Ég er að reyna að rýma aðeins til í frystinum þessa dagana og á meðal þess sem ég átti þar var geitakjöt frá Jóhönnu á Háafelli. (Uppskriftin nýtist þó alveg eins fyrir lambakjöt, en geitakjötið er bragðmeira.)
Geitakjöt er sagt vera það kjöt sem borðað er víðast í heiminum, í öllum heimsálfum og alls konar umhverfi, frá eyðimörkum til fjallahéraða og frumskóga og alls staðar þar á milli. Það er hins vegar svo sannarlega ekki algengasta kjötið hérlendis og getur verið erfitt að nálgast það ef mann vantar; fyrir svona 10-15 árum var af og til hægt að kaupa það í Nóatúni og þá eldaði ég það stundum en hef ekki átt það til árum saman. En ég rakst á þetta í Frú Laugu í sumar og hef átt það til síðan. Og nú var kominn tími til að nota það.
Ég eldaði kjötið í tagínu og þetta var svolítið marokkóskt en þó ekki kryddað að marokkóskum hætti og það voru engir þurrkaðir ávextir með eins og oft (en alls ekki alltaf) er í marokkóskum réttum af þessu tagi. Og ekkert kúskús, heldur grískt salat. Kannski má segia að þetta hafi verið grísk-marokkósk eldamennska. Eða bara Miðjarðarhafseldamennska. Geitakjöt er vinsælt víðast hvar við Miðjarðarhafið.
Ég lét kjötið þiðna alveg og setti það svo í maríneringu: ólífuolíu, timjan, hvítlauk, pipar og salt, velti því upp úr blöndunni og skar niður eina sítrónu og dreifði yfir. Lét þetta liggja svona í fáeina klukkutíma og sneri kjötinu einu sinni eða tvisvar.
Ég tók svo marokkósku tagínuna mína (en það má líka nota víðan, þykkbotna pott með loki), hitaði hana og brúnaði geitakjötssneiðarnar á báðum hliðum. Gerði það í tveimur skömmtum því þetta var það mikið kjöt. Notaði bara olíuna sem kjötið var marínerað í.
Svo skar ég niður einn stóran rauðlauk (eða tvo minni), dreifði honum á botninn á tagínunni og lét krauma í fáeinar mínútur.
Ég raðaði svo kjötsneiðunum ofan á og dreifði því sem eftir var í maríneringarfatinu – hvítlauk, timjangreinum og sítrónusneiðum – yfir.
Skar svo niður einn kúrbít og nokkra tómata og dreifði þeim yfir allt saman, kryddaði með pipar og salti …
… og setti svo lokið á tagínuna og lét krauma á lægsta mögulega hita í svona eina og hálfa klukkustund.
Það á ekki að þurfa að hræra neitt í þessu eða hreyfa við því. Uppgufun er mjög lítil úr tagínu (gufan stígur upp í toppinn á keilunni, þéttist þar og rennur aftur niður í leirskálina). Það er hins vegar ágætt að gá undir lokið einu sinni eða tvisvar seint á eldunartímanum og bæta þá við örlitlum vökva ef þörf krefur.
Oftast geri ég kúskús til að hafa með tagínuréttum en í þetta skipti lét ég nægja að hafa salat og svo nóg af nýbökuðu brauði. Salatið var romaine-salat, tómatar, ólífur, ólífuolía, sítrónusafi, pipar og salt og svo muldi ég vænan slatt af fetaosti (kubbi) og dreifði yfir.
Ég setti svo vænt steinseljuknippi ofan á geitakjötstagínuna áður en ég bar hana fram fyrir fjölskylduna. Þetta var afbragðsgott kjöt og ég vildi endilega eiga betri aðgang að geitakjöti. Mæli með að þið styðjið við bakið á Jóhönnu í Háafelli og öðrum þeim sem eru að berjast við að halda lífinu í íslensku landnámsgeitinni.