Sjö sortir

Það verður ekki smákökulaust hjá mér á Þorláksmessu eins og var í fyrra, svo mikið er víst, ég er búin að baka sjö sortir. Efast nú um að þær verði fleiri þessi jólin, ekki nema kannski ef mér dettur í hug eitthvert næsta kvöld að baka eitthvað mjög fljótlegt og einfalt, eins og kókosmakrónur eða einhverjar ,,teskeiðarkökur“ eins og ég kalla þær stundum – úr einhverju einföldu hrærðu deigi sem maður setur svo strax á bökunarplötu með teskeið og bakar. Og reyndar er líklegt að ég baki súkkulaðikökurnar aftur, ég var með uppskrift að þeim hér í sumar og þær voru svo ansi vel heppnaðar, en svo gerði ég smábreytingu á uppskriftinni núna í tilraunaskyni og er ekki alveg nógu ánægð (bragðið er reyndar í góðu lagi en mér finnst kökurnar svolítið mislukkaðar í útliti). En það eru einmitt svona teskeiðarkökur, svo það er ekki mikið mál.

Ég var svo með uppskrift að hnetunúggatkökunum hér í fyrradag og hafrarúsínukökunum um daginn, hér ætla ég að setja uppskriftir að þremur í viðbót – en bara myndir af tveimur, ég hélt reyndar að ég hefði tekið myndir af súkkulaðipistasíukökunum en það hefur greinilega farist fyrir – en þá er eftir ein sort, súkkulaðibitakökur með pekanhnetum, og ég man satt að segja ekki alveg hvernig uppskriftin er …

En jæja. Eins og ég sagði í panettoneuppskriftinni í gær gengu þar fjórar eggjahvítur af (reyndar fimm en ég notaði eina til að pensla brauðið) svo ég varð eiginlega að baka einhverjar marenskökur. Og þar sem ég er á móti lakkrístoppum af prinsippástæðum (og af því að mér þykja þeir ekki góðir), þá voru þeir ekki á dagskrá. Ég ákvað því að baka kornflexkökur með súkkulaði – þó ekki fyrr en ég rak augun í lítinn poka með lífrænt ræktuðu kornflexi í Bónus. Ekki vegna þess að ég sé neitt sérstaklega að eltast við lífrænt kornflex, neinei, heldur vegna þess að ég er lítið fyrir kornflex sem morgunmat og venjulega þegar ég geri eitthvað svona þarf ég að kaupa heilan stóran pakka sem dagar svo uppi til eilífðarnóns (eða þangað til hann hrynur á gólfið í búrinu með opið niður og kornflex út um allt gólf og ég í megafýlu á meðan ég er að sópa því saman). En þessi pakki var bara 325 g, rétt um tvöfalt meira en ég þurfti. Að vísu jafndýr og stóru pakkarnir en so what. Mér er illa við að matur verði ónýtur, hvort sem hann er dýr eða ódýr.

IMG_9055Ég byrjaði á að  hita ofninn í 150°C og setti svo eggjahvíturnar fjórar í hrærivélarskálina og þeytti þær þangað til þær voru orðnar að hvítri froðu sem myndaði mjúka toppa. Þá vigtaði ég 275 g af sykri og þeytti honum saman við smátt og smátt, þar til konnir voru stífir toppar og marensinn var gljáandi. – Eins og sjá má er hann svolítið kornóttur en það er vegna þess að venjulegur sykur sem hér fæst er yfirleitt ansi grófkorna. Það er allt í lagi í svona kökum en ef ég vil hafa marensinn alveg sléttan, t.d. þegar ég er að búa til makrónukökur, krem eða annað slíkt, þá byrja ég á að setja hann í matvinnsluvél og láta hana ganga þar til hann er nánast orðinn að dufti (sjá hér). Þá leysist hann fljótt upp í eggjahvítunum og marensinn verður alveg sléttur. En það er óþarfi hér. Svo þeytti ég 1 tsk af vanilluessens saman við (má líka vera vanillusykur).

IMG_9061Svo skar ég 150 g af góðu, dökku súkkulaði í bita, sem mega alveg vera svolítið misstórir, og setti þá út í marensinn ásamt sirka hálfum kornflexpoka – semsagt, 150-200 g, ég mældi ekkert nákvæmlega. – Þessi uppskrift er í Jólamat Nönnu en þar hefur magnið af kornflexi fallið niður í umbrotinu, því miður. Það er  hinsvegar ekkert svo nauið með það og má alveg nota töluvert meira af kornflexi en ég gerði hér.

IMG_9067Allavega, ég blandaði súkkulaðinu og lífræna kornflexinu gætilega saman við marensinn með sleikju.

IMG_9080Svo setti ég marensinn á pappírsklæddar bökunarplötur með teskeið – passa að hafa kökurnar ekki of stórar, þær bólgna þó dálítið út í bakstrinum. Ég held að þetta hafi orðið svona 70 kökur í allt. Ég vanda mig nú ekkert ógurlega við að setja þær á plötuna en laga þær til á eftir með blautum fingrum.

