Herbó-svið

Ég ætlaði nú ekkert að setja þessa uppskrift hér inn – en í gær var ég búin að fá yfir mig nóg af herbalife-auglýsingunum á Facebook þar sem einhverjir póstuðu inn myndum af ,,heilsunammi“ og báðu fólk um að líka við og deila og svo kom ,,ég set uppskriftina inn á morgun“ til að tryggja að fólk færi inn á síðuna hvað eftir annað til að gá hvort uppskriftin væri komin og sæi örugglega allt herbalife-dótið sem þar var auglýst. Og fengu mörgþúsund og fimmtíu ókeypis dreifingar á auglýsingunni sinni fyrir vikið.

Svo að ég setti inn mynd af kvöldmatnum mínum – eða öllu heldur, beinunum sem eftir voru þegar ég var búin að hakka hann í mig – og bað fólk um að líka og deila og lofaði að setja inn uppskrift. Þetta var nú bara djók en einhverjir vilja greinilega fá uppskriftina, svo að hér kemur hún – myndafátæk þó því ég ætlaði ekkert að setja hana hér inn og tók þar af leiðandi lítið af myndum.

Mér hafa alltaf þótt svið ágætis matur en núna á seinni árum sýð ég þau sjaldnast, heldur steiki þau í ofni, baka í leirpotti eða grilla á lokuðu útigrilli. Mér þykja þau miklu bragðmeiri og betri þannig. Þetta er líka algengasta meðferðin á sviðum – eða jæja, lamba- og kindahausum – víðast hvar. Íslendingar halda oft að þeir séu einir um að leggja sér hausa af sauðfé til munns – jú, og svo stöku Norðmenn og Færeyingar – en sannleikurinn er auðvitað sá að kindahausar hafa verið borðaðir hvarvetna þar sem sauðfjárrækt hefur verið stunduð. Það voru fleiri nýtnir en Íslendingar – og svo er þetta mikill afbragðsmatur þótt ekki hafi allir smekk fyrir hann og mjög víða var hausinn talinn einn besti bitinn af kindinni og gjarna borinn fyrir þá sem nutu mestrar virðingar.

Þegar ég kom heim í gær hélt ég að ég ætti eitthvað ætilegt í ísskápnum en það var eitthvað minna en mig minnti svo ég leit í frystiskápinn til að athuga hvort ég ætti eitthvað sem hægt væri að setja frosið í ofninn. Það fyrsta sem fyrir mér varð var poki af sviðakjömmum sem ég hafði fengið með slátrunum sem ég keypti í haust. Svo að ég tók einn kjammann og kveikti á ofninum á 175°C.

Svo tók ég lítið, eldfast fat, hellti ögn af ólífuolíu í það, setti smávegis rósmarín og timjan á botninn ásamt tveimur krömdum hvítlauksgeirum, pipar og salti, lagði frosinn kjammann ofan á, bar svolitla ólífuolíu á hann, kreisti sítrónusafa yfir, kryddaði með pipar og salti og lagði tvær rósmaríngreinar ofan á af því að ég átti þær til (en reyndar fannst mér rósmarínið litlu skila í bragði, það má vel sleppa þeim). Breiddi svo álpappírsörk vel yfir mótið og setti það í ofninn.

Myndin er tekin þegar ég tók sviðakjammann út eftir svona einn og hálfan tíma til að gá hvort hann væri nokkuð tilbúinn. Hann var það ekki svo ég hafði hann í hálftíma í viðbót (2 klst. alls) og þá var hann perfekt.

Á meðan sauð ég sæta kartöflu og stappaði hana svo með ögn af ólífuolíu (má líka vera smjör). Kryddaði hana svo með dálitlu kummini, pipar, salti og muldum þurrkuðum basilíkublöðum og bar hana fram með sviðakjammanum, ásamt salati og sítrónubát.

Þegar svið eru matreidd svona verður kjötið (kinnarnar) bragðmeira en ella og tungan líka en mestu munar þó um skinnið, sem ég hugsa að flestum finnist nú girnilegra að sjá á mynd en á soðnum sviðum – og þetta skilar sér í bragðinu líka. En það þarf að breiða vel yfir fatið eða hafa lok, allavega mestallan tímann, annars er hætt við að skinnið þorni og skorpni.

Já, og hér er myndin sem ég setti á Facebook. Eins og sjá má var lítið eftir þegar ég var búin að gæða mér á þessu – nema hnakkaspikið, ég hef aldrei verið mikið fyrir það. Olían í fatinu er bragðmikil og góð út á sviðin ef maður vill.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s