Fundið fiðurfé

Stundum tek ég til í frystiskápnum, sem er eiginlega alltaf frekar fullur, og þá ekki síst í þeim tilgangi að finna eitt og annað sem ég keypti af því að ég rakst á það eða það var á tilboði eða eitthvað og ég var svo búin að gleyma.

Sumt af því sem ég finn er á frekar óvissum aldri, sumt á mjög óvissum, en núna er ég allavega viss um að það er ekkert í skápnum frá því á síðustu öld … Ég tek ,,síðasta söludag“ á frystivöru ekki mjög alvarlega og allt hefur þetta nú verið vel ætt þegar það er matreitt og engum orðið meint af.

Í þessari tiltekt fann ég meðal annars pakka með holdahænulærum sem ég hafði einhverntíma keypt af því að hann var svo ódýr – eitt og hálft kíló eða svo og hafði kostað eitthvað 300 krónur. (Hann var samt örugglega ekki meira en ársgamall, það get ég svarið.) Og af því að hann var að taka pláss í frystinum sem ég þurfti að nota, þá ákvað ég að taka hann og matreiða úr honum.

Eina rétta meðferðin á svona hænsnum er að látau þau malla lengi og nota í súpu eða pottrétt og þau eru fín í það. Þurfa langa suðu og upplagt að sjóða þau á sunnudegi og gera úr þeim súpu á mánudegi.

Þetta var stærðarinnar stykki eins og sjá má. Mér sýndist reyndar fyrst að þetta væru tvö svona hlussustór læri en þegar þau fóru að losna í sundur (ég setti þau hálffrosin í pottinn) kom upp úr dúrnum að þau voru þrjú og ekki alveg eins stór og ég hélt. Ég hellti svo yfir þau köldu vatni svo flaut vel yfir og hitaði rólega að suðu.

Í svona súpu – eða soð – er upplagt að nota ýmislegt grænmeti og fleira sem er farið að láta á sjá án þess að vera beinlínis farið að skemmast. Ég fann þrjár gulrætur, eina nípu, hálfuppþornaða papriku, tvö epli sem voru farni að skorpna svolítið, lauk og tvær eða þrjár hálfslappar rósmaríngreinar. Setti þetta allt í pottinn með hænsnakjötinu.

Það kemur kannski á óvart að sjá epli þarna en ég nota stundum epli í soð, fer svolítið eftir því hvers konar súpu ég ætla að gera. Þau gefa sætt og gott bragð.

Svo bætti ég við kryddi: kóríanderfræi, þurrkuðu óreganói, þurrkuðu timjani, pipar og salti.

Lét hænsnalærin malla í rólegheitum í tvo og hálfan til þrjá tíma, eða þar til auðvelt var að losa kjötið af beinunum.

Þá tók ég lærin þrjú upp úr. Einu þeirra fékk Labradorinn Bangsi, sem hefur mikla matarást á mér, að gæða sér á en hin tvö lét ég kólna og setti svo í ísskáp og geymdi til næsta dags. Soðið lét ég bara standa í pottinum.

Daginn eftir síaði ég soðið (hefði fleytt fitu ofan af ef hún hefði verið mikil en svo var nú ekki) og setti það í pott og hitaði. Tók haminn af hænsnalærunum og fleygði honum (þar sem Bangsi var ekki á staðnum) og tók kjötið svo af beinunum, skar það í bita og setti út í pottinn. Bætti við einni dós af kjúklingabaunum (mega auðvitað vera einhverjar aðrar baunir) , einum eða tveimur söxuðum vorlaukum (má sleppa) og tveimur teskeiðum eða svo af paprikudufti og lét þetta malla í svona tíu mínútur. Þá smakkaði ég súpuna, bætti við pipar og salti og lét malla aðeins lengur. Stráði svo saxaðri steinselju yfir upp á punt og bar súpuna fram.

Þetta er matarmikil og kraftmikil vetrarsúpa sem hlýjar manni vel.

Og er bara alveg ágæt á bragðið. Hænsnakjötið vel meyrt og ekki þurrt.

Það má líka alveg eins þykkja súpuna með sósujafnara eða hveitijafningi og bera þetta fram sem pottrétt, til dæmis með soðnum hrísgrjónum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s