Grafin gæs með blóðbergi og bláberjum

Ath.: Aðra og nýrri uppskrift að gröfnum gæsabringum, með betri myndum, má svo finna hér.

Svona í upphafi og áður en ég gleymi því: Gleðileg jól, öllsömul.

Það hefur verið dálítið mikið að gera hjá mér að undanförnu svo það er orðið nokkuð síðan ég hef skrifað hér. Flest af því hefur reyndar veriðmatartengt en fæst þannig að það passi hér á bloggið – eða að ég hafi mikið verið að taka myndir eða skrifa hjá mér hvað ég er að gera, svo að jafnvel þótt ég hefði viljað setja eitthvað hingað man ég kannski ekki nein hlutföll eða annað sem þarf til að skrifa uppskriftina …

Fyrst var það útskriftarveisla hjá dótturdóttur minni, sem varð stúdent frá MH á föstudaginn. Ég steikti kjúklingapinna og litlar kjötbollur heima hjá mér um morguninn en svo var eftir að útbúa snitturnar.

IMG_9532Nýstúdentinn er röskleikastúlka með langa starfsreynslu úr Björnsbakaríi og lét sig ekki muna um að bregða sér úr kjólnum og í þægilegri föt þegar heim kom, smyrja hátt í 200 snittur og punta sig svo aftur upp áður en gestirnir komu.  Amman sá svo um að skreyta snitturnar.

IMG_9743Laugardagurinn og fyrri hluti sunnudags fór svo í að undirbúa mitt árlega Þorláksmessuhlaðborð. Það var tilbúið um kaffileytið og aldrei þessu vant var allt komið á borðið þegar fyrstu gestirnir komu, venjulega er nú eitthvað eftir … Þarna er fremst tæplega þrettán kílóa svínslæri, pækilsaltað í eina tólf daga og svo steikt í fimm til sex klukkutíma; heimareykt hangilæri frá bernskustöðvunum; platti með áleggspylsum af ýmsu tagi; kjúklingalifrarkæfa; söltuð nautatunga; reykt folaldatunga; hægbakaður mangólax; mandarínusíld og timjansíld; kjúklingabaunasalat; nokkrir ostar, þar á meðal tvær tegundir af afbragðsgóðum Stilton; jóladrumbur; panettone; tvær ávaxtakökur (önnur bökuð 2011, hin 2012 – sú eldri þótti að sjálfsögðu betri); sjö sortir af smákökum; brauð (sem ég mátti reyndar ekki vera að því að baka sjálf í þetta skipti); og einhverjar sultur og þess háttar.

Þetta var allt alveg ágætt, þótt ég segi sjálf frá.

Og svo var það náttúrlega aðfangadagur. Aðalrétturinn var andabringur og andalæri með ofnsteiktum kartöflum og eplum, rauðkáli og sósu, eftirrétturinn var saltkaramelluís og súkkulaðikökur, en forrétturin var grafnar gæsabringur og það eru þær sem hér kemur uppskrift að. Gæti kannski nýst einhverjum um áramótin.

IMG_9699Ég tók bringurnar úr frysti á fimmtudaginn og lét þær þiðna í ísskápnum. Tók þær svo út á föstudagsmorgun og þerraði þær vel með eldhúspappír.

IMG_9700Svo blandaði ég saman 5 msk af salti, 5 msk af hrásykri, 4 msk af þurrkuðu blóðbergi, 1/2 tsk af nýmöluðum svörtum pipar og af því að ég átti ferskt óreganó setti ég svolítið af því út í blönduna. Annars má nota ýmiss konar krydd en það er skemmtilegast að nota villtar íslenskar jurtir. – Annars er þetta dálítið stór skammtur og hefði alveg dugað á mun fleiri bringur.

Ég tók helminginn af blöndunni frá og geymdi en blandaði 2 msk af salti til viðbótar saman við hitt. Dreifði hluta af saltblöndunni á botninn á leirfati (það er best að nota leir, gler eða ryðfrítt stál í svona), lagði bringurnar ofan á, dreifði afganginum af saltblöndunni yfir, setti í ísskápinn og lagði létt farg ofan á.

IMG_9703Morguninn eftir (laugardag) hafði saltið breyst í saltpækil og ég tók bringurnar úr bakkanum, skolaði þær snöggt í köldu vatni og þerraði, skolaði bakkann, stráði helmingnum af kryddblöndunni sem eftir var í bakkann, lagði bringurnar ofan á og stráði því sem eftir var af kryddblöndunni yfir. Setti svo aftur í ísskápinn undir létt farg. Ég sneri bringunum einu sinni á Þorláksmessu, ætlaði að gera það aftur en það gleymdist, það var svo mikið að gera …

IMG_9825Þetta hefði nú alveg dugað til, bringurnar voru orðnar fínar á aðfangadagsmorgun, en ég ákvað að bæta aðeins við að gamni, svo ég skolaði aftur af þeim, saxaði dálítið af þeim fersku kryddjurtum sem ég átti (basilíku, óreganó, fjallasteinselju og rósmaríni) og velti bringunum upp úr blöndunni og pakkaði þeim svo inn í álpappír í nokkra klukkutíma. Þá tók ég þær og skar í þunnar sneiðar á ská.

IMG_9828Svo bjó ég til smávegis vinaigrettu úr 3 msk af valhnetuolíu (mætti vera einhver önnur góð, bragðmild olía), 1 1/2 msk af góðu balsamediki (ég notaði fíkjubalsamedik en það er ekki nauðsynlegt), nokkrum dropum af hlynsírópi og svolitlum pipar. Salt ætti að vera óþarfi.

IMG_9798Svo setti ég hrúgu af salatblöðum á fat, raðaði gæsabringusneiðum ofan á, dreifði nokkrum matskeiðum af þurrkuðum bláberjum og gullnum rúsínum yfir (mættu líka vera önnur þurrkuð ber/ávextir, t.d. trönuber, saxaðar apríkósur eða gráfíkjur o.fl.) og grófmuldi nokkrar pekanhnetur yfir. Að lokum dreypti ég svolitlu af vinaigrettunni yfir og bar afganginn fram með.

Þetta þótti sérlega jólalegur forréttur. Og góður.

Gleðileg jól, enn og aftur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s