Konuvit og konustrit

Ég veit ekki um ykkur en mér finnst maríneruð síld góð. En reyndar fyrst og fremst sú sem ég geri sjálf. Þetta er ekki vegna þess að ég sé svo fjarskalega vön henni frá bernsku. Reyndar var oft keypt síld heima en það var úrgangur og rusl sem ætlað var til að gefa rollunum, aðallega beingarðar, hausar og eitthvað slíkt – en stundum þvældist eitthvað með sem talið var nýtilegt, helst kryddsíldarflök og eitthvað slíkt, kannski hálf flök eða illa útlítandi, og þá var það stundum hirt handa mannfólkinu. Ég man þó ekki hvort þetta fór á kvöldverðarborðið eða hvort maður borðaði eþtta bara beint upp úr tunnunni með afa og Stebba bróður hans. Það var eitt og annað sem þeir átu en aðrir eiginlega ekki sem ég var að narta í. Súr lungu og fleira góðgæti …

Það var alltaf verið að reyna að kenna Íslendingum að nýta sér síld til matar hér áður fyrr með frekar slökum árangri.  Það eru uppskriftir að síldarréttum í flestum gömlum íslenskum matreiðslubókum og Helga Sigurðardóttir og fleiri voru alltaf að reyna að hvetja íslenskar húsmæður til að nota síldina meira. En það bar lítinn árangur.

Fyrsta íslenska matreiðslubókin um afmarkað efni, Ódýr fæða, sem kom út árið 1916, er um matreiðslu á síld og kræklingi og var gefin út af Fiskifélagi Íslands í því skyni að auka neyslu á þessum fæðutegundum, enda var þetta á stríðsárunum og mikil dýrtíð og vöruskortur ríkjandi. Matthías Ólafsson ráðunautur og alþingismaður þýddi kverið úr norsku og er þetta jafnframt fyrsta þýdda matreiðslubókin á íslensku (að einu handriti frá fimmtándu öld undanskildu) þótt aðrar gamlar íslenskar matreiðslubækur séu auðvitað meira og minna þýddar og staðfærðar úr  erlendum bókum.

Ekki taldi þó kvennablaðið 19. júní hafa vel til tekist: ,, … fyrsta matreiðslubók er karlmaður hefir ritað, er vér minnumst að hafa séð … á mörgu má sjá að konuvit eða konustrit hefir eigi að unnið. Höfum blaðað í gegn um bókina, lokað henni og verður aftur litið á titilblaðið. Þar stendur ,,Ódýr fæða“. Titillinn gleymdist við lesturinn; því þar flóði allt í smjöri, eggjum og rjóma, já meira að segja Madeira og Cayennepipar, auk ýmis konar krydds og grænmetis, er eigi vex hér á landi og fæstir kunna nöfn á. … Svo ódýr verður enginn sá matur, er samsettur er úr þessum efnum, jafnvel þó fáeinar síldir séu settar með ,,svo sem til uppfyllingar“. En hvað líður svo síldinni? Hún hefir eigi komið hér á markaðinn, þau árin sem nóg hefir veiðs af henni, svo enginn býst við henni í ár. Fiskifélag Íslands, sem gefið hefir út bók þessa, hefði fyrst átt að stuðla að því að almenningur gæti fengið keypta síld til matar, svo gat það gefið bókina út, að gamni sínu, en helst með öðru nafni.“

Það hefur nú satt að segja ekki alltaf verið auðvelt að nálgast síld hér til heimaverkunar. Ég hef keypt saltsíldarflök ef ég hef fengið þau, til hægindaauka, því ég er enginn snillingur í að flaka síld fremur en annan fisk. En ég geri það ef ég þarf og þegar ég fór í búð fyrir síðustu helgi fékk ég bara óflakaða síld.

Ég var með þrjár síldar og byrjaði á að leggja þær á bretti og skera með beittum hníf í hrygginn og meðfram beingarðinum á efri hliðinni, eins nálægt honum og ég gat, aftan frá og fram á hnakka.

Stakk svo hnífnum gegnum þveran fiskinn aftan við miðju og skar aftur að sporði – eins nálægt beingarðinum og ég gat (fólk sem kann að flaka síld má alveg gera athugasemdir, ég hef alltaf gert þetta svona).

