Royal í sparibúningi

Sko, nú er ég heimsþekkt matargúrú (eða allavega hef ég oftar en einu sinni frétt af fólki í útlöndum sem veit hver ég er og það dugir manni til að vera heimsþekktur á Íslandi, er það ekki?) og hef gefið út fullt af matreiðslubókum með mörg þúsund uppskriftum og svona.Og ég bý stundum til alveg ágætis mat og þar á meðal eftirrétti. Yfirleitt frekar óholla, þó misjafnlega, en oftar en ekki nokkuð góða á bragðið.

En þegar barnabörnin mín tvö koma í mat og fá tillögurétt um hvað eigi að vera í eftirmatinn, skyldu þau þá koma með tillögu um einhverja af öllum þessum svakagóðu eftirréttum sem ég get framleitt næstum eins og af færibandi?

Óekkí. Ef þau mega velja er eins víst að þau panti Royal-búðing. En geta þó ekki verið sammála um tegundina einu sinni, annað kýs frekar súkkulaði, hitt vanillu.

Nú er ég í fyrsta lagi frekar góð (les: eftirlát) amma. Í öðru lagi á ég einmitt mjög gjarna þessar tvær tegundir af Royal-búðingi í eldhússkápnum því ég nota hann til ýmissa hluta. Í þriðja lagi finnst mér Royal-búðingur bara ágætur, að minnsta kosti þegar búið er að poppa hann aðeins upp (reyndar bara þessar tvær bragðtegundir). Í fjórða lagi er ákveðin nostalgía sem tengist honum. Og í fimmta lagi er ýmislegt til óhollara. Svo að stundum ber ég einmitt fram Royal-búðing til að gleðja barnabörnin (og mig).

Royal-búðingar hafa líklega verið fluttir inn allt frá 1941 en farið var að framleiða þá hérlendis um miðjan sjötta áratuginn – þessi auglýsing er frá 1956:

Royal-búðingarnir slógu rækilega í gegn og voru líklega einn algengasti sunnudagsábætirinn hjá minni kynslóð og lengur. – Það er dálítið erfitt að finna út úr því hvaða bragðtegundir voru í boði framan af, þó er alltaf talað um súkkulaði, vanillu og karamellu og einnig er nefndur hindberjabúðingur, jarðarberjabúðingur og bananabúðingur en einhverjar þeirra tegunda kunna þó að hafa verið innfluttar því innfluttur Royal-búðingur í öðruvísi umbúðum var einnig á boðstólum. Um eða upp úr 1960 er jarðarberjabúðingurinn allavega orðinn fastur í sessi (og hefur kannski verið það alla tíð) og fyrir jólin 1964 var kynnt ný bragðtegund: Sítrónubúðingur. Þar með voru þessar fimm bragðtegundir sem allir þekktja komnar fram.

Eins og ég sagði áðan nota ég Royal-búðing, einkum vanillubúðing, til ýmissa hluta, hræri stundum 1-2 matskeiðum saman við rjóma sem á að fara á tertu til að fá hann stífari, eða saman við krem sem er of lint, hræri svolitlu búðingsdufti saman við t.d. hreina jógúrt til að borða í morgunmatinn (og þeir sem til sjá halda að maður sé með eitthvert próteinduft eða hollustu), blanda því saman við bökufyllingar  og ýmislegt fleira.

En ég bjó semsagt til búðing handa barnabörnunum þegar þau komu í mat um helgina. Óumbeðið meiraðsegja.

Það þýðir samt ekki að ég hafi bara þeytt saman búðing í skál og skellt á borðið. Neinei. Ég get aldrei séð neitt í friði, ekki einu sinni blásaklausan Royal búðing.

Ég náði í einn pakka af súkkulaðibúðingi og einn af vanillubúðingi, tók svo hálfan lítra af rjóma og 300 ml af mjólk, fann til tvær skálar til að þeyta búðinginn og mældi 250 ml af rjóma og 150 ml af mjólk og hellti í hvora skál um sig. Svo útbjó ég búðingsskálina, sjá hér að neðan:

Það er best að nota skál með flötum botni ef maður ætlar að gera tvílitan búðing, samt ekkert bráðnauðsynlegt. Ég hef stundum notað pappaspjald en fann ekkert hentugt núna svo ég tók bara álpappírsbút, braut hann saman tvisvar eða þrisvar og kom honum fyrir í skálinni þannig að hann skipti henni í tvennt.

Royal-búðingur er fljótur að stífna en þegar maður gerir hann a) með rjómablandi og b) notar 20% minna magn af vökva en stendur í leiðbeiningunum, þá er hann mjög fljótur að stífna. Þess vegna opnaði ég báða búðingspakkana til að hafa þá tilbúna, hellti vanillubúðingsduftinu út í aðra skálina, þeytti með handþeytara í svona hálfa mínútur, hellti búðingnum í skálina öðru megin við skilrúmið, þeytti svo súkkulaðibúðinginn (betra að byrja á vanillubúðingnum til að þurfa ekki að skola þeytarana) og hellti honum í hinn helming skálarinnar.

Ég sléttaði yfirborðið aðeins með sleikju og fjarlægði svo skilrúmið varlega. Svo tók ég prjón (má nota hnífsodd) og hrærði í búðingunum á skilunum til að blanda þeim aðeins saman (hrærði í litla hringi).

Svo reif ég dálítið suðusúkkulaði yfir og voilá! spari-Royal. En ef hann hefði átt að vera enn meira spari hefði ég kannski brytjað súkkulaði og blandað saman við áður en ég hellti búðingnum í skálina – dökku súkkulaði eða mjólkursúkkulaði saman við vanillubúðinginn, hvítu súkkulaði saman við súkkulaðibúðinginn.

Reyndar er liklega alveg hægt að komast af án þess að nota skilrúm á milli því búðingurinn er svo rosalega fljótur að stífna. En ég geri stundum eitthvað svipað við búðing sem ég geri frá grunni og þá eru einhverjar svona tilfæringar nauðsynlegar. Ef maður vill hafa búðinginn tvílitan alltsvo.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s