Sykurlausar smákökur, já. Þær eru svosem ekki það auðveldasta … Tertur, skúffukökur, múffur, formkökur, bökur – það er ekkert mál að gera alls kyns gómsætar sykurlausar kökur af því tagi. Smákökur eru meira vesen. Eða öllu heldur, það er erfiðara að gera þær nógu sætar til að fólki finnist þær eins og þær eiga að vera.
Þetta er reyndar ekki vandamál fyrir mig, ég er búin að vera sykurlaus (fyrir utan ávexti og þess háttar) það lengi að ég finn sæta bragðið mun betur og þarf þar af leiðandi minna af því. Mér finnst þessar kökur sem hér koma uppskriftir að fínar og hæfilega sætar en ýmsir væru sjáfsagt á öðru máli – þær eru allavega ekki eins sætar og maður á venjulega von á að smákökur séu. En þær eru nú alveg þokkalega hollar, held ég …
Ég notaði blöndu af heilhveiti og möndlumjöli í aðra sortina vegna þess að ég sneiði að miklu leyti hjá hvítu hveiti. Það má alveg nota það og þá yrðu kökurnar líklega svolítið ,,smákökulegri“ eða kannski minna ,,hollustulegar“ … Í hinum er kókosmjöl en ekkert hveiti (og ekkert glúten, ef þið eruð í þeim gírnum).
Kókosmjölskökurnar eru úr bókinni minni, Sætmeti án sykurs og sætuefna. Hinar kökurnar samdi ég bara núna í morgun af því að mig langaði í eitthvað með kaffinu. Það vill svo til að ég tók engar myndir af undirbúningnum eða bakstrinum í hvorugt skiptið, aldrei þessu vant, svo þið fáið bara myndir af kökunum.
Fyrst eru það þá rúsínu-möndlukökurnar sem ég bakaði í morgun.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C og svo steinhreinsaði ég döðlur – ætli þær hafi ekki verið 12-14, ég þurfti 160 g (vigtaðar steinlausar) og maukaði þær svo í matvinnsluvélinni með 100 g af linu smjöri. Hrærði svo 1 egg og 1/2 tsk af vanilluessens saman við.
Svo blandaði ég saman 50 g af möndlumjöli, svona 125 g af heilhveiti og 1 tsk af lyftidufti og hrærði saman við deigið. Það getur verið að það þurfi aðeins meira heilhveiti, deigið á að vera þannig að það sé hægt að móta úr því kúlur með höndunum (en þær eiga samt að vera blautar þannig að deigið klessist dálítið vil lófana). Það má líka nota hvitt hveiti og svo má sleppa möndlumjölinu og nota bara meira hveiti. Mér finnst það samt betra svona.
Svo blandaði ég 60 g af rúsínum og 40 g af möndluflögum saman við deigið með sleikju. Mótaði svo frekar litlar kúlur, flatti þær aðeins út á milli lófanna og raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu. Þær mega vera frekar þétt, ættu ekki að fljóta mikið út.
Ég bakaði svo kökurnar á næstefstu rim í 8-10 mínútur, eða þar til þær voru svolítið farnar að taka lit. Lét þær kólna í fáeinar mínútur á plötunni og færði þær svo yfir á grind.
Svo eru það kókoskökurnar úr bókinni minni:
Ég byrjaði á að mæla 200 g af kókosmjöli. Setti 150 g af því til hliðar en setti 50 g í matvinnsluvél og lét hana ganga smástund til að mala það fínna. Svo bætti ég 100 g af ósætu hnetusmjöri, 1/2 vel þroskuðum banana og 80 g af steinhreinsuðum döðlum út í og maukaði saman við og bætti svo við 2 eggjum, 80 g af linu smjöri og 1 tsk af vanilluessens.
Síðan blandaði ég mestöllu ómalaða kókosmjölinu (það er svolítið misjafnt hvað kókosmjöl tekur upp mikinn vökva og ekki víst að þurfi að nota allt), ásamt 1/2 tsk af matarsóda, salti á hnífsoddi, 75 g af rúsínum og 75 g af hnetum saman við deigið. Láttu standa á meðan ofninn er hitaður í 180°C. Kókosmjölið sýgur í sig vökva á meðan svo að það er eiginlega nauðsynlegt að láta deigið standa smástund.
Ég athugaði svo hvort það væri hæfilega þykkt (það þarf að halda lagi en það á ekki að móta það með höndunum) og ef það er of þunnt má blanda svolítið meira kókosmjöli saman við. Ég setti það svo með teskeið á tvær pappírsklæddar bökunarplötur. Bleytti fingurgómana og flatti kökurnar aðeins út og lagaði þær e.t.v. eitthvað ef þær voru mjög óreglulegar. Þær munu ekki fljóta út eða lyfta sér neitt sem heitir.
Ég bakaði svo kökurnar á efstu rim í ofni í um 8 mínútur (vissara að fylgjast með þeim síðustu eina eða tvær mínúturnar) og lét þær svo kólna á grind.
*
Rúsínu-möndlukökur
um 35 kökur
160 g döðlur, steinlausar
100 g lint smjör
1 egg
½ tsk vanilluessens
50 g möndlumjöl
125 g heilhveiti, eða eftir þörfum
1 tsk lyftiduft
60 g rúsínur
40 g möndluflögur
*
180°C, um 8 mínútur.
*
Kókoskökur með ávöxtum og hnetum
35−40 kökur
200 g kókosmjöl
100 g hnetusmjör, ósætt
½ banani, vel þroskaður
80 g döðlur, steinhreinsaðar
2 egg
80 g lint smjör
1 tsk vanilluessens
½ tsk matarsódi
svolítið salt
75 g rúsínur
75 g jarðhnetur
180°C í um 8 mínútur.