Vetrarsalat í sterkum litum

Núna er einmitt kominn tíminn fyrir undirstöðugóð salöt með haust- og vetrargrænmeti, oft bökuðu eða soðnu; þau eru oft borin fram volg eða að minnsta kosti við stofuhita, stundum reyndar heit en þá myndi maður kannski ekki endilega kalla þau salöt – eða ég myndi ekki gera það. En þau geta verið ansi góð, hvað sem maður kallar þau. Og þurfa ekki að vera fyrirhafnarsöm þótt stundum þurfi að gera aðeins meira en bara að skera hráefnið niður.

Screen Shot 2018-09-02 at 20.50.56Það eru einhver svona salöt í nýju bókinni minni, Beint í ofninn – já, og svo að ég plöggi hana nú aðeins, þá var ég að sjá þennan glimrandi góða ritdóm um hana og ætla því að nota tækifærið og plögga hana aðeins. Frábær bók náttúrlega og allt það en það var líka svo gaman að gera hana og ég er svo ánægð með útkomuna þegar upp er staðið. Og svo glöð yfir að hafa fengið hana Alex til að hanna hana og sannfæra mig um að nota þessa litapallettu (það gekk ekki alveg þrautalaust og kostaði margar ferðir í Góða hirðinn og á fleiri staði að leita að borðdúkum og öðru taui í réttum litum og flekum sem ég gæti málað í rauðum og bleikum tónum til að fá réttu bakgrunnana fyrir myndirnar). En ég er mjög sátt við niðurstöðuna.

Uppskriftin hér á eftir er ekki úr bókinni en hefði alveg getað verið þar með ákveðnum breytingum. Uppistaðan er butternut og grænkál og ég bakaði bara butternutið en hefði svo sem alveg getað saxað það og bakað það með síðustu mínúturnar til að mýkja það. Ég kaus hins vegar fremur að nudda það í sama tilgangi, þar með varð rétturinn kannski salatlegri (frísklegri allavega, en bragðið er hreint ekki síðra ef grænkálið er bakað).

Af hverju að nudda – ja, grænkál er seigt og það er einmitt þess vegna sem það þolir vel að vera bakað, ristað, pönnusteikt eða sett í pottrétti og súpur og þá mýkist það. Það mýkist líka ef maður lætur það liggja í maríneringu eða salatsósu um tíma, einkum ef það er smátt skorið. En ef maður ætlar ekkert að skera það neitt rosalega smátt og bera það fram strax, þá getur verið gott að nudda það milli fingurgómanna til að brjóta upp þræðina og mýkja það. Þá er best að ýra yfir það dálitlum sítrónusafa eða ediki, salta það og nudda það þar til það fer að linast og mýkjast – en ekki of lengi, það á enn að vera stökkt.

IMG_4365

En ég semsagt hitaði ofninn í 200°C. Tók eitt butternutgrasker, ekkert voðalega stórt, rétt innan við kíló líklega (en það má auðvitað vera stærra), flysjaði það, skar það í tvennt, skóf fræin úr helmingunum með skeið og skar þá svo í bita.

IMG_4367

Ég hellti svo 2 msk af olíu í eldfast mót (eða ofnskúffu), blandaði pipar og salti saman við, velti teningunum upp úr blöndunni og bakaði þá svo í 30-35 mínútur, eða þar til þeir voru meyrir og aðeins farnir að taka lit.

Á meðan tók ég svona 150 g af grænkáli (eða eftir smekk), skar stönglana úr því og saxaðu það svo, ekkert allt of smátt. Setti það í stóra skál.

IMG_4380

Síðan hellti ég 2 1/2 msk af ólífuolíu í skál og hrærði 2 tsk af dijonsinnepi, safa úr 1/2 sítrónu, 1/2 tsk af paprikudufti og dálitlum pipar og salti saman við.

IMG_4384

Svo hellti ég þessu jafnt yfir grænkálið og nuddaði það milli fingranna í nokkrar mínútur til að mýkja það upp.

Svo blandaði ég grænkálinu saman við volga butternutbitana og dreifði á fat. Tók svona 2 msk af pistasíuhnetum, grófsaxaði þær og dreifði yfir (það mætti líka nota aðrar hnetur. Hreinsaði fræin úr hálfu granatepli og stráði þeim yfir líka..

Butternut- og grænkálssalat (6)

Butternut- og grænkálssalat með granateplum og hnetum

1 butternut-grasker, ekki mjög stórt

4 1/2 msk ólífuolía

pipar og salt

150 g grænkál

2 tsk dijonsinnep

safi úr 1/2 sítrónu

1/2 tsk paprikuduft

2 msk pistasíuhnetur (eða 30 g aðrar hnetur, t.d. heslihnetur)

1/2 granatepli

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s