Grænmeti fremur en sætmeti

Hér á bæ er það yfirlýst stefna að jólabakkelsið á helst að klárast á Þorláksmessu eða alls ekki síðar en á annan í jólum og leifar af jólamatnum verða að vera uppurnar eða frágegnnar og komnar í frost ekki seinna en á þriðja í jólum: Þá tekur hversdagurinn við. Ég kann ágætlega að hagnýta leifar en leiðist að gera það marga daga í röð, en það er nú ekki ástæðan – nei, ástæðan er einfaldlega sú að mér finnst hversdagsmatur almennt meira spennandi en sparimatur (þótt góður sé) og mér finnst meira gaman að elda hversdagsmat.

(Reyndar á ég eftir að elda sparimat oní fjölskylduna á nýársdag en þá ætla ég bara að róta í andaskúffunni í frystiskápnum og gá hvað ég finn og elda það af fingrum fram og eftir því hvað til er í skápunum, svona til að fá einhverja spennu í þetta … (Andaskúffan geymir þrátt fyrir nafnið ekki eingöngu kjöt af öndum en þar er þó aðallega fuglakjöt og villibráð.) Eftirrétturinn verður líklega gerður á svipaðan hátt.)

Mér finnst líka yfirleitt meira gaman að elda mat en baka kökur og útbúa sætmeti. Ég sé að sumir matarbloggarar, íslenskir og útlendir, eru núna með lista yfir tíu vinsælustu uppskriftir ársins hjá sér eða eitthvað svoleiðis og í flestum tilvikum sýnist það aðallega vera sætmeti af einhverju tagi, kökur og desertar. Ég athuga aldrei hvað er vinsælast hér á blogginu en ákvað að gera undantekningu og hefði satt að segja orðið fyrir miklum vonbrigðum ef það hefðu verið næstum eintómar kökur og kruðerí. En það var nú ekki, til allrar hamingju. Meiraðsegja komust grænmetis- og fiskréttir á blað, það þótti mér gott að sjá.

Í tilefni af því er hér grænmetisréttur – grænkál, sveppir og fleira gott. Hentar ágætlega sem aðalréttur, til dæmis með góðu brauði eða með soðnum hrísgrjónum eða einhverju slíku (þ.e. ef maður er ekki í einhverjum lágkolvetnapaleofasa) en getur líka verið meðlæti með kjöti eða fiski. Uppskriftin birtist áður í 3. tbl. MAN.

Grænkál er harðgert og stendur lengi fram eftir hausti, oft fram á vetur. Það hefur verið ræktað mjög lengi og er skyldara villtu káli en flestar aðrar káltegundir. Hérlendis hefur það verið ræktað frá því á 19. öld og var áður mun algengara en það er nú en á síðustu árum hefur það þó komist aftur í tísku og það er til dæmis vinsælt að skera það fremur smátt, velta því upp úr ólífuolíu og salti, baka við vægan hita þar til það er stökkt og borða sem snakk.

IMG_3477

Þessi uppskrift er miðuð við tvo sem aðalréttur en gæti verið fyrir fjóra sem meðlæti. Ég notaði 200 g af grænkáli, 250 g af sveppum, 1 rauða papriku (eða reyndar bara hálfa en hefði notað heila ef ég hefði átt hana), 2 hvítlauksgeira, pipar, salt, 2 msk af balsamediki, 10-12 svartar, steinlausar ólífur, 2 msk af ólífuolíu, 10 sólþurrkaða tómata í olíu, 100 ml af vatni og 2 tsk af hunangi (má sleppa og er ekki á myndinni).

IMG_3485

Ég byrjaði á að taka grænkálsblöðin, skera stönglana úr  þeim (svona upp undir mið blöð eða heldur ofar) og saxaði þau síðan gróft.

IMG_3488

Svo þvoði ég sveppina og þerraði þá (já, það er í góðu lagi að þvo sveppi, sjá hér) og skar þá svo í fjórðunga (helminga ef þeir eru litlir). Ég saxaði líka hvítlauksgeirana smátt.

IMG_3490

Ég hitaði olíuna á pönnu, setti sveppi og hvítlauk á hana, kryddaði ögn með pipar og salti og lét krauma í um 5 mínútur við meðalhita.

IMG_3491

Þá skar ég niður paprikuna, setti hana á pönnuna og lét krauma áfram smástund, þar til sveppirnir voru aðeins byrjaðir að taka lit.

IMG_3493

Svo setti ég grófsaxað grænkálið á pönnuna og hrærði vel við meðalhita…

IMG_3499

…  skar sólþurrkaða tómata og ólífur í bita og hrærði saman við, ásamt hunanginu (sem er ekki bráðnauðsynlegt eins og fyrr sagði, það er smekksatriði). Svo hellti ég vatninu yfir, lækkaði hitann og lét malla við vægan hita í hálflokuðum potti í um 10 mínútur, eða þar til mestallur vökvinn var gufaður upp.

IMG_3518

Þá hrærði ég balsamedikinu saman við, smakkaði, kryddaði aðeins með pipar og salti …

IMG_3510

… og hellti svo öllu af pönnunni í skál.

IMG_3560

Ég átti nýbakað flatbrauð með grófu salti sem smellpassaði með en annars má nota hvaða gott brauð sem er. Eða hafa þetta sem meðlæti eins og ég sagði áður.

Steikt grænkál með sveppum

200 g grænkál

250 g sveppir

2 hvítlauksgeirar

2 msk ólífuolía

pipar

salt

1 rauð paprika

10 sólþurrkaðir tómatar í olíu

10-12 ólífur

100 ml vatn

2 tsk hunang (má sleppa)

2 msk balsamedik

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s