Hversdagsnostalgía

Mér finnst alveg passlegt að jólin standi í viku eða svo. Má kannski teygja þau yfir átta daga ef vel stendur á svo að þau dekki áramótin líka. En ekki lengur. Tek þó fram að þetta er mín persónulega skoðun og ég er alveg sátt við að sumir hafi þau mun lengri þótt mér þyki fullangt að teygja þau um það bil frá fyrsta vetrardegi fram í þorrabyrjun eins og er hjá sumum. Af öllu má nú ofgera.

En þar sem mín jól byrjuðu á laugardaginn var, þegar ég fór af stað í Þorláksmessuundirbúninginn og jólabaksturinn (hefði nú kannski farið fyrr í bakkelsið en geymdi það til að blaðamenn og ljósmyndari frá bandaríska matarblaðinu Saveur, sem fylgdust með mér meira og minna í jólaundirbúningi og jólahaldi, gætu myndað baksturinn), þá fannst mér hæfilegt að ljúka þeim í gær og tók það litla jólaskraut sem upp hafði farið niður og setti í kassa. Jólamatar- og kökuleifar eru uppétnar nema eitthvað smávegis sem fór í frost og allur frágangur búinn.

Þannig að nú er ég hætt að elda sparimat í bili. Nema kannski á nýársdag, þá getur nú verið að einhverjir komi í mat, en á gamlárskvöld er ég annarsstaðar í mat. Svo að það verður hversdagsmatur og líklega fremur af þjóðlegra taginu því ég er að vinna í nýrri útgáfu bókar sem ég gaf út í Bandaríkjunum fyrir tólf árum, Icelandic Food and Cookery, og þarf að prófa ýmislegt.

Bæði í tengslum við það, og líka af því að ég verð nú þrátt fyrir allt oft pínu nostalgísk í kringum jólin, og svo af því að ég var nýbúin að gera þetta fína sinnep, þá datt mér í hug réttur sem ég eldaði stundum ýmis afbrigði af fyrir svona 15-20 árum. Eitt þeirra er einmitt í Icelandic Food and Cookery en þar notaði ég reyndar karfa – mér finnst ég sjaldan sjá hann núna en hins vegar er næstum alltaf til blálanga, sem mér þykir með betri fiskum. En það má nota ýmsa hvíta fiska. Ég notaði kúrbít, sem þá var frekar nýmóðins grænmeti, en stundum líka papriku eða annað grænmeti. Aðalatriðið er að skera það nógu fínt svo það þurfi stutta eldun.

Allavega, hér er mjög ójólaleg uppskrift. Samt ekki svona janúaraðhaldsmegrunarátaksuppskrift því það er bæði smjör og rjómi í henni. Og kolvetni í gulrótunum og alles.

IMG_7784

Ég eldaði semsagt skammt fyrir tvo og notaði rétt rúmlega 200 g af löngu (lítil flök og fremur þunn), 3 gulrætur, meðalstórar, 1/2 lítinn kúrbít, 1 lauk, 1 kúfaða teskeið af grófkorna sinnepi (sem þarf ekkert að vera heimatilbúið sko), 25 g af smjöri, 1 msk af ólífuolíu, 150 ml af rjóma, pipar og salt.

Eins og ég sagði mætti alveg nota annað grænmeti, t.d. papriku, blaðlauk eða hnúðkál, svo eitthvað sé nefnt.

IMG_7786

Ég byrjaði á að flysja gulrótina og kúrbítinn (hýðið má reyndar alveg vera á honum en það var farið að láta aðeins á sjá svo ég ákvað að flysja hann) og svo skar ég hvorttveggja í þunnar sneiðar og staflaði sneiðunum svo upp og skar þær í mjóa stauta, helst ekki mikið sverari en eldspýtur (ókei, frekar klossaðar eldspýtur) og skar stautana svo í bita, kannski svona 5-6 cm langa.

IMG_7789

Ég flysjaði svo laukana, helmingaði þá og skar helmingana í þunnar sneiðar sem ég losaði svo í sundur svo þær urðu líka eins og stafir – bara bognir …

IMG_7795

Ég bræddi svo smjörið á pönnu, skar lönguna í bita, kryddaði bitana með pipar og salti og brúnaði þá við nokkuð góðan hita – fyrst á ,,efri hliðinni“ í tvær mínútur eða svo, síðan á roðhliðinni í eina mínútu eða svo. Tók svo fiskinn af pönnunni og geymdi á diski.

IMG_7799

Bætti olíunni á pönnuna og setti svo gulrætur, kúrbít og lauk á hana. Steikti við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til grænmetið var byrjað að mýkjast dálítið, og hrærði oft á meðan. Kryddaði með pipar og salti.

IMG_7802

Þá setti ég sinnepið á pönnuna, hellti rjómanum út á, hrærði og hitað að suðu.

IMG_7810

Svo setti ég fiskinn aftur á pönnuna (ýtti grænmetisstautum til hliðar til að gera pláss fyrir hvern bita um sig) og lét malla við hægan hita í 3-4 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn og grænmetið orðið meyrt.

IMG_7846

Ég hafði soðnar kartöflur og salatblöð með, það var alveg ágætt.

Fiskur með grænmeti í sinnepsrjómasósu

400 g blálanga eða annar fiskur

pipar

salt

2-3 gulrætur

1/2 kúrbítur

1 laukur

25 g smjör

2 tsk ólífuolía

150 ml rjómi

1 kúfuð tsk grófkorna sinnep

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s