Bautar og slummur

Ég eldaði mér saxbauta i kvöldmatinn. Það var einhvernveginn dagur til þess.

Líklega kannast margir af yngri kynslóðinni ekkert við saxbauta og þeir sem eldri eru (fólk á mínum aldri til dæmis) þekkja hann helst sem dósamat frá Niðursuðuverksmiðju KEA, sem fór að framleiða hann um 1955 en tók við af SS, sem hafði framleitt saxbauta frá því um eða skömmu eftir 1930. Saxbauti í lauksósu var löngum vinsælasta framleiðsluvara niðursuðuverksmiðjunnar og fékkst bæði í heil- og hálfdósum.

Sumir halda að saxbauti hafi verið einhver sérstakur réttur, óþekktur nema niðursoðinn, en í rauninni var þetta bara hakkabuff. Þýðingin kom fram í lista sem Orðanefnd Verkfræðingafélagsins setti saman árið 1926 með tillögum að þýðingum á ýmsum orðum úr viðskiptamáli, þar á meðal ýmsum matarorðum. Þar má nefna mæsur (kornflex), valbjúga (salamipylsa), brauðkæna (tartaletta) og milska (súkkulaði). En reyndar eru þarna líka orð sem náðu fótfestu í málinu.

Ekki voru þó allir hrifnir af tillögunum og Guðbrandur Jónsson skrifaði:

Saxbauti sló ekki beint í gegn en festist þó aðeins meira í málinu en Guðbrandur taldi að hann mundi gera og á síðustu árum hafa einstöku skóla- og leikskólamötuneyti hleypt nýju lífi í orðið.

En ég ætla reyndar ekki að setja hér uppskrift að saxbautanum mínum, ekki í þetta skipti allavega. Aftur á móti gerði ég öðruvísi bauta um helgina – jæja, eiginlega finnst mér þetta frekar vera lummur en buff en kúrbítslummur er bara svo asnalegt orð og til dæmis er hætt við að orðskiptiforrit skipti því í kúrbít-slummur og það er ekki fallegt. Svo ég ætla að kalla þetta kúrbítsbuff. Nei, ekki bauta.

Það er alltaf á planinu hjá mér að fjölga grænmetisréttum á matseðlinum en gengur kannski ekki alveg nógu vel … en þetta var allavega tilraun og hún tókst vel.

Samtíningur úr skápunum: 225 g kúrbítur, 2 vorlaukar, 125 g fetaostur, 2 egg, 60 g hveiti, 1/2 tsk lyftiduft, svolítið af þurrkaðri basilíku, rifinn börkur af 1/2 sítrónu, paprikuduft, cayennepipar, pipar og salt.

Ég byrjaði á að rífa kúrbítinn gróft á rifjárni.

Þar sem kúrbíturinn er safaríkur er best að reyna að ná úr honum einhverju af safanum svo buffin verði ekki of blaut og lin. Þetta er hægt að gera með því að setja hann í sigti, strá dálitlu salti yfir, láta standa í svona hálftíma og pressa hann svo, t.d. með skeiðarbaki eða með því að setja hann í hreint viskastykki eða grisju og kreista. En ég á að sjálfsögðu sérlega græju til að pressa safa úr kúrbít (og öðru sem maður gæti þurft að pressa safa úr).

Ég held samt að græjan dugi illa til að pressa sér safa til drykkjar, eða allavega yrði það seinlegt. En úr þessum 225 g af kúrbít komu þrjár matskeiðar af safa. Hollustuvænna fólk en ég hefði örugglega nýtt hann til einhvers en ég nennti því nú ekki.

Ég setti pressaða kúrbítinn í skál, muldi fetaostinn yfir, saxaði vorlaukinn, muldi basilíkublöðin og reif sítrónubörkinn. Blandaði þessu vel saman.

Svo hrærði ég eggjunum saman við. Blandaði svo kryddinu saman við hveitið og hrærði þessu saman við kúrbítsblönduna.

Ég hitaði svo olíu á pönnu og setti kúrbítsblönduna á hana með kúfaðri matskeið. Þetta urðu sjö buff samtals en það má þó auðvitað hafa þau fleiri og minni.

Ég steikti buffin í 3-4 mínútur á hvorri hlið við meðalhita.

Á meðan gerði ég sósu til að hafa með buffunum. Heimagerð jógúrt (meira um það seinna), svolítill sítrónusafi, grófsteytt kóríanderfræ, pipar, salt og basilíka (fersk í þetta skipti).

Svo bar ég buffin fram með grænu salati, sítrónubátum og sósunni. Það hefði líka verið upplagt að hafa t.d. soðin hrísgrjón með þessu.

Þessi buff voru jafnvel enn betri upphituð daginn eftir.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s