Ég heiti Nanna og ég borða glúten

Ég er í glútenvinafélaginu og mér þykir brauð gott, einkum og sér í lagi gerbrauð. Stundum finnst mér að slík játning sé við það að komast í sama flokk og segja að maður reyki og hafi ekki hugsað sér að hætta því – af einhverri undarlegri ástæðu hefur brauð hjá sumum fengið svo neikvæða ímynd að það liggur við að maður biðjist afsökunar fyrir það að bjóða upp á (eða borða) brauð, ég tala nú ekki um venjulegt hveitibrauð. Jafnvel þótt það sé heimabakað og alveg einstaklega gott. Eins og mér finnst það æðislegt hvað er hægt að gera góðan mat eingöngu úr hveiti, geri, vatni og salti, það eru eiginlega galdrar.

Sumir halda að brauð sé svo rosalega fitandi. Það passar nú ekkert sérlega vel við þær staðreyndir að Íslendingar eru feitastir Norðurlandabúa og jafnframt þeir sem borða langminnst brauð … Ókei, ókei, ég er með fullt af aðalkílóum sem ég ætti nú líklega ekki að vera með svona heilsunnar vegna þótt ég kunni ekkert illa við þau – en þau koma ekki af brauðáti, það get ég fullyrt. Ég borða sjaldan annað brauð en það sem ég baka sjálf og það koma stundum löng tímabil þar sem ég er ekki í bökunarstuði og borða því nánast ekkert brauð. Það renna nú ekkert af mér kílóin á meðan svo ég held mér sé alveg óhætt að kenna einhverju öðru en brauðmetinu um. Til dæmis bara plein græðgi …

Hvað sem því líður, þá bakaði ég tvenns konar brauð í gær en þó bara úr einu deigi. Þetta var sama grunndeigið og ég hef nefnt hér nokkrum sinnum áður og er einfaldlega bara vatn, ger, hveiti og salt, en ég hafði það kannski örlítið minna blautt en venjulega – þó ekki svo að hægt væri að hnoða það með höndunum – og setti það ekkert í ísskápinn (en það var bara vegna þess að ég þurfti að nota það allt samdægurs). Helminginn af deiginu gerði ég ekkert við nema baka það því mig vantaði brauð til að hafa með kvöldmatnum en hinn helminginn bragðbætti ég og það er meira svona brauð til að narta í.

Allavega, ég byrjaði á að velgja svona 700 ml af vatni, setja í hrærivélarskálina og strá yfir 1 msk af geri. Lét þetta standa í nokkrar mínútur, þar til gerið var farið að freyða. Þá bætti ég hveitinu út í, þó ekki öllu í einu. Ég mældi það ekki en þetta hefur verið einhvers staðar nálægt einu kílói, ég bara hrærði því saman við þar til mér fannst deigið hæfilega þykkt. Setti 1 msk af salti um leið og fyrsta hveitiskammtinn.

Það er ekkert nauðsynlegt að hnoða þetta deig en mér finnst það samt betra, ekki síst þegar baka á úr því samdægurs, svo ég lét hrærivélina í rólegheitum þar til deigið var orðið vel teygjanlegt. Glútenið, sjáiði til.

Svo breiddi ég viskastykki yfir skálina og lét hana standa á eldhúsbekknum (alls ekki á hlýjasta staðnum, reyndar frekar nálægt glugga), fór svo út og var í burtu í þrjá til þrjá og hálfan tíma. Þegar ég kom aftur hafði deigið lyft sér nærri alveg upp á barma skálarinnar og loftið var aðeins farið að síga úr því. Sem gerir nákvæmlega ekkert til.

Ég sló deigið niður (sem þýðir að ég rak krepptan hnefann ofan í skálina miðja næstum ofan á botn) og skipti því svo í tvo jafna hluta. Annan setti ég í aðra skál og lét standa áfram nokkra stund, hinn helmingurinn var áfram í hrærivélarskálinni.

Svo tók ég til svona 125 g af gráfíkjum (mjúkar eru betri en harðþurrkaðar), 75 g af valhnetukjörnum, eina rósmaríngrein (það má líka sleppa henni, brauðið er gott þótt það séu bara hnetur og gráfíkjur í því) og nokkur piparkorn.

Ég skar gráfíkjurnar í bita, grófmuldi valhneturnar, saxaði rósmarínið smátt og steytti piparkornin, setti þetta allt út í skálina með helmingnum af deiginu og hnoðaði smástund.  Mótaði deigið svo í lengju og lagði hana í fremur stórt jólakökuform (30 cm langt) – reyndi að hafa það þannig að sem minnst af gráfíkjum og hnetum sæist á yfirborðinu þar sem því hættir við að brenna. Þetta var húðað form en að öðrum kosti hefði ég smurt formið vel eða klætt það innan með bökunarpappír.

Ég lét deigið lyfta sér í örugglega svona 35-40 mínútur og hitaði á meðan ofninn í 210°C. Penslaði brauðið svo með köldu vatni og setti stálbakka með sjóðandi vatni á botninn á ofninum til að fá gufu í hann. Ég bakaði brauðið svo á neðstu rim í um 45 mínútur.

Um leið og gráfíkjubrauðið fór í ofninn tók ég hinn helminginn af deiginu, mótaði hann í kúlu (jæja, nokkurn veginn kúlu), setti hana á pítsuspaða sem ég hafði stráð grófu maísmjöli (polentumjöli) á og lét hana lyfta sér á meðan gráfíkjubrauðið bakaðist. Breiddi ekkert yfir það. Ég setti líka leirplattann sem ég nota gjarna við brauðbakstur í ofninn um leið og gráfíkjubrauðið og lét hann hitna með.

Þegar ég tók gráfíkubrauðið úr ofninum hækkaði ég hitann í 225°C, tók beittan hníf, bleytti hann í vatni og skar djúpa skurði í kross í deigið. Penslaði brauðið svo með vatni, renndi því yfir á heitan leirdiskinn (auðvitað má líka nota bökunarplötu) og bakaði það í um hálftíma.

Hér er brauðið nýkomið úr ofninum.

Og hér er gráfíkju- og valhnetubrauðið. Það var sérlega gott, bæði með smjöri og bara eintómt. Jafnvel örlítið jólalegt.

Ég fékk mér báðar tegundirnar með morgunkaffinu. Hafði geitaost og tómat-appelsínumarmilaði með krossbrauðinu.

Namm. Og ekki orð um það meir.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s