Á svona dögum er upplagt að bera fram einhverja rjúkandi heita, vel kryddaða kássu, er það ekki? Og það er farið að líða á mánuðinn og kannski ekkert allt of mikið til í buddunni svo að það er ekki verra ef hún er úr grænmeti og baunum og þess háttar sem kannski er til í skápnum. Engin fansí hráefni og ef maður á ekki allt kryddið í uppskriftinni má bara sleppa því eða nota eitthvað annað í staðinn. Meira karríduft þess vegna. Eins má alveg sleppa kóríanderlaufinu sem ég stráði yfir. – Ég notaði gulrætur en það má nota ýmislegt annað grænmeti með þeim eða í staðinn fyrir þær.
Ég finn ekki myndirnar sem ég man þó eftir að hafa tekið af undirbúningnum en það er kannski vegna þess að hann er nú frekar einfaldur og ég hef tekið svo mikið af svipuðum myndum að ég rugla þeim stundum saman og hef sennilega flokkað þær með einhverju öðru. Held að það komi varla að sök.
En ég byrjaði á að taka tvo lauka og saxa þá smátt og saxaði síðan 3-4 hvítlauksgeira og svona 5 cm bút af engiferrót mjög smátt. Svo snyrti ég 250 g af gulrótum og skar þær í um 2 cm bita. Hitaði svo 2 msk af olíu í potti og lét lauk, hvítlauk og engifer krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Þá setti ég gulræturnar í pottinn, blandaði saman 1 msk af karrídufti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af túrmeriki, 1/2 tsk af pipar, 1/4 tsk af cayennepipar (eða eftir smekk, ég vildi hafa kraft í þessu) og dálitlu salti og hrærði því saman við og lét krauma svona eina mínútur. Svo hellti ég einni dós af kókosmjólk út í ásamt 700 ml af vatni, bætti við 1 msk af grænmetiskrafti, hitaði að suðu og lét malla í um 10 mínútur.
Þá hellti ég 300 g af rauðum linsubaunum út í og lét malla í 15-20 mínútur í viðbót, eða þar til baunirnar voru meyrar en ekki soðnar í mauk. Ég hafði pottinn hálflokaðan og hrærði í öðru hverju.
Á meðan sauð ég hrísgrjón. Saxaði svo kóranderlauf og skar grænu blöðin af 2-3 vorlaukum smátt. Tók hálft rautt chilialdin, fræhreinsaði það og saxaði mjög smátt og blandaði dálitlu chili og kóríander saman við hrísgrjónin í skál. Síðan setti ég vorlauk, graskerfræ og kóríanderlauf í litlar skálar og bar fram með kássunni til að strá yfir (ekki nauðsynlegt en gott bæði upp á bragð og útlit).
*
Indversk linsubauna- og gulrótakássa
2 laukar
3-4 hvítlauksgeirar
5 cm biti af engiferrót
250 g gulrætur (eða annað grænmeti eftir smekk og ástæðum)
2 msk olía
1 msk karríduft
1 tsk kummin
1 tsk túrmerik
1/2 tsk svartur pipar
1/4 tsk cayennepipar, eða eftir smekk
salt
1 dós kókosmjólk
700 ml vatn
1 msk grænmetiskraftur
300 g rauðar linsubaunir
250 g hrísgrjón
1/2 rautt chili
kóríanderlauf
grænu blöðin af 2-3 vorlaukum
2-3 msk graskersfræ