Að láta smákökur ekki fljóta útum allan ofn

Hvað eiga þurrkaðar apríkósur, pekanhnetur og hvítt súkkulaði sameiginlegt?

Jú, til dæmis það að mér þykir þetta allt saman ósköp gott.

Svo að þegar ég ákvað að baka smákökur í dag og fór að hugsa um hvað ég ætti nú til og mundi að ég átti meðal annars þetta þrennt – já, þá var ákvörðunin eiginlega tekin fyrir mig og ég fór að rifja upp heppileg hlutföll fyrir kökur af þessum toga og setja saman uppskrift.

Ég notaði tækifærið í leiðinni – af því að ég vildi ekki eiga á hættu að kökurnar rynnu mikið út og mynduðu jafnvel eina samfellda risaköku á plötunni – til að minna sjálfa mig á hvað það er sem helst veldur slíkri flatneskju og samruna, og það jafnvel þótt maður sé með uppskrift sem á að vera pottþétt og fari eftir henni. Ég tala nú ekki um þegar maður rennir blint í sjóinn með ókunnuga uppskrift eða semur uppskriftina sjálfur jafnóðum, eins og ég var að gera.

Fyrst varðandi hráefnin: Feitin skiptir máli en hérlendis er yfirleitt notað smjör eða smjörlíki í smákökur og á því er ekki mikill munur, þó renna kökur úr smjöri oft svolítið meira út en ef notað er smjörlíki vegna þess að smjörið bráðnar við svolítið minni hita. En í bandarískum uppskriftum er oft notuð ,,vegetable shortening“ sem er hert jurtaolía og hefur hærra bræðslumark þannig að kökur þar sem hún er notuð renna síður út. Smjör gefur hins vegar betra bragð í flestar kökur og þá er gott að það sé eins kalt og hægt er – en það þarf jú að vera hægt að hræra því saman við sykurinn og þá má annaðhvort rífa það á rifjárni eða (mun einfaldara) nota lint smjör en kæla deigið í svona klukkutíma áður en bakað er úr því.

Því meira sem notað er af sykri og því fínni sem sykurinn er, þeim mun meira renna kökurnar út þegar sykurinn bráðnar í hitanum. Hveititegundin getur skipt máli líka; því prótínríkara sem hveitið er, þeim mun síður renna kökunar út en brauðhveiti er þó ekki heppilegt í smákökur áferðarinnar vegna. Hveiti sem hér fæst er reyndar yfirleitt frekar prótínauðugt en víða erlendis fæst sérstakt kökuhveiti sem er þó of ,,fínt“ í sumar smákökur.

Svo getur líka verið að deigið sé einfaldlega of lint, hlutföllin séu ekki alveg rétt, eða kannski hafa verið notuð stór eða mjög stór egg þegar höfundur uppskriftarinnar var með meðalstór egg í huga. Það má prófa að bæta svolítið meira hveiti út í, matskeið í einu, en best að fara varlega því kökunar geta orðið seigar ef hveitimagnið verður of mikið.

Kökugerðin: Ekki hræra deig í smákökur mikið. Þótt talað sé í uppskriftinni um að hræra smjör og sykur ljóst og létt (og ég geri það oft í mínum uppskriftum) er nóg að hræra þar til það er vel samlagað. Það tekur auðvitað styttri tíma ef smjörið er lint.

Eins og ég sagði áðan er gott að kæla deigið fyrir bakstur. Það gildir reyndar um flestar tegundir af smákökudeigi að því kaldara sem deigið er, þeim mun betur halda kökurnar lögun í ofninum.

Ekki smyrja bökunarplötuna, bráðið smjör virkar eins og rennibraut fyrir kökudeigið … Bökunarpappír eða silíkonmotta er málið.

Ekki setja kökur beint á heita bökunarplötu. Platan þarf að kólna áður en nýr skammtur er settur á hana.

Bökunin: Hér skiptir miklu að ofninn hafi náð réttu hitastigi þegar kökunar fara inn. Þá stífna jaðrarnir á kökunum áður en miðjan byrjar að þenjast og renna út og kakan lyftir sér upp í loftið fremur en út til hliðanna.

Og ef maður reynir allt þetta og kökurnar renna samt út … já, þá er kominn tími til að finna nýja uppskrift.

Ég byrjaði á að vigta 75 g af apríkósum, 75 g af hvítum súkkulaðihnöppum og 50 g af pekahnetum. Skar apríkósurnar í litla bita og grófsaxaði pekanhneturnar.

Svo vigtaði ég 75 g af sykri, 50 g af hrásykri (má vera púðursykur) og 125 g af linu smjöri, setti þetta í hrærivélarskálina ásamt 1/2 tsk af vanilluessens og hrærði þar til allt var vel samlagað. – Venjulega mundi ég setja eitt egg í deigið á þessu stigi en ákvað eftir smáumhugsun að baka eggjalausar kökur. Það er oft verið að spyrja mig um eggjalausar kökur vegna barna sem hafa eggjaofnæmi og mér datt í hug að þessar gætu verið góðir kandídatar.

Ég vigtaði svo 200 g af hveiti, blandaði 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti saman við og setti svo apríkósurnar, súkkulaðið og hneturnar út í og blandaði vel. Hellti þessu svo út í hrærivélarskálina með smjör- og sykurblöndunni og hrærði rólega, bara til að blanda öllu saman.

Þá ætti deigið að líta nokkurn veginn svona út og það ætti að vera auðvelt að móta kúlur úr því án þess þó að það klessist við hendurnar. Ef það er of blautt má bæta örlitlu hveiti út í, ef það er of þurrt má bæta við svolítilli mjólk, 1/2-1 msk í einu, þar til deigið er hæfilegt.

Svo hnoðaði ég deigið saman, vafði bökunarpappír um það og setti það í ísskápinn í svona klukkutíma.

Þá hitaði ég ofninn í 180°C og tók svo deigið úr ísskápnum og mótaði það í litlar kúlur (á stærð við kokkteiltómat eða svo). Úr þessu deigi fékk é 32 kökur af þessari stærð.

Ég raðaði kökunum á tvær pappírsklæddar bökunarplötur og flatti þær svolítið út með fingrunum. – Ég hafði mun meira bil á milli á fyrri plötunni sem ég bakaði því ég var ekki 100% viss um að kökurnar flytu ekki út þrátt fyrir varúðarráðstafanir. En það gerðist ekki og þær voru mun þéttari á seinni plötunni.

Ég var ekki alveg viss hvaða bökunartíma ég ætti að áætla; bakaði fyrri plötuna í 10 mínútur á næstefstu rim og fannst þær aðeins of dökkar svo að ég bakaði seinni (og stærri) skammtinn bara í 8 mínútur. Sennilega er 9 mínútur rétti tíminn … En báðar voru góðar; þær dekkri aðeins stökkari og urðu töluvert harðari þegar þær kólnuðu, þær ljósu mýkri og meyrari.

Þetta eru ekkert endilega fallegustu kökur í heimi en mér þykja þær býsna hreint girnilegar.

Og jú, soldið góðar líka.

4 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s