Ef ég rekst á frosna kalkúnaleggi í búðum kaupi ég þá gjarna því þeir eru nokkuð sem mér finnst gott að eiga í frysti og geta gripið til um helgar – og þeir fást langt frá því alltaf svo það er gott að birgja sig upp þegar maður nær í þá. Ég held að kalkúnabringur séu að verða algengari í búðum og það ætti auðvitað jafnframt að þýða að maður sæi meira af leggjum og lærum því það er jú eitt af hvoru fyrir hvern bringuhelming …
Helgar, segi ég, því að þótt leggirnir séu ekki dýrir eru þeir ekki eitthvað sem maður hendir í ofninn þegar maður kemur heim úr vinnunni og hefur í kvöldmatinn. Þeir eru hins vegar afbragðsgóður matur ef þeir eru eldaðir hægt og lengi í ofnpotti. Þeir geta orðið enn bragðbetri ef þeir eru maríneraðir, eins og hér er gert, en það er þó ekki nauðsynlegt.
Hér er alltsvo kalkúnaleggjaréttur sem ég eldaði í haust. Uppskriftin birtist í Stundinni með grein sem ég skrifaði um hægeldun á kjöti. Ég var með fjóra kalkúnaleggi og þeir voru held ég í stærra lagi svo það má áætla einn á mann. Ég lét þá þiðna í ísskápnum.
Svo blandaði ég saman 2 msk af olíu, 2 msk af rauðvínsediki, 3-4 timjangreinum, 2-3 rósmaríngreinum, (má líka nota þurrkaðar kryddjurtir og ég notaði einmitt þurrkað rósmarín þarna), 1/2 tsk af kanel og dálitlum pipar og salti saman í eldföstu móti, velti kalkúnaleggjunum upp úr leginum og lét liggja í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Ég sneri leggjunum nokkrum sinnum. (Það er samt ekkert svo krítískt að maður þurfi að stilla vekjaraklukkuna til að snúa þeim, sko. Og það má líka sleppa því að marínera þá og krydda þá bara með ofantöldu.)
Ég hitaði ofninn í 150°C o. Strauk kryddlöginn af leggjunum og þerraði þá létt með eldhúspappír. (Ekki henda kryddleginum sem þeir lágu í.) Svo tók ég steypujárnspott (eða einhvern víðan pott sem má fara í ofn; það má líka brúna leggina á pönnu og setja þá svo í eldfast mót með loki en þá er gott að hita mótið fyrst í ofninum). Hitaði 2 msk af olíu í honum …
… og brúnaði leggina vel á öllum hliðum.
Ég saxaði svo tvo lauka, 3-4 hvítlauksgeira og 3 gulrætur og setti út í ásamt einu lárviðarlaufi þegar ég var búin að snúa leggjunum í síðasta skipti.
Ég lét þetta krauma smástund og hellti svo kryddleginum sem leggirnir höfðu legið í yfir. Ef leggirnir voru ekki maríneraðir má bara nota það sama og sett var í kryddlöginn.
Ég bætti svo við svona 600 ml af vatni, hleypti upp suðu og setti svo þétt lok á pottinn og setti hann í ofninn í 2½ klst.
Þá tók ég pottinn snöggvast úr ofninum og hækkaði hitann í 200°C. Tók lokið af pottinum (og fjarlægði mest af kryddjurtunum ef þær liggja ofan á eins og þarna er) og setti svo pottinn aftur í ofninn – án loks – og lét hann vera þar í 20-30 mínútur í viðbót.
Þá tók ég pottinn aftur út. Tók leggina upp úr, setti þá á fat og hélt þeim heitum. Síaði soðið, fleytti fitu ofan af, setti það aftur í pottinn og hitaði að suðu. Þykktu sósuna ögn með sósujafnara, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
Berðu leggina fram t.d. með sætkartöflustöppu, kartöflusalati eða eplasalati, ásamt sósunni.
Hægeldaðir kalkúnaleggir
4 kalkúnaleggir
4 msk olía
2 msk vínedik
2-3 rósmaríngreinar
3-4 timjangreinar (eða þurrkaðar kryddjurtir)
½ tsk kanell
nýmalaður pipar
salt
2 laukar
3-4 hvítlauksgeirar
2-3 gulrætur
1-2 lárviðarlauf
600 ml vatn, eða eftir þörfum
sósujafnari
2 1/2 klst við 150°C, svo 20-30 mínútur við 200°C.