Kýpurbollur

Uppskrift dagsins er öllu vetrarlegri en sú í gær en er þó raunar líka ættuð af mun suðrænni og hlýrri slóðum, það er að segja frá Kýpur. Hún er úr bók um norður-kýpverska matargerð sem ég keypti á markaði í Norður-Nikósíu þegar ég var þarna um jólin í fyrra en svipaðar bollur þekkjast víða við austanvert Miðjarðarhafið.

Allavega eru bollur af þessu tagi mjög algengar á Kýpur, ég fékk þær nokkrum sinnum þegar ég var þar þótt dvölin væri ekki ýkja löng. Oftast voru þær hluti af meze en ég fékk þær líka sem sjálfstæðan rétt. Það eru hráar, rifnar kartöflur í farsinu og þær gera það að verkum að bollurnar eru sérlega safaríkar en um leið stökkar að utan.

Bollurnar eru – ja, ekki kannski djúpsteiktar en þær eru steiktar í mikilli olíu og geta líklega kallast grunnsteiktar. Það er hægt að steikja þær líka í fremur lítilli olíu en þær verða dálítiðöðruvísi og mér finnst þær bestar svona.

IMG_8160

Ég byrjaði á að taka eina bökunarkartöflu, flysjaði hana og svo reif ég hana á grófu rifjárni ofan á hreint viskastykki (eða grisju). Það er hægt að nota matvinnsluvél með rifskífu eða eitthvað slíkt og hvolfa þá bara rifnu kartöflunni á viskastykki þegar það er búið.

IMG_8168

Ég tók svo um hornin á viskastykkinu svo að úr varð eins konar sekkur og kreisti eins mikinn safa og ég gat úr kartöflunni. Bara ofan í vaskinn, maður notar safann ekki. Biðst afsökunar á að myndin skuli ekki vera betri, það er ekkert endilega auðvelt að taka mynd af sjálfri sér við þessa iðju …

IMG_8173

Svo saxaði ég einn lauk og setti hann í skál ásamt rifnu kartöflunnni, 400 g af hakki (ég var með nautahakk en það er líka gott að nota lambahakk), 75 g af  brauðmylsnu, einu eggi, 1/2 tsk af pipar og 1 tsk af salti 8 (eða eftir smekk).

IMG_8174

Hnoðaði þetta svo saman með höndunum. Ef maður er ekki viss með kryddunina er gott að hnoða litla bollu, steikja hana í feiti og smakka, þá er hægt að bæta við pipar og salti ef þarf.

IMG_8178

Ég mótaði svo vindillaga bollur úr farsinu með blautum höndum – þetta gætu orðið 12–16 bollur. Ef farsið er of blautt má bæta við meiri brauðmylsnu. Það má líka hafa bollurnar kúlulaga en ekki mjög stórar, kannski þá eins og hálfan vindil svo að þetta verði 25-30 bollur.

IMG_8180

Síðan hellti ég 2–3 cm djúpu lagi af olíu á þykkbotna pönnu (eða í pott) og hitaði í um 180°C.  Setti bollurnar út í – best að steikja þær í tvennu lagi ef pannan er lítil eða notaður er pottur, það er ekki gott að þröngt sé um þær – og steikti þær uns þær voru fallega brúnar á báðum hliðum og steiktar í gegn (það má taka. eina og skerða í hana til að kanna það). Lét svo renna af þeim á eldhúspappír.

IMG_8182

Á meðan bollurnar stiknuðu gerði ég tómat-chiliídýfu eða sósu til að hafa með. En það má nota annars konar tómatsósu, eða einhverja allt aðra sósu, heita eða kalda. Þessi er köld. Ég grófsaxaði fjórðung af lauk og tvo vorlauka og setti í hakkara (eða matvinnsluvél eða blandara) ásamt 250 ml af tómatsósu úr flösku (ég notaði reyndar heimagerða, sykurlausa), 1/2 tsk af þurrkuðu óreganói, klípu af chiliflögum, 1 msk af vínediki, pipar og salti, og blandaði þar til allt var orðið að mauki. Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.

Norður-kýpverskar kjötbollur

Bollurnar má bera fram heitar, volgar eða kaldar, með sósunni (eða annarri sósu) og góðu salati.

*

Kýpverskar kjötbollur með tómatídýfu

1 bökunarkartafla, 350–400 g

1 laukur

400 g nautahakk

75 g brauðmylsna

1 egg

1/2 tsk pipar, eða eftir smekk

1 tsk salt, eða eftir smekk

olía til steikingar

*

Tómat-chiliídýfa

1/4 lítill laukur

2 vorlaukar

250 ml tómatsósa úr flösku

1/2 tsk óreganó, þurrkað

klípa af chiliflögum

1 msk vínedik

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s