IMG_9089Svo bakaði ég þær á næstefstu rim í svona 20 mínútur. Þurfti þrjár plötur en marensinn þolir alveg að bíða á meðan hinar kökurnar bakast.

Úlfur dóttursonur minn át þriðjunginn af kökunum samdægurs.

Og svo eru það kókosmjölskökurnar. Gamlar og klassískar en auðveldar og góðar. Þetta voru uppáhaldssmákökurnar mínar þegar ég var lítil og uppskriftin er frá mömmu.

IMG_8921Ég setti allt hráefnið í hrærivélarskálina: 200 g hveiti, 100 g kókosmjöl, 200 g lint smjör, 125 g sykur, 2 msk kakóduft (má vera aðeins meira), 1/2 tsk hjartarsalt og 1/2 tsk vanilluessens/dropar/sykur. Já, og 1 egg. Hrærði þetta saman – bara eins og þarf til að allt blandist vel, en ekki meira.

IMG_8927Svo hnoðaði ég það í svera rúllu, vafði bökunarpappír utan um hana og stakk henni í kæliskápinn í 1-2 klst, má vera lengur. Ég hef reyndar bakað strax úr deiginu og það er allt í lagi en þá er líklegt að kökurnar verði flatari.

IMG_8945Svo hitaði ég ofninn í 200°C, tók smáklípur af deiginu og rúllaði kúlur  – svona á stærð við kokkteiltómat – og flatti þar svo dálítið út milli lófanna.

IMG_8956Svo setti ég dálítinn strásykur á disk, þrýsti annarri hliðinni á kökunum létt ofan í sykurinn og raðaði þeim á pappírsklædda plötu. Mig minnir að það hafi orðið svona 50 kökur úr þessu.

IMG_8960Svo bakaði ég kökurnar á efstu rim í svona 8 mínútur. Lét þær kólna í 2-3 mínútur á plötunni og færði þær svo yfir á grind.

Jú, þær eru næstum eins góðar og þær voru.

IMG_9104Hér er alltsvo hópmynd af öllum kökunum sjö. Sú sem er fremst er súkkulaðibitapekankakan sem ég man ekki uppskriftina að; þessi dökka aftast er súkkulaðipistasíukakan sem ég gleymdi að mynda en uppskriftin er svona:

Súkkulaðipistasíukökur

50 g dökkur muscovado-sykur

75 g sykur

125 g smjör, lint

1 tsk vanilluessens

175 g hveiti

25 g kakóduft

½ tsk matarsódi

½ tsk fleur de sel eða mulið Maldon-salt

125 g súkkulaðidropar

100 g pistasíuhnetur, grófsaxaðar

Hitaðu ofninn í 175°C. Hrærðu sykur, smjör og vanillu saman, blandaðu hveiti, kakói, matarsóda og salti saman við og svo súkkulaði og pistasíum. Ekki hafa áhyggjur þótt deigið virki frekar þurrt, það á að vera það, en ef það molnar og ekki tekst að hnoða kúlur úr því má bæta við svolitlu köldu vatni. Mótaðu það í kúlur og raðaðu á pappírsklæddar bökunarplötur, flettu þær aðeins út með fingurgómunum og bakaðu kökurnar á efstu rim í um 9 mínútur.

Og hér eru svo hráefnislistar úr hinum kökunum:

Kornflex-súkkulaðikökur

4 eggjahvítur

275 g sykur

1 tsk vanilluessens eða vanillusykur

150 g dökkt súkkulaði, brytjað

150-200 g kornflex (þarf ekkert að vera lífrænt)

 

Kókosmjölskökur

200 g hveiti

100 g kókosmjöl

200 g lint smjör

125 g sykur (og meira til að dýfa kökunum í)

2 msk kakóduft

1/2 tsk hjartarsalt

1/2 tsk vanilluessens eða vanillusykur

1 egg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

6 comments

 1. Sæl Nanna,

  Er oft að spá af hverju hjartasalt sé notað og hvort eitthvað annað sé hægt að nota í staðinn?

  Kv-Edda

  • Hjartarsalt er notað af því að það gefur stökkari og betri áferð á sumar smákökur en hægt er að ná fram með öðrum lyftiefnum. Í sjálfu sér er alltaf hægt að nota t.d. lyftiduft í staðinn, þ.e. til að fá fram lyftingu í kökurnar, en þær verða aldrei alveg eins. Ég prófaði einu sinni að baka kókosmjölskökurnar með lyftidufti en var ekki ánægð með þær, fannst þær of þéttar í sér.

   Það gefur líka hraðari lyftingu en lyftiduft og hentar þess vegna vel í smákökur.

   • Takk – sé núna að hjartasalt hefur bara ansi mikilvægt hlutverk t.d í smákökum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s