Toblerone í hundrað ár

Þegar ég var yngri var Tobleronesúkkulaði eitthvað sjaldfengið sem helst var til þegar einhver hafði farið til útlanda og keypt það í fríhöfninni, enda var það ekki  flutt inn fremur en annað útlenskt sælgæti fyrr en um 1980. Toblerone hafði yfir sér einhvern framandi ljóma og það var eiginlega ekki hægt að fara til útlanda nema kaupa það í flugvélinni eða fríhöfninni. Og svo voru víst einhverjar sjoppur sem áttu það stundum til undir borði og seldu svart á okurprís.

Það sem ég vissi hins vegar ekki var að Toblerone hafði fengist hér – og verið býsna vinsælt – á þriðja áratugnum, alveg þar til tekið var fyrir allan innflutning á erlendu sælgæti upp úr 1930 vegna kreppu og gjaldeyrisskorts. Elsta auglýsing um Tobleronesúkkulaði sem ég hef fundið er frá 1922:

Screen Shot 2015-12-07 at 8.26.21 PM

Það getur samt vel verið að það hafi verið til hér nokkru fyrr. Toblerone var fyrst framleitt árið 1908 og ýmsar tegundir af súkkulaði frá Tobler-verksmiðjunum fengust hér fyrir rúmum hundrað árum, það er vel líklegt að Toblerone hafi verið þar á meðal. En svo hvarf það af markaðnum í fimmtíu ár.

Screen Shot 2015-12-07 at 8.30.28 PM

Screen Shot 2015-12-07 at 8.31.30 PM

Hvað sem því líður var það ekki fyrr en eftir að innflutningur á Toblerone var gefinn frjáls sem Tobleroneís varð einn vinsælasti hátíðareftirréttur þjóðarinnar þótt einhverjir hafi vafalaust notað það áður til súkkulaðiísgerðar þegar það var til. En ísinn sló líka rækilega í gegn og ég er með útgáfu af honum í bókinni minni, Ömmumatur Nönnu – fannst eiginlega ómögulegt annað en að hafa hann þar með. Kannski er það þó að bera í bakkafullan lækinn að hafa súkkulaðisósu með …

_MG_3509

Allavega, hér er mín útgáfa. Ég var með 200 g af Toblerone (venjulegu, í gulu pökkunum) og byrjaði á að brjóta 100 g af því í bita og setja í pott ásamt 100 ml af rjóma. Hitaði þetta rólega og hrærði stöðugt.

_MG_3511.JPG

Ég tók svo pottinn af hitanum þegar súkkulaðið var byrjað að bráðna (en rjóminn má alls ekki fara að sjóða) og hrærði áfram þar til blandan var slétt. Ja, eða eins slétt og hún getur orðið, hnetubitarnir bráðna náttúrlega ekki saman við … Svo setti ég hana til hliðar og lét hana kólna alveg. Eða niður í stofuhita.

_MG_3515

Ég stífþeytti svo 150 ml af rjóma (notaði semsagt 250 ml samtals).

_MG_3517

Svo þeytti ég 4 eggjarauður og 4 msk af púðursykri mjög vel saman.

_MG_3531

Svo hrærði ég kaldri súkkulaðiblöndunni rólega saman við …

_MG_3540

Síðan grófsaxaði ég afganginn af súkkulaðinu (100 g) og blandaði því og þeytta rjómanum gætilega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju.

_MG_3542

Ég setti svo ísblönduna í form – ég notaði silíkonform en annars er best að klæða formið innan með plastfilmu, þá er auðveldara að ná ísnum úr – og frysti í nokkrar klukkustundir.

_MG_3707

Ég tók svo ísinn úr frysti nokkru áður en átti að borða hann svo að hann mýktist aðeins og bjó til volga súkkulaðisósu til að hafa með.

_MG_3737

Ég setti 100 ml af rjóma (má vera mjólk), 75 g af suðusúkkulaði, 3 msk af ljósu sírópi og 3 msk af smjöri í pott, hitaði rólega og hrærði þar til allt var bráðið og vel samlagað.

_MG_3753.JPG

En það má alveg sleppa sósunni sko …

*

Tobleroneís

200 g Tobleronesúkkulaði

250 ml rjómi

4 eggjarauður

4 msk púðursykur

*

Súkkulaðisósa

100 ml rjómi eða nýmjólk

75 g suðusúkkulaði

3 msk ljóst síróp

3 msk smjör

2 comments

  1. Sæl Nanna,
    Alltaf gaman að lesa og prófa uppskriftirnar þínar 😘 Í nýjasta póstinum um Toblerone stendur ljóst sinnep sem á örugglega að vera ljóst síróp 😉 Bara svona svo hægt sé að breyta því.
    Bestu kveðjur úr Súðavík, Guðrún Long

    • Já, takk, mér var strax bent á þetta og breytti því – þetta var annaðhvort eitthvert autocorrect eða samsláttur í heilabúinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s