Kjöt með gömlum gljáa

Eftir stöðug veisluhöld síðustu dagana er auðvitað til nóg af afgöngum af ýmiss konar stórsteikum og fleiru, ég er að safna þreki í að ganga frá sumu af þessu í frysti og svo er að koma fólk í hangikjöt á eftir – en í hádeginu í dag langaði mig í eitthvað allt annað, reyndar helst fisk en hann átti ég ekki nema þá í frysti. Aftur á móti var til kjötbiti (eða tveir) sem þurfti að elda nú eða aldrei …

Ég var nefnilega eiginlega stöðugt að elda seinnipartinn í síðustu viku og um helgina en aldrei beinlínis kvöldmat handa mér – jújú, ég fékk nóg að borða, það vantaði ekki, en var aðallega bara að narta í það sem ég var að gera fyrir stúdentsveisluna eða Þorláksmessuboðið eða jólin. Ætlaði samt að bæta úr þessu á föstudaginn og var búin að kaupa mér svolítið nautaframhryggjarfillet til að elda mér í hádegismatinn. En svo varð af ýmsum ástæðum ekkert úr því og ég stakk því í ísskápinn og gleymdi því eiginlega, allavega fram á aðfangadag, og þá var það öndin og svo hangikjötið í gær.

En núna var sannarlega kominn tími til að gera eitthvað við þetta. Kjötið hafði reyndar sennilega bara batnað við fimm eða sex daga geymslu …

IMG_9829Þetta voru tveir litlir bitar og ég kryddaði þá vel með grófsteyttri piparblöndu, grófsteyttu kóríanderfræi og íslensku salti og lét standa smástund.

IMG_9831Á meðan hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu, grófsaxaði einn rauðlauk og lét hann krauma í nokkrar mínútur við meðalhita, þar til hann var farinn að mýkjast og aðeins að taka lit.

IMG_9835Þá skar ég niður eina litla, rauða papriku og tvo vorlauka og setti á pönnuna ásamt nokkrum grófmuldum pekanhnetum og dálitlu rósmaríni. Kryddaði með pipar og salti og lét krauma í nokkrar mínútur, þar til paprikan var farin að mýkjast. Þá tók ég allt grænmetið af pönnunni með gataspaða og bætti örlítilli olíu á hana.

IMG_9842Svo hækkaði ég hitann, setti kjötið á pönnuna og steikti það í um 4 mínútur á annarri hliðinni. Sneri því svo við og steikti það í 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Og af því að ég átti nokkur basilíkublöð sem þurfti að nota saxaði ég þau gróft og hrúgaði ofan +á bitana þegar ég var búin að snúa þeim, bara afþví að mér fannst það flott …

IMG_9848Og þegar þrjár mínútur voru komnar setti ég grænmeti aftur á pönnuna. Ætlaði að hella smávegis vatni og balsamediki á pönnuna en svo mundi ég eftir rabarbaragljáanum sem ég notaði í sósuna með öndinni á aðfangadag …

IMG_9849Þegar ég var að leita að einhverju í eldhússkáp rétt fyrir jól rakst ég nefnilega á flösku af rabarbaragljáa (rabarbari, rauðvín, hrásykur) frá Friðriki V., sem ég var búin að steingleyma að ég ætti. Man ekki alveg hvað hún er gömul – tveggja eða þriggja ára – og var ekkert að leita að dagstimplum, en ég opnaði hana og tékkaði á innihaldinu og sá um leið að þetta var akkúrat það sem mig vantaði í sósuna með jólaöndinni. Svo að á aðfangadagskvöld notaði ég slatta af gljáanum í sósuna, sem þótti stórgóð. Og nú skvetti ég tveimur matskeiðum eða svo yfir grænmetið á pönnunni, slökkti svo undir henni og lét standa aðeins til að kjötið jafnaði sig.

IMG_9870Það væri örugglega fínt að hafa t.d. soðin hrísgrjón með þessu. En ég lét nú bara grænmetið duga, ásamt nokkrum salatblöðum.

IMG_9888Kjötið var steikt nákvæmlega eins og ég vildi hafa það. En auðvitað má steikja það lengur. Og þetta var góð tilbreyting frá stórsteikunum og hangikjötinu. Sem ég hlakka samt ósköp mikið til að borða eftir smástund …

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s