Sparnaður og bragð

Ég skrifaði bók rétt eftir hrun sem gekk að töluverðu leyti út á sparnað og nýtni, að nota það sem maður á til í eldhúsinu í staðinn fyrir að kaupa endilega allt, að nýta afganga og nota allt þetta sem maður á í krukkum í ísskápnum og pökkum í skápunum. Þannig er mín heimiliseldamennska jú meira og minna. Vinnuheitið á þessari bók var Notað og nýtt en hún fékk svo nafnið Maturinn hennar Nönnu (enda var þetta heimilsmaturinn minn). Hún er búin að vera uppseld um tíma en verður vonandi endurprentuð innan tíðar. Sparnaður og nýtni var þó þrátt fyrir allt ekki númer eitt, heldur að þetta væri allt saman sem best á bragðið án mikils tilkostnaðar.

Ég sá bók í búð áðan sem mig minnir að heiti Þú ert snillingur (bókin alltsvo, ekki búðin) og er einhverskonar sparnaðar- og húsráðabók og gefin út í samkrulli Leiðbeiningastöðvar heimilanna, Kvenfélagasambandsins og einhverra fleiri og með styrkjum (og auglýsingum) frá Bónus og Hagkaupum og fleirum.

Ábyggilega hin þarfasta bók en ég fletti henni aðeins og fannst ráðin satt að segja misgóð. Og þegar ég kom þar að sem fullyrt var að það væri langbest að geyma brauð í ísskáp lokaði ég bókinni og lagði hana frá mér með þeirri hugsun að það væri nokkuð öruggt að sá/sú sem skrifaði þetta væri ekki mikið fyrir brauð. Jú, vissulega eru minni líkur á að brauð mygli í ísskáp en ef það er á eldhúsbekknum – en það þornar og verður ,,gamalt“ um það bil þrefalt hraðar við ísskápshita, sem er afar óhentugur fyrir bragðgæði brauðs. Eins og lesa má um t.d. hér.

Annars er ýmislegt sem fólk geymir gjarna í ísskáp sem á helst eða alls ekki að vera þar – tómatar eru gott dæmi og líka bananar og fleiri hitabeltisávextir, svo sem sítrónur og aðrir sítrusávextir, en líka laukur, kartöflur, olía (nema hnetuolíur), hvítlaukur og basilíka.

En þetta er alltsvo greinilega bók um sparnað fremur en gott bragð og ekkert um það að segja svosem. Þetta getur samt alveg farið saman og hér kemur matur sem er ódýr og þægilegur en góður – eða það finnst mér allavega, enda geri ég oft eitthvað svipað. Sterkkryddaður og ágætur þegar kalt er í veðri eins og núna. Tilvalið að elda fyrir einn eða tvo en líka fyrir fjölda manns.

Kjúklingavængir og kjúklingakjuðar (efri hluti vængs) er ódýr matur og frekar fljóteldaður. Ég keypti bakka af kjúklingakjuðum í Bónus, hann kostaði minnir mig 293 krónur og dugði mér tvisvar í matinn.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 210°C og svo blandaði ég saman hveiti og kryddi – svona 4 msk af hveiti, 1 tsk af paprikudufti, 1 tsk af kummini, dálitlum pipar og salti og svo cayenne-pipar á hnífsoddi.

Ég hellti svolítilli mjólk í skál og velti kjuðunum upp úr henni og svo upp úr hveitiblöndunni og raðaði þeim í eldfast fat. Þetta var húðað fat svo ég setti þá bara beint í það en ef ég hefði verið með öðruvísi fat eða bara bökunarplötu hefði ég líklega breitt bökunarpappírsörk undir.

Þetta voru nú ekki nema sex eða sjö kjuðar. – Ég vil hafa góða kryddhúð á þeim og þess vegna bleytti ég þá í mjólkinni svo hveitiblandan loddi betur við þá en ef maður vill minna hveiti má sleppa því og minnka hveitið en e.t.v halda kryddmagninu óbreyttu. Eða jafnvel sleppa hveitinu alveg, bara strá kryddblöndu á kjuðana/vængina. En mér þykja þeir betri svona.

Svo tók ég nokkrar kartöflur (Gullauga), skar þær í frekar þunna báta (8-12 báta hverja kartöflu, eftir stærð) og velti þeim upp úr svolítilli olíu, kryddaðri með pipar, salti og þurrkaðri basilíku. Eða einhverju öðru kryddi, eftir því hvað maður á og vill nota.

Svo dreifði ég kartöflunum í fatið með kjúklingakjuðunum, setti þetta í ofninn og steikti í svona 15 mínútur.

Þá tók ég fatið út, sneri kjuðunum, hrærði aðeins í kartöflunum og steikti áfram í 12-15 mínútur.

Setti kjuðana og kartöflubátana í skál með salatblöðum og bar fram nokkra límónubáta með.

Köld jógúrtsósa er góð með, sérstaklega ef maður hefur kryddblönduna dálítið sterka. Í þessari er hrein jógúrt, svolítill gráðaostur, timjan, pipar og salt.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s