.m.k. 1 klst. Þá skipti ég því í 6-8 hluta, flatti hvern um sig út í kringlótta, þunna köku á hveitistráðu borði og bakaði flatbrauðin síðan á vel heitri, þykkbotna pönnu á báðum hliðum þar til brúnir blettir fara að myndast. Þetta er upplagt að gera á meðan súpan mallar í pottinum ef maður vill hafa brauðið alveg nýbakað – þannig er það líka best.

 

IMG_6949

Ég byrjaði á að taka einn rauðkálshaus – svona 700 grömm – skera stilkinn úr honum og skera svo kálið í ræmur eða bita. Setti þetta til hliðar og tók svo tvær vænar gulrætur og tvo sellerístöngla og skar í bita. Saxaði svo einn rauðlauk og tvo hvítlauksgeira. Hitaði 2 msk af olíu í potti og lét rauðlauk og hvítlauk krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var orðinn mjúkur. Hrærði þá selleríi og gulrótum saman við, ásamt 1 1/2 tsk af kúmenfræi, salti og nokkuð miklum pipar, og lét krauma í fáeinar mínútur.

IMG_6951

Þá bætti ég rauðkálinu í pottinn, hellti svo 1,2 l af vatni yfir, hrærði 1 msk af grænmetiskrafti saman við og lét malla rólega í um hálftíma, án loks.

IMG_6975

Þá lét ég súpuna kólna örlítið og maukaði hana svo í matvinnsluvél (í 2–3 skömmtum, eftir stærð skálarinnar – en þetta er reyndar gamla matvinnsluvélin mín, sú nýja myndi ráða við allan skammtinn í einu).Ég smakkaði súpuna svo og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. Súpan á að vera þykk en það má bæta við meira vatni ef maður vill og setja þá súpuna aftur í pottinn og hita hana.

Svo er bara að ausa súpunni á diska, setja sýrðan rjóma út í og strá e.t.v. svolítilli steinselju yfir. Eða bera hana bara fram í skál og hafa sýrða rjómann til hliðar. Og svo bara nýbakað kartöfluflatbrauð með (eða eitthvert annað brauð).

IMG_7048

Rauðkálssúpa

700 g rauðkál

2 gulrætur

2 sellerístönglar

1 rauðlaukur

2 hvítlauksgeirar

2 msk olía

1 1/2 tsk kúmenfræ

salt og pipar

1,2 l vatn

1 msk grænmetiskraftur

sýrður rjómi

steinselja (má sleppa)

*

Kartöfluflatbrauð

1 bökunarkartafla, 200–250 g

425 g brauðhveiti, eða eftir þörfum (má sleppa)

1/2 knippi flatblaða steinselja, söxuð

2 tsk ger

1 tsk salt

250 ml vatn, ylvolgt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s