Svo lyfti ég efra flakinu og skar það frá, reyndi að láta eins lítið af beinum fylgja með og ég gat en það sem eftir sat skar ég eða tíndi frá á eftir.

Sneri svo síldinni og skar hitt flakið af beinunum á sama hátt og snyrti svo flökin.

Þarna var ég komin með sex flök. Það þarf að afvatna saltsíldina og ég skolaði flökin og lagði þau í kalt vatn í svona hálfan sólarhring – tíminn fer annars eftir því hvað maður vill hafa síldina salta.

Kryddlögurinn þarf að vera kaldur þegar honum er hellt yfir síldina og þess vegna þarf að sjóða hann nokkrum klukkutímum áður. Ég notaði 1/2 l af ediki (borðedik er algengast en ég notaði eplaedik), 250 g af sykri og 1 msk af piparblöndu – mér finnst Dronningens peberblandning, sem fæst í Tiger og inniheldur svartan og hvítan pipar, kóríanderfræ, sinnepsfræ og allrahandaber, henta ágætlega á síld en það mætti líka nota ýmislegt annað, t.d. fimmlita piparblöndu (regnbogapipar). Ég setti þetta allt í pott með 150 ml af vatni, hitaði að suðu og lét sjóða þar til sykurinn var vel uppleystur og lét löginn svo kólna alveg.

Ég tók svo síldarflökin úr vatninu og lét renna vel af þeim.s

Svo skar ég síldarflökin í svona 1 cm sneiðar þvert yfir. – Það má auðvitað líka hafa bitana stærri eða flökin jafnvel heil.

Ég skar svo niður vænan rauðlauk (hálfur hefði líklega dugað, eftir á að hyggja, eða bara einn venjulegur laukur) og tíndi til nokkrar timjangreinar.

Svo tók ég krukku sem ég var búin að láta standa nokkra stund í sjóðandi vatni og raðaði í hana síld, lauk og kryddjurtum í lög. Það er best að velja krukku af hæfilegri stærð, svo að síldin og lögurinn fylli hana alveg.

Svo hellti ég leginum yfir, lokaði krukkunni og setti hana í ísskápinn. Hún þarf að standa í minnst tvo sólarhringa en ég lét hana standa í fimn.

Og svo fékk ég mér rúgbrauð með síld í kvöldmatinn. Hún var mun betri en sú sem maður var að stela frá rollunum hér um árið.

4 comments

 1. Dætur mínar glöddu gamla frænku sína í fyrra með að gæða sér á síldinni hennar. Óvenjulegt að krakkar vilji marineraða síld, víst.

 2. Lagði inn síld og notaði þessa uppskrift nema hvað mér fannst ég þurfa að nota lauk og gerði það. Þetta lukkaðist glimrandi. Nú fór ég aftur til fisksalans, keypti meiri saltsíld og bætti við kryddsíld. En nú er ég að vandræðast með hvernig ég legg inn kryddsíld. Ég finn lítið af uppskriftum á netinu og í matreiðslubókum. Mig langar því að spyrja þig um hvort það gangi að nota þennan lög líka á kryddsíldina?

  • Já, það er auðvitað sama hvort maður notar rauðlauk eða venjulegan lauk, ég gleymdi að taka það fram (mér finnst rauðlaukurinn bara fallegri …).

   Kryddsíldina er náttúrlega í raun búið að marínera svo það má alveg hafa löginn mildari, kannski 200 ml edik, 300 ml vatn og 250 g sykur, og svo laukur, krydd og kryddjurtir eftir því sem manni dettur í hug.

   Það ætti ekki að þurfa að afvatna kryddsíldarflök nema kannski 2-3 kllst. (ef þú ert með heila síld, þá kannski 6-8 klst.) og þau þurfa ekki að liggja í kryddleginum nema sólarhring eða svo (en mega auðvitað vera mun lengur).

 3. Sæl Nanna og bestu þakkir fyrir þessi svör. Ég sé á myndunum að þú notaðir lauk en einhvern veginn var ég alveg lokuð fyrir því og fannst það vanta. Rauðlaukurinn skreytir meira og mér finnst hann ekki síður góður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s