Íslenska brjóstsykursgerðin ehf.

 

Þetta blogg er nú ekki búið að vera beint sykurlaust að undanförnu. Enda sagði ég það svosem þegar ég hætti að borða sykur fyrir ári síðan að það þýddi ekkert að ég væri hætt að nota sykur. Hreint ekki. Og þar sem hefur verið töluverður jólaundirbúningsfílingur hér  á blogginu að undanförnu (þótt ég sé svosem ekki í neinum jólaundirbúningi sjálf, ég skreyti ekki, set ekki upp jólaljós, aðventukrans eða neitt, ekkert jólatré og jólabakstur verður í lágmarki, jólaveislan verður fjórum dögum fyrir jól og ég fer úr landi og held svosem engin jól þar sem ég verð) – þá hefur líka verið töluverður sykur. Jújú.

Ég ætla samt að setja inn einhverjar sykurlausar uppskriftir á næstu dögum. Og reyndar kannski eina eða tvær eggjalausar en með sykri, en það er önnur saga. En áður en ég vind mér í sykurleysið er best að setja hér eina almennilega sæta uppskrift. (Og ef þið rekist einhvers staðar á orðið ,,sinnep“ í henni, þá eru það örugglega pennaglöp. Eða fingraglöp, því ekki skrifa ég með penna.)

Ég gerði nefnilega brjóstsykur sem hluta af jólaundirbúningsþætti í nóvemberblað MAN. Það þarf ekki að vera sérlega flókið. Þessir molar, gerðir úr hráefni sem flestir eiga til í skápunum, minna á brenndan Bismarck, sem voru uppáhaldsmolarnir mínir þegar ég var lítil. Því miður get ég ekki notið þessara en smakkararnir mínir fullvissa mig um að þeir séu góðir. Úr þessum skammti verða svona 400 grömm af brjóstsykri.

Það er mjög góð hugmynd að byrja á að lesa uppskriftin í gegn fyrst og tína allt til. Það er náttúrlega alltaf góð hugmynd að lesa uppskriftina áður en hafist er handa en hér er það sérlega mikilvægt; sumt þolir ekki að bíða á meðan maður er að leita að einhverju hráefni eða róta í skúffum í leit að áhaldi. Hér tala ég af reynslu._MG_0565

Ég byrjaði á að breiða bökunarpappírsörk á bökunarplötu og hafa tilbúna. Svo setti ég 40 g af smjöri, 125 g af púðursykri, 250 g af ljósu sírópi, 1 msk af vatni og 1 tsk af ediki í pott og hitaði. Hrærði nokkrum sinnum á meðan sykurinn var að leysast upp en ekki eftir það.

_MG_0567

Ég sauð karamelluna við góðan hita þar til hún var 145°C á sykurhitamæli.

_MG_0570

Einnig má hafa tilbúna skál með ísköldu vatni og prófa karamelluna öðru hverju með því að láta nokkra dropa drjúpa af sleif út í vatnið; þegar karamellan er dökkgullinbrún og droparnir harðna um leið og þeir koma út í vatnið er hún tilbúin.

_MG_0572

Ég tók pottinn af hitanum um leið og réttu hitastigi var náð, hrærði 1 tsk af vanilluessens og 1/2 tsk af matarsóda saman við karamelluna …

_MG_0574

… og hellti henni svo strax á pappírsklædda plötuna.

_MG_0579

Ég byrjaði strax að ýta brúnunum inn að miðju með sleikju eða spaða …

_MG_0581

… og hélt því áfram þar til karamellan hafði kólnað svo að hægt var að taka á henni …

_MG_0583

… en var  þó enn vel heit og mjúk (það má nota hanska til að hlífa höndunum).

_MG_0589

Þá byrjaði ég að toga hana og teygja, brjóta saman og e.t.v. snúa upp á hana.

_MG_0592

Ég teygði hana smám saman í fremur mjóar lengjur. Það er um að gera að vera fremur handfljótur við þetta því þegar karamellan fer að kólna aðeins harðnar hún og ekki hægt að teygja hana eða móta lengur.

_MG_0598

Ég raðaði svo lengjunum á bökunarpappír og lét þær harðna, það tekur ekki langan tíma.

_MG_0764

Svo þegar stengurnar hafa kólnað og harðnað má brjóta þær í lengjur …

_MG_0743

… eða þá í litla mola. Eða klípa, ef maður á svona fína alvöru sykurtöng. Þessi er hundrað og eitthvað ára gömul og fannst í garði í Norður-Englandi, kolryðguð. Hún virkar samt alveg.

*

Heimagerður brjóstsykur

40 g smjör

125 g púðursykur

250 g ljóst síróp

1 msk vatn

1 tsk edik

1 tsk vanilluessens

1/2 tsk matarsódi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s