Suðrænir draumar

Ég sit og er að láta mig dreyma um sól og sumar, sem við fengum sorglega lítið af þetta árið. Reyndar er ég nýbúin að fara með barnabörnin til Barcelona í helgarferð og þar var nóg af sól og við höfðum það ansi gott en ég væri samt til í meira … Ég á töluvert eftir af sumarfríinu svo að ég gæti alveg látið það eftir mér en af því að ég er að fara út um jólin og það eru nú bara rúmir tveir mánuðir þangað til finnst mér ekki taka því. Frekar vildi ég fara eitthvað á útmánuðunum, kannski í febrúar eða mars. En ég get ekki planað langt fram í tímann núna því að ég er á biðlista eftir hnéaðgerð sem ég vonast eftir að komast í kannski fljótlega eftir áramót …

Sjáum til með það. En í staðinn er hér verulega suðrænn og sólríkur eftirréttur, enda ættaður frá Brasilíu: Mousse de maracujá com mango – ástaraldins- og mangóbúðingur. Þetta er sykurlaus eftirréttur – þ.e. án viðbætts sykurs en mangóið er auðvitað nokkuð sætt ef það er vel þroskað. Ef manni finnst þetta ekki nógu sætt má líka bæta svolitlum sykri við.

_MG_2167

Ég var með fjögur (frekar lítil, nú eða þrjú stærri) ástaraldin (ástríðuávexti, passíuávexti, píslarávexti eða hvað maður vill kalla það), tók eitt frá en skar hin í tvennt, skóf innmatinn úr þeim í sigti sem ég var með yfir skál og notaði skeið til að pressa eins mikið af maukinu og hægt var í skálina.

_MG_2174

Svo tók ég eitt vel þroskað mangó, skar steininn úr því (notaði þennan sérlega mangóskera sem ég á en hnífur dugir alveg), flysjaði það og maukaði svo aldinkjötið í matvinnsluvél eða blandara.

_MG_2176

Síðan blandaði ég ástaraldinmaukinu saman við, mældi magnið og bætti við ástaraldin- eða mangósafa (úr fernu) þar til þetta var 350 ml.

_MG_2164

Ég tók svo tvö matarlímsblöð og lagði þau í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur. Setti 50 ml af ávaxtasafa í viðbót í lítinn pott og bræddi matarlímið í safanum. Hellti honum svo saman við ávaxtamaukið og lét þetta bíða smástund. Síðan stífþeytti ég 250 ml af rjóma, blandaði  ávaxtamaukinu gætilega saman við með sleikju og hellti þessu svo í nokkur glös eða eina glerskál og kældi í nokkrar klukkustundir.

_MG_2165

Ég skóf svo fræ og safa úr ástaraldinu sem eftir var yfir, áður en búðingurinn var borinn fram.

Mousse de marajuca

Svo hef ég líka gert þetta á annan hátt, meira brasilískt – notaði sæta niðursoðna mjólk (sweetened condensed milk) ríflega til helminga á móti rjómanum. En þá er rétturinn reyndar ekki lengur sykurlaus …

Mousse de maracuja (3)

Ástaraldins- og mangóbúðingur

3-4 ástaraldin

1 vel þroskað mangó

ástaraldin- og/eða mangósafi eftir þörfum

2 matarlímsblöð

250 ml rjómi

2 comments

  1. Þeytir þú þá mjólkina með rjómanum? Er kannski ekki hægt að þeyta niðursoðna mjólk?

    • Nei, ég þeytti hana ekki. Það er hægt að þeyta hana en allt þarf að vera ískalt – mjólkin, skálin, þeytararnir – og skálin þarf helst að standa í ísmolabaði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s