Þegar kona kemur gegnköld heim

Ég var að deyja úr kulda þegar ég kom heim áðan, hafði ekki farið nógu vel klædd í vinnuna í morgun og þurfti svo að erinda eitt og annað á heimleiðinni. Og það var fjári napurt úti í dag svo það var hrollur í mér og mig vantaði eitthvað til að ná honum úr.

Maturinn sem ég hafði planað var ekkert sérlega vel til þess hlutverks fallinn og ég hugleiddi að láta bara góðan kakóbolla duga en svo mundi ég að það var til smávegis rauðvín. Og litlar appelsínur – eða reyndar eru þetta líklega frekar stórar mandarínur. Og kanelstengur og negulnaglar og kardimommur (eða ég fann þær reyndar ekki þegar á reyndi). Og þetta fannst mér beinlínis kalla á glühwein. Ekki glögg, nei. Glühwein.

Ég mældi vínið sem til var (afgangur af suðurfrönsku kassavíni, alveg drykkjarhæfu en ekkert sérstöku – en það þarf nú heldur ekki að vera það). Þetta voru sléttir 200 ml, sem passar akkúrat í glas af glühwein.

Það er til milljón og ein uppskrift að glühwein en mér þykir þessi ágæt.

Fyrir þetta magn af rauðvíni notaði ég eina stóra mandarínu, 1/2 kanilstöng, 1 negulnagla (og hefði notað 1 kardimommu ef ég hefði fundið hana) og 2-3 tsk af hrásykri. Sykurmagnið fer annars eftir smekk; sumir segja að því lélegra sem vínið sé, þeim mun meiri sykur eigi að nota. En engar möndlur eða rúsínur eða neitt slíkt.

Ég skar helminginn af mandarínunni í þunnar sneiðar og kreisti safann úr hinum helmingnum í pott (ef þetta eru ekki mjög safaríkar mandarínur má bætai við svolitlum appelsínusafa). Setti rauðvín, mandarínusneiðar, kanelstöng, negulnagla og sykur í pottinn og hitaði rólega en ekki alveg upp að suðu. Lét standa við mjög vægan hita (vel undir suðumarki) í svona fimm mínútur. Ef ég hefði haft nógan tíma hefði ég tekið pottinn af hitanum og látið hann standa í svona klukkutíma og hitað svo vínið aftur upp. En mér var kalt svo ég var ekkert að standa í því.

Og svo er bara að ausa snarpheitu víninu í glas eða krús og njóta.

Mér er ekki lengur kalt.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s