Frost í eldhúsinu

Ég var í ísgerðartilraunum alla helgina. Kannski ekki alveg árstíminn til þess, ég veit; erlend kona sem heimsótti mig á sunnudaginn til að leita upplýsinga um matarsögu hafði orð á því hvað það væri merkilegt að Íslendingar borðuðu ís allt árið og ég hef oft heyrt útlendinga tala um hvað þeim finnist þetta skrítið. Sem það kannski er …

En mínar ísgerðartilraunir komu samt til út af því að ég var að eignast nýja ísvél. Var búið að langa í hana í meira en áratug. Ég átti reyndar ísvél fyrir sem hefur alveg dugað mér. En hún var af ódýrari gerðinni – flestar heimilisísvélar eru með annaðhvort skál eða botnstykki sem þarf að geyma í frysti eða hafa það þar í a.m.k. sólarhring áður en vélin er notuð. Mín (Philips Delizia) var með botnstykki, sem tekur reyndar mun minna pláss í frystinum en skál. En af ýmsum ástæðum langaði mig í alvörumaskínu, sem er með frystimótor og maður getur bara kveikt á henni og sett ísblönduna beint í hana og eftir kannski 25-40 mínútur er kominn ís, ótrúlega mjúkur og góður (eða það fer auðvitað líka eftir hráefninu). Og svo þarf bara að skola skálina og spaðann og setja aðra ísblöndu í hana – aftur og aftur. Ef maður ætlar að gera rosalega mikinn ís.

Ég hugsa reyndar að maður þurfi að gera ansi hreint mikinn ís til að græjan borgi sig og það mun hún aldrei gera hjá mér, ég mun ekki gera það mikinn ís. En það er allt annað mál … Alminleg svona vél kostar sitt; það er reyndar hægt að fá vélar með kælimótor fyrir rétt innan við 30 þúsund (þær sem eru með skál sem þarf að frysta eru miklu ódýrari) og svo er hægt að fá ítölsk tryllitæki fyrir vel yfir hundrað þúsund. Og allt þar á milli. En ég endaði á að velja Cuisinart-vél sem ég pantaði hjá amazon.co.uk, var komin í eldhúsið þremur dögum seinna og kostaði 47.000 með flutningi og aðflutningsgjöldum.

_MG_2615

Þetta er flott græja. En hún tekur pláss. Ég var samt búin að gera ráð fyrir því og var með tilbúið rými fyrir hana …

Og nú er ég búin að gera eina sex eða sjö mismunandi ísa, misvel heppnaða. Ég þurfti nokkrar tilraunir til að átta mig á því að ísblöndurnar þurfa að vera heldur þynnri en þær sem ég var vön að setja í gömlu vélina. Og svo er ég að prófa mig áfram með sykurlausa ísa handa sjálfri mér. Ísarnir sem ég bauð barnabörnum og tengdasyni upp á voru aftur á móti ekki sykurlausir. Og hér er einn af þeim; súkkulaði-lakkrís. Ég tek fram að það er alveg hægt að gera ísinn án þess að hafa ísvél, hann verður bara betri svona …

_MG_2639

Eins og ég sagði er hægt að hella ísblöndunni beint í vélina – það er að segja, ef blandan er vel köld. Og þar sem ég þurfti að bræða súkkulaðið í þennan ís yrði hún augljóslega ekki samstundis köld; hana þarf að gera með nokkurra klukkutíma fyrirvara eða helst daginn áður, sem var einmitt það sem ég gerði. Ég var með 1/2 l af rjóma; setti hann í pott, braut 150 g af suðusúkkulaði út í, setti 1/2 msk af lakkrísdufti (frá Johan Bülow) og smáklípu af salti út í, hitaði rólega og hrærði á meðan þar til súkkulaðið var bráðið. Þá tók ég pottinn af hitanum.

Það mætti alveg nota annað bragðefni en lakkrísduft, til dæmis vanillu.

_MG_2645

Svo þeytti ég saman 3 eggjarauður og 3 msk af sykri (nei, þetta var ekki ís handa mér). Síðan hellti ég heitri súkkulaðirjómablöndunni rólega út í og þeytti vel á meðan (nema ekki á meðan ég tók myndina því að ég er bara með tvær hendur). Bætti svo við 150 ml af nýmjólk til að blandan yrði ekki of þykk og sléttfullri matskeið af kakódufti af því að mér fannst hún of ljós. Lét hana svo kólna og setti skálina síðan í ísskápinn og lét hana standa þar þangað til blandan var ísköld (eða reyndar til næsta dags).

_MG_2781

Daginn eftir kveikti ég á ísvélinni, byrjað á að stilla hana á 25 mínútur, og hellti svo ísblöndunni í skálina á meðan spaðinn snerist (ef maður byrjar á að hella blöndunni í vélina og kveikir svo er hætt við að þunnt lag af blöndunni frjósi strax fast við botninn og vélin fari að hökta eða stöðvist alveg. Svo setti ég lokið á vélina.

Þegar vélin pípti og stöðvaðist eftir 25 mínútur fannst mér ísinn ekki alveg nógu þykkur svo að ég bætti við 10 mínútum og þá var hann passlegur – það hefði alveg verið hægt að borða hann þá ef maður vill mjúkan ís (eins og úr vél).

_MG_2795

En ég setti hann í dollu og stakk henni í frysti.

Ísinn var svo borinn fram í gærkvöldi ásamt hinum tilraunaísunum og fékk afar góð meðmæli frá dóttursyninum, sem er mikill aðdáandi blöndunnar súkkulaði + lakkrís. Það er ég reyndar líka – ég smakkaði hálfa teskeið af þessum og nú er næsta verkefni að gera sykurlausa útgáfu.

*

Súkkulaði-lakkrísís

1/2 l rjómi

150 g suðusúkkulaði

1/2 msk lakkrísduft (eða annað bragðefni)

salt á hnífsoddi

3 eggjarauður

3 msk sykur

150 ml mjólk

1 msk kakóduft

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s