Aðeins meira sykurleysi … Ókei, það eru döðlur í þessu og þær eru náttúrlega uppfullar af ávaxtasykri, vissulega. En það eru nú trefjar með og einhver hollusta svo að þetta er eitthvað skárra en sykur, hann er jú bara innantómar hitaeiningar …
Og svo er þetta heldur ekki eitthvað sem maður á að gúffa í sig eins og það sé poppkorn eða eitthvað. Nei, einn moli er fínn, tveir kannski. Og svo bara geyma hitt í frysti, þá freistast maður síður í það. Það er nefnilega best að borða ekki of mikið af neinu, heldur ekki því sem maður heldur að sé hollt (sem þessir molar eru alls ekki, en kannski örlítið minna óhollir en eitthvað með hvítum sykri og svoleiðis). Allt er best í hófi og sumt í miklu hófi …
Svo ég vitni nú í sjálfa mig, nánar til tekið í formála að næstu bók minni, sem var einmitt að fara í prentun: ,,Auðvitað skiptir líka máli hvað maður lætur ofan í sig en matur sem hefur á sér hollustustimpil er ekki endilega hollur ef maður borðar hann án umhugsunar og í óhófi. Nokkrar möndlur eru gott nasl milli mála en ef þú opnar möndlupoka og situr svo og teygir þig í hverja möndluna af annarri og stingur upp í þig umhugsunarlaust er pokinn orðinn tómur fyrr en varir. Og það eru nokkuð margar hitaeiningar.“
Ókei, nú er ég búin að slá nokkra varnagla og hér er nammið. Þetta er sérlega gómsætt döðlukonfekt (já, ég veit að döðlunammi er orðin alveg svakaleg klisja). Svipuð uppskrift er í bókinni Sætmeti án sykurs en þar er konfektið bragðbætt með lakkrísdufti (enn meiri klisja). Hér notaði ég hins vegar pistasíur og ljósar rúsínur út í en það má nota hvaða hnetur og ávexti sem er, eða sleppa því alveg.
Ég byrjaði á að steinhreinsa 200 g af döðlum (vigtaðar þegar búið er að taka steinana úr) og setti þær í matvinnsluvél ásamt 100 g af kókosolíu, 40 g af kakódufti, 1 tsk af vanilluessens og svolitlu salti, og maukaði vel saman.
Svo grófsaxaði ég 70 g af pistasíuhnetum og blandaði þeim saman við með sleikju ásamt 60 g af ljósum rúsínum. Það má líka nota aðra þurrkaða ávexti, smátt saxaða, og aðrar tegundir af hnetum.
Ég klæddi svo lítið, ferhyrnt form innan með bökunarpappír, setti maukið í það …
… og sléttiðu vel úr því. Lagði svo bökunarpappírsörk ofan á og setti formið í kæli í nokkar klukkustundir eða yfir nótt.
Ég hvolfdi svo súkkulaðimassanum á bretti …
… og skar hann í ferninga. Fjöldinn fer náttúrlega eftir því hvað maður vill hafa molana stóra en þetta urðu 25 molar hjá mér.
Molana er best að bera fram kalda (og ekki verra að hafa svolítið púrtvín með).
Þeir geymast í nokkrar vikur í ísskápnum en það er líka tilvalið að frysta þá og það dregur líka úr líkum á að maður falli í freistni og borði of marga í einu.
Súkkulaði-döðlu-pistasíumolar
200 g döðlur, steinhreinsaðar
100 g kókosolía
40 g kakóduft
1 tsk vanilluessens
salt á hnífsoddi
70 g pistasíuhnetur
60 g rúsínur, gjarna ljósar (má sleppa)