Jæja, átveislan mikla búin og aðhaldið tekið við, er það ekki? Hvort heldur er í kaloríum eða um budduna …
Ég lauk reyndar jólunum í gær, eins og ég held að ég hafi verið búin að nefna, með tiltekt í andaskúffunni í frystiskápnum mínum. Fékk börn, tengdabörn og barnabörn í mat og ákvað að kaupa ekkert, leita bara í skúffunni (sem er ekki alveg réttnefnd, en þó er aðallega fuglakjöt í henni). Þar var ekkert sem var nógu stórt eitt sér fyrir sjö manns (þar af nokkur átvögl) en hins vegar minni stykki. Svo ég ákvað að hafa bara samtíning og til að gera þetta aðeins meira spennandi ákvað ég ekki hvað af þessu ég ætlaði að elda fyrr en búið var að loka búðum í nágrenninu á gamlársdag. Þá fór ég yfir innihald skúffunnar og tók út kalkúnabringu, stokkönd, eina andabringu, eina gæsabringu, sex rjúpnabringur og eina skoska rjúpu (hélt ég, en reyndist vera lynghæna við nánari athugun). Þetta eldaði ég hvert með sínu móti – eldunaraðferðir og meðlæti réðist nú mest af því hvað ég átti til – og bar fram á nýárskvöld ásamt reyndar grafinni gæsabringu sem ég hafði útbúið á milli jóla og nýárs. Allir urðu saddir og ég held bara nokkuð sáttir.
Kannski koma uppskriftir að einhverju af þessu seinna en það er ekki alveg tíminn fyrir það núna. Hér er aftur á móti uppskrift sem er ekkert endilega aðhaldsleg en veldur allavega ekki hevví massa kjötsvima. Hún er þó ekki kjötlaus með öllu en það má auðvitað líka sleppa skinkunni.
Mér fannst alltaf að vöfflur – eða vöpplur, eins og þær hétu á mínu bernskuheimili – gætu ekki verið annað en sætt bakkelsi, með sykri, sultu, rjóma og öðru slíku, og þegar ég heyrði fyrst talað um ósætar vöfflur fannst mér það fáránleg tilhugsun. En það er langt síðan og ég hef alveg vanist öðrum siðum … Hér er semsagt uppskrift að ósætum vöfflum, sem eru sérlega fljótlegar og góðar til morgunverðar eða í hádegismat eða brunch, einar sér, með smjöri eða með áleggi. Þær eru líka góðar með súpu.
Í þessari uppskrift notaði ég blöndu af heilhveiti og hveiti en það má nota annað hvort eingöngu eða nota t.d. spelt í staðinn. En ef þið eruð á LKL eða glútenlausu fæði verðið þið að bjarga ykkur sjálf, ég er ekkert inni í svoleiðis. – Uppskriftin birtist áður í 2 tbl. MAN.
Engar myndir af vöfflubakstrinum, ég tók þær reyndar en þær eru fastar inni á annarri tölvu, sem er biluð (og ef ég þarf að senda hana í aðra rúmlega þriggja vikna viðgerð sem er svo ekki viðgerð hjá epli.is fer ég að gráta, eða fer allavega í verulega, vont skap) verulega. En þeirra ætti nú reyndar ekki að þurfa með.
Ég notaði belgískt vöfflujárn en það er auðvitað hægt að nota venjulegt. Uppskriftin er fyrir 8 vöfflur, þ.e. fjórar tvöfaldar, og deigið ætti alveg að geymast til næsta dags í ísskáp ef maður vill bara steikja úr helmingnum og eiga afganginn til að steikja úr morguninn eftir.
Ég notaði semsagt 2 egg, 200 ml mjólk, 60 g af rjómaosti (mætti líka nota t.d. kotasælu), 2 msk af olíu (og aðeins meira til að steikja úr), 125 g af heilhveiti, 100 g af hveiti, 1 1/2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti (kannski aðeins meira ef ekki er notuð hráskinka) og pipar á hnífsoddi. Og svo nokkrar sneiðar af hráskinku (kannski 60-70 g), 1 graslauk (bara græna hluta blaðanna) og nokkur basilíkulauf. En í sjálfu sér er hægt að nota alls konar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar, og svo má líka blanda ýmsu grænmeti saman við, svo framarlega sem það er mjög smátt skorið, til dæmis papriku í mismunandi litum, eða mjög smátt söxuðum sveppum (gott að setja þá snöggvast í matvinnsluvélina).
Ég byrjaði á að hita vöfflujárnið, auðvitað, og ef ég hefði ætlað að bera allar vöfflurnar fram samtímis hefði ég líklega hitað bakarofninn í 80−100°C og stungið vöfflunum inn í hann um leið og þær voru teknar úr járninu á meðan ég hefði verið að ljúka steikingunni því þær eru óneitanlega bestar svolítið volgar þótt þær séu alveg ágætar kaldar líka.
Ég hrærði saman egg og rjómaost í skál og þeytti svo mjólk og olíu saman við. Blandaði síðan heilhveiti, hveiti, lyftidufti, salti og ögn af pipar saman við og hrærði soppuna þar til hún var nokkurn veginn slétt. Ég saxaði svo hráskinkuna, graslaukinn og basilíkuna nokkuð smátt og blandaði saman við soppuna með sleikju.
Síðan bar ég ögn af olíu á vöfflujárnið og setti svo u.þ.b. fjórðung af deiginu í það og bakaðu vöfflurnar við meðalhita í 4−5 mínútur eða þar til þær voru orðnar gullinbrúnar og stökkar og bakaðar í gegn. – Ég fyllti vöfflujárnið viljandi ekki alveg því svona vöfflur finnst mér flottara að hafa svolítið óreglulegar í laginu. En ef maður vill hafa vöfflurnar alveg ferkantaðar má bæta við aðeins meira af hveiti og mjólk svo soppan sé örugglega nógu mikil.
Það má alveg borða vöfflurnar eintómar eða með smjöri en það er líka gott að setja álegg á þær. Til dæmis góðan ost eða kannski bar ameiri hráskinku, eins og hér sést.
Vöfflur með kryddjurtum og hráskinku
2 egg
60 g rjómaostur
200 ml mjólk
2 msk olía (og aðeins meira til steikingarinnar)
125 g heilhveiti
100 g hveiti
1½ tsk lyftiduft
¼ tsk salt
svolítill pipar
nokkrar sneiðar af hráskinku
1 graslaukur (grænu blöðin)
nokkur basilíkulauf
[…] svo gott) og vöpplurnar þurfa ekkert að vera sætar. Ég hef áður verið með uppskrift að vöfflum með kryddjurtum og hráskinku og svo eru ósætar vöfflur í nýju bókinni minni. En þá var það sem ég setti út í meira […]