Ég hef ekkert sett hér inn að undanförnu – var nærri búin að segja ,,síðan í fyrra“ en það er nú ekki alveg rétt, það var víst eftir áramót sem ég var síðast með uppskrift. Það er annars vegar vegna þess að ég hef verið frekar önnum kafin hér heima, reyndar við matseld og skrif, en fæst af því á nú erindi hér inn – og þó, það er aldrei að vita hvað ég geri seinna – en þetta er aðallega fyrir endurútgáfuna á Icelandic Food and Cookery, sem ég nefndi hér um daginn. Þjóðlegir íslenskir réttir af ýmsu tagi. Jú, kannski á eitthvað af því einmitt vel heima hér. En ég tók nú lítið af myndum af matargerðinni.
Hin ástæðan er að tölvan mín var með uppsteit og neitaði að kveikja á sér og varatölvan er h – æ – g. Svo hæg að sú jákvæða, geðprúða og þolinmóða manneskja sem ég er (veit reyndar ekki hvort sumir afkomendur mínir mundu alveg skrifa upp á þetta með þolinmæðina) var alveg að verða vitlaus. En nú eru strákarnir í Macland búnir að kippa þessu í lag fyrir mig (fartölvunni alltsvo, þarf að fara með varatölvuna til þeirra líka til að gá hvort ekki er hægt að fá hana til að spretta aðeins úr spori). Svo að hér er þá uppskrift.
Þetta er uppskrift sem ég gerði fyrir MAN og birtist í nóvemberblaðinu. Hún átti vel við á haustdögum en ennþá betur núna – yljandi, notaleg og ódýr. Hún tekur tíma og hentar því vel um helgina – það er hægt að gera fljótlegar útgáfur en hún er langbest ef maður gefur henni þann tíma sem hún þarf eiginlega. Þetta er nefnilega frönsk lauksúpa.
Það eru til alls konar útgáfur af þessari frægu frönsku súpu og hægt að deila endalaust um hvað sé rétt. Í þeirri deilu fæst örugglega aldrei niðurstaða en algengast er að skilgreina súpuna þannig að í henni sé laukur sem er hægbrúnaður eða karamelliseraður, nautasoð og svo er brauð sett ofan á súpuskálarnar, rifnum osti stráð yfir og súpan gratíneruð. Ekkert af þessu er þó algilt; sumir stytta sér leið og strá t.d. sykri yfir laukinn til að hann brúnist fyrr, nota kjúklingasoð eða jafnvel vatn í stað nautasoðs eða sleppa brauðinu og ostinum.
Talið er að súpan hafi orðið til sem fátækramatur, enda er laukur afar ódýrt hráefni, en í mjög mörgum útgáfum er þó hvítvín eða sérrí og jafnvel koníak líka. Ég sleppi því í uppskriftinni en ef maður á 100-200 ml af þurru hvítvíni sem liggja undir skemmdum er meira en sjálfsagt að nota það.
Ég notaði 500-600 g af lauk, eitt baguettebrauð (heimabakað; það má líka nota nokkrar sneiðar af stærra brauði), 60 g af smjöri (og meira til að smyrja brauðið), hvítlauksgeira, salt og pipar, 1 msk af hveiti, 1 msk af balsamediki, 1 msk af nautakrafti, 1 l af vatni og 100 g af osti (sterkum enskum cheddar).
Ég byrjaði á að flysja laukana og skar þá svo í þunnar sneiðar (ef þeir eru stórir er e.t.v. gott að skera þá fyrst í helminga eða fjórðunga).
Síðan bræddi ég smjörið í potti, setti laukinn út í ásamt svolitlu salti og lét krauma við mjög vægan hita (allra lægstu stillingu) …
… þar til laukurinn var orðinn dökkgullinbrúnn – það gæti tekið klukkutíma. Já, ég sagði að þetta væri eitthvað til að elda um helgi. Hrærði öðru hverju á meðan.
Galdurinn á bak við góða lauksúpu er að gefa lauknum tíma til að brúnast almennilega og það tekur tíma. Það er hægt að flýta fyrir með því að strá svona ½ -1 tsk af púðursykri yfir þegar laukurinn er búinn að krauma smástund en mér finnst þó betra að hafa bara náttúrulegt sætubragð lauksins. Það þarf ekkert að vakta laukinn eins og smábarn á meðan hann er að brúnast, bara hræra á 5-10 mínútna fresti eða svo.
Þegar mér fannst laukurinn orðinn hæfilegur stráði ég timjani og hveiti yfir og hrærði vel. Bætti svo balsamediki, vatni (og þarna hefði ég sett hvítvínið ef ég hefði átt það til), kjúklingakrafti og pipar í pottinn, hitaði að suðu og lét malla í um hálftíma. Smakkaði þá súpuna og bragðbætti aðeins með pipar og salti.
Ég hitaði svo grillið í ofninum. Skar 8 sneiðar af baguettebrauðinu. Skar hvítlauksgeirann í tvennt og nuddaði brauðið með skurðfletinum.
Ég smurði sneiðarnar létt með smjöri á báðum hliðum, raðaði þeim á plötu og ristaðu þær á báðum hliðum undir grillinu. Um að gera að fylgjast vel með þeim, þær eiga rétt að byrja að taka lit en ekki brenna.
Ég jós súpunni í fjórar hitaþolnar skálar – reyndi að passa að hafa álíka mikinn lauk í hverri skál um sig – og setti þær á bökunarplötu. Setti brauðsneiðarnar ofan á súpuna – tvær baguettesneiðar á hverja en það hefði eins getað verið ein stærri sneið á hverja.
Að lokum reif ég ostinn og hrúgaði honum ofan á brauðsneiðarnar. Setti skálarnar undir grillið í ofninum í nokkrar mínútur, þar til osturinn var alveg bráðinn.
Best að vera ekkert að bíða, heldur bera súpuna fram strax.
Það er eiginlega erfitt að hugsa sér betri vetrarsúpu.
Tilbrigði við franska lauksúpu
500-600 g laukur
60 g smjör (og meira til að smyrja brauðið)
salt
lauf af nokkrum timjangreinum (um 1 tsk)
1 msk hveiti
1 msk balsamedik
1 l vatn
1 msk nauta- eða kjúklingakraftur
pipar
baguettebrauð (eða annað brauð)
1 lítill hvítlauksgeiri
100 g ostur
[…] réttinn en það eru til ýmsir góðir réttir þar sem laukurinn er í aðalhlutverki og þar er franska lauksúpan auðvitað þekktust. En það er hægt að gera margt annað, bæði úr venjulegum lauk og […]