Sinnep með skinkunni – eða einhverju öðru

Ég pæklaði og steikti svínslæri fyrir Þorláksmessu eins og venjulega – það var reyndar með minna móti í ár, ekki nema 10,5 kíló, enda var ekki sérlega mikið eftir af því þegar upp var staðið. Sem var ágætt.

En ég var búin að ákveða að gera nokkrar tegundir af sinnepi til að hafa með skinkunni. Það er reyndar einfaldara mál en margir halda – maður þarf ekkert endilega að hafa sérstaka skál og aldagamla fallbyssukúlu og velta þessu með lærunum eins og gert var í Landanum um daginn – mér dugir alveg mortél  til að steyta og hræra grófkorna sinnep og fínt sinnep, gert úr sinnepsdufti, er nú hægt að hræra bara í skál.

En ég gleymdi mér, það er nefnilega best (en þó ekki bráðnauðsynlegt) að gera sinnepið með einhverjum fyrirvara og láta það taka sig í nokkra daga en ég mundi ekki eftir þessu fyrr en kvöldið fyrir Þorlák. Og svo var ansi margt eftir að gera og þótt ekki taki langan tíma að gera smáskammt af sinnepi ákvað ég að láta tvær sortir duga, grófa og fína.

Ég spilaði bara af fingrum fram, var ekki með neinar uppskriftir, og það tókst ágætlega. Að minnsta kosti kláruðust báðar sortirnar algjörlega á Þorláksmessu, fleiri en einn og fleiri en tveir báðu um uppskriftir en þær voru náttúrlega ekki til. Og svo vildu bandarísku blaðakonurnar sem voru hjá mér líka fá uppskriftir og þá vandaðist málið og ég sá að ég yrði að reyna að endurgera sinnepin. (Ég mundi reyndar nokkurn veginn hvað ég hafði gert en var ekki viss með hlutföllin.)

Og hér er svo uppskrift að grófa sinnepinu, vonandi nokkurn veginn alveg eins og það var á Þorláksmessu, held ég. Nema þetta er ögn þykkara . En ekkert mál að þynna það svolítið, til dæmis með hvítvíni, bjór, eplasafa eða bara vatni. Það eina sem gildir er að vökvinn þarf að vera kaldur. Hiti dregur úr bitinu í sinnepinu (en ef þið viljið milt sinnep er það náttúrlega í góðu lagi).

Fína sinnepið kemur væntanlega fljótlega.

IMG_7761

Ég notaði einn lítinn bauk af mustarðskornum (sinnepsfræjum), sem er 4 msk (60 ml, 1/4 amerískur bolli). Gulu mustarðskornin eru mildari en þau brúnu og svörtu en þau sér maður sjaldan hér. Svo var ég með 1 msk af sinnepsdufti, Coleman’s, sem er auðvitað bara fínmöluð mustarðskorn. Það má alveg sleppa þeim en þá er gott að bæta við 1 msk af mustarðskornum og byrja á að mala þau mjög fínt í mortéli.

Mér finnst gott að hafa smávegis sætu í flestum sinnepstegundum svo ég var með 1 msk af þunnu hunangi. Svo var ég með 2 msk af ólífuolíu, svört piparkorn, gróft salt og 1 rósmaríngrein (og bætti svo annarri við).

Ég vissi þegar ég horfði á þetta að það vantaði eitthvað … en það var ekki fyrr en ég var byrjuð sem það rann upp fyrir mér að ég hafði notað edik, sem er oftast í heimagerðu sinnepi (þó ekki alltaf). Svo ég náði í eplaediksflöskuna og notaði 2 msk úr henni.

IMG_7765

Þarna er ediksflaskan komin … Ég setti mustarðskornin, piparkornin og saltið í mortél og byrjaði að steyta. Kornin eru hörð og það þarf að steyta þau góða stund til að þau verði hæfilega möluð.

IMG_7770

Stauturinn í þessu mortéli er þungur og það þarf ekkert að berja á kornunum, bara hræra stöðugt í hringi, þá malast þau smám saman án mikillar áreynslu. Auðvitað má líka nota t.d. kryddkvörn. En ég vil helst hafa þau dálítið misgróf, sum í duft, önnur heil eða grófmöluð og hin þar á milli.

IMG_7773

Þegar mér þóttu kornin hæfilega möluð setti ég sinnepsduftið út í mortélið og síðan edikið og olíuna og hrærði þetta allt saman með stautnum. Auðvitað má líka hella öllu í skál og hræra þar en mér fannst þægilegast að nota bara mortélið áfram.

IMG_7778

Svo hrærði ég hunanginu saman við.

IMG_7779

Og saxaði rósmarínið smátt og blandaði saman við. Það mætti líka nota ýmsar aðrar kryddjurtir í staðinn fyrir rósmarín – timjan mundi t.d. passa mjög vel. Eða sleppa kryddjurtum.

IMG_7780

Og þá er sinnepið eiginlega bara tilbúið, nema maður vilji hafa það þynnra og þá má eins og ég sagði hræra smáskvettu af t.d. hvítvíni, bjór, eplasafa eða köldu vatni saman við.

IMG_7855

Og svo er bara að setja það í krukku og helst geyma í fáeina daga áður en byrjað er að nota það. En það ætti að geymast ágætlega í ísskáp.

IMG_7869

Dálítið þykkt eins og ég sagði. En þá er bara að þynna það … Reyndar man ég núna að mustarðskornin halda áfram að taka upp vökva í nokkurn tíma svo líklega þarf ég eftir 1-2 vikur að hræra upp í sinnepinu og blanda ögn af ediki og vatni eða öðrum vökva saman við. Ef það endist svo lengi …

Rósmarín-hunangssinnep

4 msk (60 ml) gul mustarðskorn (sinnepsfræ)

1/2 tsk svört piparkorn

1/2 tsk gróft salt

2 msk epla- eða hvítvínsedik, eða eftir smekk

2 msk ólífuolía

1 msk þunnt hunang

nálar af 1-2 rósmaríngreinum

e.t.v. vökvi til að þynna með

4 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s