Jólalegt og ójólalegt

Ég borðaði jólamat í gærkvöldi. Það var vegna þess að ég hafði lofað henni Gurrí að elda fyrir jólablað Vikunnar. Hún kom svo í heimsókn og þegar búið var að elda matinn settumst við náttúrlega niður og gæddum okkur á honum við kertaljós og alles. Það vantaði bara messuna í útvarpinu en við komumst nú samt í töluvert jólaskap.

Það er líka alltaf gaman að fá Gurrí í heimsókn, við erum búnar að þekkjast frá því að við vorum sextán – sautján ára og sóttum sveitaböll í Skagafirði. Við sjáumst að vísu sjaldnar eftir að hún flutti upp á Skaga; hún er búin að eiga standandi matarboð hjá mér í meira en ár en það dugði ekki minna en þríréttaður jólamatur til að hún kæmi loksins.

Ég set kannski uppskriftirnar hér inn seinna en ekki fyrr en þær eru búnar að birtast í Vikunni fyrst ég var nú að gera þetta fyrir blaðið. En hér er samt ein mynd af forréttinum – þó ekki alveg eins og hann var, heldur eins og diskur sem var afgangs var núna í hádeginu þegar ég var búin að hressa aðeins upp á hann. En hann er frekar jólalegur.

Mér fannst dagurinn í dag hins vegar ekki bjóða upp á einhvern jólalegan mat eða vetrarmat; hér í miðbæ Reykjavíkur var allavega ekkert sérlega vetrarlegt eða napurt og þótt vissulega sé búið að jólaskreyta Laugaveginn finnst mér einfaldlega of snemmt fyrir jólastemmingu (en kannski fer ég að baka á morgun, það gæti breytt einhverju). Og heill mánuður til jóla.

En ég átti bleikjuflak í ísskápnum og ákvað að nota það í hádeginu. Var samt ekkert sérlega svöng svo ég ákvað að hafa bara salat með bleikjunni, engar kartöflur eða annað eldað grænmeti. Nema eitt chili, en meira um það á eftir.

Bleikjuflakið var eitthvað um 200 grömm. Ég þerraði það með eldhúspappír og kryddaði roðhliðina með pipar, salti og svolitlum rifnum límónuberki og hitaði svona eina matskeið af olíu (jarðhnetuolíu, en það skiptir svosem ekki máli hvaða olía er notuð) á pönnu.

Ég setti flakið á pönnuna og kryddaði hina hliðina á sama hátt og roðið en bætti við dálítilli rifinni engiferrót.

Ég átti nokkur stór, græn, mild chili-aldin og tók eitt þeirra og skar það í sneiðar á ská en lét fræin ekki fylgja með. Setti chili-sneiðarnar svo á pönnuna við hliðin á bleikjunni og steikti þetta við meðalhita í svona fjórar mínútur.

Það er passlegt að snúa flakinu þegar aðeins miðjan er glær og hrá en jaðrarnir gegnsteiktir. Ég hækkaði hitann svolítið, sneri flakinu með spaða og steikti það í 1-2 mínútur á hinni hliðinni.

Útbjó svo salat og setti á disk, setti flakið á það og chili-hringi og límónubáta ofan á.

Það er ekki verra að chili-hringirnir séu vel brúnir (karamelliseraðir). Ef ég hefði átt vorlauk hefði ég líklega steikt hann með. En annars var þetta bara alveg ágætt og passlegur hádegismatur. En ekkert verulega jólalegur miðað við gærkvöldið …

One comment

  1. Ég elska matarstatusana þína eins og bókin mína (eftir þig) þu ert náttúrusnillingur ,elsk’edda alveg 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s