Og aðeins meira eggjalaust. Ég var spurð um uppskrift að einföldum smákökum, t.d. súkkulaðibitakökum með hnetusmjöri, og hér eru tvær útgáfur. Hráefnin eru að mestu leyti þau sömu en útkoman er býsna ólík.
Ég gerði fyrst útgáfu með svolitlu kjúklingabaunasoði (aquafaba) í stað eggja. Ég held að kökurnar hafi verið bara alveg ágætar, þær voru að minnsta kosti fljótar að klárast í vinnunni í morgun, en svo fannst mér þegar ég var að hugsa um þetta í dag að það væri kannski ekki gott að vera bara með kjúklingabaunasoð þótt það sé stórskemmtilegt hráefni, svo að ég gerði aðra tilraun þegar ég kom heim og notaði þá ávaxtamauk (barnamat úr krukku – ég var með perumauk en það má líka nota t.d. eplamauk). Og þær kökur urðu allt öðruvísi. Reyndar voru líka svolítið önnur hlutföll á öðru hráefni.
Ég tók engar myndir af undirbúningi í fyrri tilrauninni en ég byrjaði semsagt á að hita ofninn í 180°C og svo setti ég 3 msk af legi úr kjúklingabaunadós í hrærivélarskálina, þeyta létt og þeyta svo 200 g af sykri saman við (engin marensþeyting hér samt). Svo þeytti ég 150 g af hnetusmjöri, 50 g af linu smjöri og 1 tsk af vanillu saman við. Blandaði 100 g af hveiti og 1 tsk af lyftidufti saman og hrærði saman við (það má bæta við svolitlu hveiti ef deigið er blautt og klessist við hendurnar) og að lokum saxaði ég 100 g af suðusúkkulaði og blandaði saman vð með sleikju (ég hefði notað súkkulaðidropa ef ég hefði átt þá).
Svo mótaði ég kúlur (24 stk.) úr deiginu, flatti þær aðeins út á milli lófanna, setti þær með góðu millibili á tvær pappírsklæddar bökunarplötur og bakaði á næstefstu rim í ofninum í 8-10 mínútur – vissara að fylgjast með síðustu mínúturnar. Lét kökurnar kólna á grind.
Eggjalausar hnetusmjörs-súkkulaðibitakökur 1
3 msk lögur úr kjúklingabaunadós
200 g sykur
150 g hnetusmjör
50 g smjör
1 tsk vanilla
100 g hveiti
1 tsk lyftiduft
100 g súkkulaði
180°C í 8-10 mínútur
*
Og svo er það hin útgáfan. Aftur hitaði ég ofninn í 180°C.
Ég hrærði saman 100 ml af perumauki (barnamat úr krukku), 125 ml af hnetusmjöri, 115 g af sykri, 100 g af linu smjöri og 1 tsk af vanilluessens þar til blandan var alveg slétt.
Svo hrærði ég saman við 150 g af hveiti, 1 tsk af lyftidufti, 125 g af súkkulaðidropum (því nú átti ég þá) og ákvað svo að bæta við 50 g af jarðhnetum en það má alveg sleppa þeim eða nota aðrar hnetur. Þetta deig ákvað ég að hafa ívið blautara en hitt, það klesstist dálítið við hendurnar þegar ég var að móta það, en ef það er svo blautt að ekki er hægt að meðhöndla það má bæta við dálitlu hveiti.
Ég gerði úr þessu frekar litlar kúlur – þetta passaði á tvær bökunarplötur og það fóru 20 kúlur á hvora. Flatti þær ekkert út.
Svo bakaði ég kökurnar á næstefstu rim í 8-10 mínútur og lét þær kólna á grind.
Sko, það er ekki búið að smakka þessar enn. En þær líta vel út, ilma vel og eru fallegar í sárið …
… og ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að þær séu bara ágætar. En það kemur betur í ljós á morgun.
Þetta eru semsagt býsna ólíkar kökur, þessar eru bústnar og mjúkar, hinar flatar og stökkar.
Eggjalausar hnetusmjörs-súkkulaðibitakökur 2
100 ml peru- eða eplamauk
125 ml hnetusmjör
115 g sykur
100 g smjör
1 tsk vanilla
150 g hveiti, eða eftir þörfum
1 tsk lyftiduft
125 g súkkulaðidropar
50 g jarðhnetur (má sleppa)
8-10 mínútur við 180°C