Eggjalausar sörur

Sko, ég veit ég sagði í gær eitthvað um að nú ætlaði ég að hvíla uppskriftir með sykri og kannski setja einhverjar sykurlausar. Sem ég ætlaði að gera – og geri. En þegar ég skrifaði þetta var alveg stolið úr mér að ég var búin að lofa einhverjum eggjalausum smákökuuppskriftum. Og þær innihalda sykur (allavega þær sem ég kem með núna). Svo að þessar sykurlausu bíða aðeins.

Svo minni ég á að það eru tvær þrjár smákökuuppskriftir í Sætmeti án sykurs og sætuefna. En smákökur eru samt eitt af því sem er ekkert rosalega auðvelt að gera þegar maður er í þeim gír. Það er miklu auðveldara að gera eggjalausar smákökur. Líklega voru flestar smákökurnar sem mamma bakaði þegar ég var barn eggjalausar; það var ekki verið að bruðla með egg í Djúpadal eftir að mamma gafst upp á hænsnarækt út af helvítis minknum.

Svo að hér kemur eggjalaus uppskrift og önnur á eftir. Eða tvær. En ég er samt ekkert að fara að gera eggjalausa bók, sko. Engar áhyggjur.

Hérna eru þá eggjalausar sörur, hvorki meira né minna. Þær eru gerðar samkvæmt beiðni – jæja, eða spurningu um hvort ég gæti gert svoleiðis. Ég hefði ekki gert það annars því ég er satt að segja ekki mikið fyrir sörur og þær hafa aldrei verið partur af jólabakstrinum hjá mér. Ekki lakkrístoppar heldur, svona er ég nú óþjóðleg.

Ég hef ekki smakkað þessar en vinnufélagarnir sáu um það – bæði fyrri tilraunina, sem var ekki alveg að marka því ég átti ekki nóg möndlumjöl þegar til átti að taka en féll samt í nokkuð góðan jarðveg og svo þá seinni, sem þótti bara ansi góð. Möndlumakrónurnar sjálfar eru ekkert mál en ég veit svosem ekki enn hvað væri besta lausnin með kremið. Kremið sem ég gerði í seinna skiptið þótti alveg ágætt en það mætti líka nota súkkulaðismjörkrem með háu smjörhlutfalli eða jafnvel ósætt döðlusúkkulaðismjörkrem (sem er uppskrift að í Sætmeti án sykurs, svo ég haldi nú áfram að plögga).

Allavega, einhverjir muna kannski að ég skrifaði um daginn um marens úr aquafaba, það er að segja soði úr kjúklingabaunadós. Sem var einmitt það sem ég notaði hér.

Já, og mér fannst þessar satt að segja minna vesen en venjulegar sörur.

_MG_2189

Ég semsagt opnaði kjúklingabaunadós (baunirnar fóru seinna á pönnuna með blálöngu, tómötum og basilíku og urðu kvöldmatur en það er önnur saga), hellti 100 g af leginum í hrærivélarskálina og þeytti á mesta hraða þar til froðan var hálfstíf. Þá þeytti ég 150 g af sykri saman við smátt og smátt.

Já, þetta á myndinni hér fyrir ofan er kjúklingabaunasoð og sykur. Ekkert annað. Og nei, það verður ekki kjúklingabaunabragð af sörunum.

_MG_4283

Svo blandaði ég 150 g af möndlumjöli gætilega saman við með sleikju.

_MG_4287

Svo setti ég marensinn í rjómasprautu og sprautaði frekar litlar doppur á bökunarpappír. Ég bakaði þær í miðjum ofni við 100°C í 1 klst og 15-30 mínútur, eða þar til kökurnar voru stökkar og þurrar.

_MG_4291

Svo lét ég þær kólna alveg á grind. – Þetta eru reyndar kökurnar úr fyrri tilrauninni, þær voru ívið ljósari en hinar því það var minna möndlumjöl í þeim. Þær voru líka mun viðkvæmari og molnuðu frekar.

_MG_4322

Þá var það kremið. Ég ákvað eins og ég sagði að nota rjómaosti í það svo ég tók 200 g af rjómaosti, 150 g af smjöri, 60 g af ljósu sírópi, 75 g af sykri (eða eftir smekk; ég renndi svolítið blint í sjóinn en smakkararnir mínir sögðu að kremið hefði verið mátulega sætt), 1 tsk af vanilluessens og 3 sléttfullar matskeiðar af kakódufti. Eða meira, eftir smekk. Svo má líka setja 1 tsk af fínmuldu skyndikaffidufti út í ef maður vill svolítið mokkabragð. Ég setti þetta allt í matvinnsluvél og maukaði vel saman.

Ég sprautaði vænni klessu á botninn á hverri köku (má líka setja með skeið) og sléttaði aðeins með hnífsblaði til að kremið yrði svolítið keilulaga. Svo setti ég kökurnar í frysti í svona 20 mínútur. Það má líka bara kæla þetta vel í ísskáp en ég var að flýta mér.

_MG_4295

Ég bræddi svo 150 g af Síríus suðusúkkulaði í mínum ágæta súkkulaðipotti (eða bara í skál yfir potti), tók kökurnar úr frysti og dýfði kremhliðinni í súkkulaði. Svo má alltaf bæta við súkkulaði ef þetta er ekki nóg.

_MG_4331

Ég raðaði kökuum á grind (eða nei, ég sé á myndinni að ég notaði bara álpappírsklædda bökunarplötu) og lét súkkulaðið storkna alveg.

_MG_4334

Þær litu nú bara nokkuð vel út og voru fljótar að klárast í vinnunni í morgun.

_MG_4364

Þær þurfa að geymast í kæli og ef þær eiga að geymast lengur en fáeina daga er líklega best að hafa þær í frysti.

Eggjalausar sörur

100 ml lögur úr kjúklingabaunadós

150 g sykur

150 g möndlumjöl

1 klst 15-20 mín við 100°C

*

Krem

200 g rjómaostur

150 g smjör, mjúkt

60 g ljóst síróp

75 g sykur, eða eftir smekk

1 tsk vanilla

3 sléttfullar msk kakóduft

*

160-200 g suðusúkkulaði

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s