Trönuber voru lítið þekkt fyrir fáum árum en nú kannast flestir við þurrkuð trönuber og fersk trönuber má yfirleitt fá um jólaleytið. Þau geymast líka mjög vel af berjum að vera og eru líka til frosin. Fersk trönuber eru yfirleitt ekki borðuð eins og þau koma fyrir, enda nokkuð súr; þau eru notuð í ýmsa rétti, t.d. soðið rauðkál, og í ýmiss konar sósur og kryddmauk.
Þau eru líka jólaleg og fagurrauð og fátt er jólalegra en þetta fagurrauða chutney, sem gert er úr eplum, rauðlauk og trönuberjum og bragðbætt með engifer og pipar. Það er mjög gott með ostum og kexi en einnig á jólaborðið, t.d. með kalkúna eða svínakjöti, og ef það er búið til með stuttum fyrirvara þarf ekkert að setja það í krukku, þá er það bara látið beint í skál og borið fram. Það getur þó líka geymst mánuðum saman og það er upplagt að setja það í fallegar krukkur og nota til gjafa, til dæmis í lítilli körfu með einum eða tveimur ostum og góðu kexi. Eða bara eitt sér.
Úr þessum skammti ættu að verða 3-4 meðalstórar krukkur.
Ég byrjaði á að taka 600 g af eplum (má nota ýmsar tegundir en ég var með blöndu af Jonagold og Honey Crisp), kjarnhreinsaði þau og skar þau í bita. Svo saxaði ég 350 g af rauðlauk fremur smátt og saxaði líka engiferrót smátt – svona tvær matskeiðar Ég tók svo 1 tsk af piparkornum, setti þau í te-egg (eða í grisju; þetta er strangt tekið ekki nauðsynlegt en annars þarf helst að tína piparkornin úr chutneyinu þegar það er tilbúið). Síðan setti ég epli, rauðlauk, engifer, piparkorn, 350 g af sykri og 300 ml af eplaediki í pott.
Ég var með svona 350 g af trönuberjum og setti þriðjunginn af þeim í pottinn, hrærði og hitaði að suðu.
Ég lét þetta svo malla við vægan hita í hálflokuðum potti þar til mestallur vökvinn var gufaður upp – það gæti tekið 40-50 mínútur. Þá setti ég afganginn af trönuberjunum út í og lét malla í 10 mínútur í viðbót.
Ég setti svo chutneyið strax í heitar krukkur sem ég var búin að sjóða og lokaði þeim vel. Ef á að geyma það lengur en 1-2 vikur er best að setja krukkurnar í pott, eins og ég er búin að gera á myndinni, ásamt svo miklu sjóðandi vatni að rétt fljóti yfir …
…og láta malla í 10 mínútur. Taka svo krukkurnar upp úr (ég notaði gataspaða) og láta þær kólna.
Og svo má skreyta krukkurnar t.d. með borða ef á að gefa þær.
En eins og ég sagði er líka hægt að nota chutneyið innan fárra daga (jafnvel bara eiginlega strax) og sleppa því að setja það í krukku.
*
Trönuberja- og eplachutney
600 g epli (ég notaði blöndu af Jonagold og Honey Crisp)
350 g rauðlaukur
2 msk smátt söxuð engiferrót
1 tsk piparkorn
350 g sykur
300 ml eplaedik
350 g fersk eða frosin trönuber
[…] Ef er afgangur af ferskum trönuberjum eru þau mjög fín í áramótarauðkálið eða til dæmis í chutney eins og þetta hér. […]